Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Svandís segir stjórnendur Landspítala bera ábyrgðina á Landakoti

Það er ekki á ábyrgð heil­brigð­is­ráð­herra að stýra mönn­un inn­an heil­brigðis­kerf­is­ins né held­ur ber ráð­herra ábyrgð á starfs­um­hverfi starfs­fólks spít­al­ans, seg­ir í svari Svandís­ar Svavars­dótt­ur heil­brigð­is­ráð­herra við fyr­ir­spurn Stund­ar­inn­ar. Ábyrgð­in sé stjórn­enda Land­spít­al­ans.

Svandís segir stjórnendur Landspítala bera ábyrgðina á Landakoti
Segir ásættanlegt að nýta Landakot áfram Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að með nauðsynlegum sóttvörnum sé ásættanlegt að reka áfram öldrunarhjúkrunardeild á Landakoti. Stjórnendur Landspítala hafa lýst því að vegna skorts á mannafla hafi ekki verið hægt að hólfaskipta Landakoti í sóttvarnarskyni. Þá kemur fram í innri úttekt Landspítala að ástand húsnæðisins, vöntun á loftræstikerfi og aðbúnaðar á Landakoti sé ófullnægjandi og líklegt sé að þessir þættir séu megin orsök þess hversu mikil dreifing varð á smiti innan stofnunarinnar. Mynd: Heiða Helgadóttir

Mönnun á Landakoti er á ábyrgð stjórnenda Landspítala, og það er þeirra hlutverk að manna þjónustu á spítalanum innan þeirrar fjárveitingar sem Alþingi ákveður. Það er ekki á ábyrgð heilbrigðisráðherra að stýra mönnun innan heilbrigðiskerfisins og kjaramál heilbrigðisstarfsfólks heyra ekki undir heilbrigðisráðherra. Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Stundarinnar um málefni Landakots og Landspítala.

Hópsýkingin sem kom upp á Landakoti í síðari hluta október mánaðar er alvarlegasta atvik sem komið hefur upp í íslenskri heilbrigðisþjónustu að mati landlæknis og sóttvarnarlæknis. Þrettán manns létust af völdum hennar og um tvö hundruð manns veiktust. Innri úttekt Landspítala sýnir að húsnæðið á Landakoti og aðbúnaður þar var ófullnægjandi og eru meðal þess sem að líkum olli mikilli dreifingu smits COVID-19 veirunnar. Þá var mönnun einnig ónóg og kom í veg fyrir að hægt væri að tryggja hólfaskiptingu milli deilda til að verjast því að farsóttin bærist um spítalann. Loks var tækjakostur á Landakoti ekki nægjanlegur svo nauðsynlegt reyndist að fara með tæki milli deilda með tilheyrandi áhættu.

Segir kjaramál heilbrigðisstarfsfólks ekki heyra undir heilbrigðisráðherra

Stundin fjallaði í ítarlegu máli um hópsýkinginu á Landakoti í síðasta tölublaði, sem út kom 13. nóvember. Við vinnslu þeirrar umfjöllunar var ítrekað reynt að fá viðbrögð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í varðandi málið, en án árangurs. Stundin sendi formlega fyrirspurn í fjórtán liðum á ráðherra 17. nóvember, eftir að skýrsla um innri úttekt Landsspítala á hópsýkingunni á Landakoti hafði verið birt. Svandís svaraði fyrirspurninni í dag og má lesa hana og svör ráðherra í heild sinni neðst í fréttinni.

„Það er hlutverk stjórnenda Landspítala að manna þjónustuna innan þeirrar fjárveitingar sem Alþingi ákveður“

Meðal þess sem spurt var um var hví Landspítalinn hefði verið settur í þá stöðu að búa ekki yfir nægilegum mannafla til að hólfaskipta Landakoti. Í svari Svandísar kemur fram að heilbrigðisráðherra vinni að langtímaáætlun um mönnun heilbrigðiskerfisins en stýri henni ekki frá degi til dags. „Það er hlutverk stjórnenda Landspítala að manna þjónustuna innan þeirrar fjárveitingar sem Alþingi ákveður,“ segir í svarinu.

Þá var að því spurt hvort heilbrigðisráðherra hyggðist leysa mönnunarvanda Landspítala, og þá mögulega með því að laungreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks yrðu hækkaðar. „Rétt er að nefna að kjarasamningar og launamál heilbrigðisstarfsfólks heyra ekki undir heilbrigðisráðherra,“ sagði í svari Svandísar. Fjárveitingarvald í ríkisfjármálum liggur hjá Alþingi, rétt eins og heilbrigðisráðherra nefnir og sjá má hér að framan. Á Alþingi fara þrír flokkar með stjórnarmeirihluta, Vinstri græn, sem er flokkur Svandísar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Saman mynda þessir flokkar þrír ríkisstjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, samflokkskonu Svandísar. Í því ljósi má ljóst vera að það er í höndum stjórnarmeirihlutans, sem Svandís tilheyrir sannarlega, hvaða fjármunum er varið til heilbrigðisþjónustu, bæði hvað varðar kjör heilbrigðisstarfsfólks og einnig aðbúnað, byggingar og tækjakost heilbrigðiskerfisins.

Segir stjórnendur Landspítala ekki hafa lýst áhyggjum við sig

Í fyrirspurninni til heilbrigðisráðherra var einnig spurt hví ekki hefði verið brugðist við mönnunarvanda á Landspítala eftir að COVID-19 faraldurinn skall á. Svar ráðherra var hið sama og rakið er hér að framan, það sé hlutverk stjórnenda heilbrigðisstofnana að manna starfsemi þeirra.

„Húsnæði smitar ekki þótt það geti verið hamlandi þáttur við framkvæmd smitvarna“

Þegar spurt var hvort ásættanlegt væri að nota Landakot undir öldrunarþjónustu eða heilbrigðisþjónustu yfir höfuð, í ljósi þess hversu bágborið húsnæðið væri, var svar Svandísar að svo væri, með nauðsynlegum sóttvörnum, enda væri ekki annar kostur betri í núverandi faraldri. „Húsnæði smitar ekki þótt það geti verið hamlandi þáttur við framkvæmd smitvarna,“ segir í svarinu.

Á upplýsingafundi Landspítala 13. nóvember síðastliðinn, þar sem efni skýrslu um innri úttekt spítalans á hópsýkingunni var kynnt, sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, aðspurður að ítrekað og um langt skeið hefðu stjórnendur spítalans lýst áhyggjum sínum af húsnæðismálum á Landakoti. „Við höfum endurtekið í gegnum tíðina komið áhyggjum á framfæri við stjórnvöld, á ýmsum tímum.“ Spurð hvort stjórnendur spítalans hafi lýst áhyggjum sínum af aðstöðunni á Landakoti við ráðherra frá því í vor og áður en hópsýkingin kom upp svaraði Svandís því neitandi.

Ekki fást svör um hví Landspítalanum sé gert að hagræða

Fyrir liggur að Landspítalanum er gert að hagræða í rekstri sínum á fjárlögum næsta árs. Deilt er um hvort sú aðhaldskrafa nemi 400 milljónum eða 4,3 milljörðum, sem er sú upphæð sem uppsafnaður halli á rekstri spítalans nemur. Þó er ljóst að Landspítala verður gert að vinna upp þann hallarekstur á þremur árum, að því er fram kemur í frétt á vef heilbrigðisráðuneytisins frá 23. nóvember síðastliðnum. Því er ljóst að hagræðingaraðgerðir í rekstri spítalans munu nema gott betur en 400 milljóna króna aðhaldskröfu.

Spurð hvers vegna Landspítalanum sé gert að fara í hagræðingaraðgerðir í rekstri á næsta ári í ljósi stöðunnar, kórónaveirufaraldurs og ófullnægjandi viðhalds á húsnæði, svarar Svandís því ekki, nema að því marki að Landspítala sé ekki gert að fara í meiri hagræðingaraðgerðir en aðrar heilbrigðisstofnanir. „Landspítala er ekki gert að fara í hagræðingaraðgerðir umfram aðrar opinberar heilbrigðisstofnanir sem allar fá hagræðingarkröfu upp á 0,5%,“ segir í svarinu. Eftir stendur að í heimsfaraldri kórónaveiru er Landspítala gert að mæta aðhaldskröfu upp á 400 milljónir króna og jafnframt að hefjast handa við að greiða niður halla upp á 4,3 milljarða króna, sem á að vera lokið á þremur árum.

„Forstóri Landspítala er endanlega ábyrgur fyrir starfsemi spítalans, bæði faglega og fjárhagslega“

Svandís var að lokum spurð hver bæri ábyrgð á því að elsti og viðkvæmasti hópur landsmanna hefði verið settur í aðstæður sem væru þeim sérstaklega hættulegar í COVID-19 faraldrinum, og einnig hver væri ábyrgð ráðherra í málinu. „Forstóri Landspítala er endanlega ábyrgur fyrir starfsemi spítalans, bæði faglega og fjárhagslega,“ segir í svari Svandísar. Hvað varðar ábyrgð hennar sjálfrar felist hún í ábyrgð á „stefnumótun um [svo] á sínu sviði og framkvæmd málaflokksins innan ramma laga og í samræmi við fjárheimildir. Ráðherra skipar forstjóra og fylgir því eftir að stefnu í heilbrigðismálum sé framfylgt í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu og innan ramma fjárlaga hvers árs.“

Fyrirspurnina og svör Svandísar má sjá í heild sinni hér að neðan.

1.        Samkvæmt niðurstöðum innri úttektar Landspítalans um hópsýkinguna á Landakoti var ein ástæða þess að sýkingin dreifðist svo víða sem raun ber vitni skortur á mannafla, ekki var hægt að hólfa spítalann niður í sóttvarnarskyni. Í niðurstöðu skýrsluhöfundar segir að æskilegt hefði verið að bæta þar mönnun. Hvers vegna er Landspítalinn settur í þá stöðu að búa ekki yfir nægilegum mannafla til að það væri ekki hægt?

Svar: Innri úttekt Landspítala er lokið. Nú tekur við rannsókn Embættis landlæknis á málinu. Það er hlutverk stjórnenda Landspítala að manna þjónustuna innan þeirrar fjárveitingar sem Alþingi ákveður, sbr. ákvæði 38. gr. í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um ábyrgð forstöðumanna.

2.        Hyggst heilbrigðisráðherra koma því þannig fyrir að mönnunarvandi Landspítala verði leystur, hugsanlega með hærri launagreiðslum til starsfólks í heilbrigðisþjónustu?

Svar: Mönnun heilbrigðisþjónustu er alþjóðleg áskorun sem kallar á fjölbreyttar lausnir. Ráðherra hefur unnið að því í samræmi við samþykkta heilbrigðisstefnu til ársins 2030 að bæta mönnun í heilbrigðiskerfinu. Starfshópar hafa skilað skýrslum um sérmenntun lækna, fjölgun útskrifaðra hjúkrunarfræðinga og mönnun og menntun sjúkraliða. Nýlega var birt skýrsla ráðuneytisins með greiningu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey þar sem mönnun og framleiðni okkar stærstu heilbrigðisstofnana er borin saman við sambærilegar stofnanir á Skáni í Suður-Svíþjóð. Heilbrigðisþing sem verður haldið 27. nóvember nk. fjallar um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustunni. Heilbrigðisráðuneytið vinnur að langtímaáætlun um mönnun heilbrigðisþjónustunnar en stýrir henni ekki frá degi til dags og rétt er að nefna að kjarasamningar og launamál heilbrigðisstarfsfólks heyra ekki undir heilbrigðisráðherra.

3.        Hvers vegna hefur ráðherra og stjórnvöld ekki brugðist harðar við og tæklað mönnunarvanda á Landspítala af meiri hörku eftir að Covid-19 faraldurinn skall á snemma á þessu ári?

Svar: Sjá svar við spurningu 2. Það er hlutverk stjórnenda heilbrigðisstofnana að manna starfsemi þeirra.
 
4.        Telur heilbrigðisráðherra ásættanlegt að starfsfólk á Landakoti sé sett í hættu í störfum sínum, með því að þurfa að vinna við aðstæður sem skapa þeim og sjúklingum hættu?

Svar:  Nei, það er ekki ásættanlegt ef svo er. Stjórnendur Landspítala bera þó endanlega ábyrgð á starfsumhverfi starfsfólks spítalans og að það uppfylli lagaleg skilyrði. Endanleg niðurstaða um ástæður hópsmitsins á Landakoti verður ekki ljós fyrr en úttekt landlæknis liggur fyrir.

5.        Í skýrslunni kemur enn fremur fram að ástand húsnæðisins á Landakoti sé slæmt. Þröngt sé um starfsemina, sem birtist í því að flestar sjúkrastofur þar séu fjölbýli, sjúklingar þurfi að deila salernisaðstöðu og þá sé oft ekki hægt að virða fjarlægðarmörk. Þá á sé ekki loftræsting á spítalanum. Allt hafi þetta leitt til þess að kórónuveirusmit breiddust út um spítalann. Hvers vegna hafa stjórnvöld ekki brugðist við svo ekki þurfi að halda úti öldrunarhjúkrunardeild í aðstæðum sem þessum?

Svar: Húsnæðið á Landakoti hefur verið þekkt stærð frá byrjun þessa faraldurs. Ekkert húsnæði innan heilbrigðiskerfisins hér á landi uppfyllir í dag ströngustu kröfur um sóttvarnir. Sérstakar sýkingadeildir eru á stórum sjúkrahúsum erlendis og ein slík er fyrirhuguð á NLSH. Hún mun hins vegar aldrei anna öllum sjúklingum og áhættuhópum í faraldri sem þessum og ekki hægt að reikna með því. Þess vegna er mikilvægt að sóttvarnir á hverri heilbrigðisstofnun taki mið af fyrirliggjandi aðstæðum, þ.m.t. húsnæðis. Húsnæði smitar ekki þótt það geti verið hamlandi þáttur við framkvæmd smitvarna.

6.        Í ljósi þessa máls, hópsýkingarinnar á Landakoti sem dregið hefur tólf manns til dauða, hvernig hyggst heilbrigðisráðherra bregðast við þegar kemur að húsnæðismálum Landspítala, þar til nýr Landspítali verður tekinn í gagnið?

Svar: Sjá svar við spurningu 5.

7.        Hvers vegna brást ráðherra og stjórnvöld ekki við óásættanlegri stöðu í húsnæðismálum á Landkoti og skorti á tækjabúnaði eftir að upp kom hópsýking þar í fyrstu bylgju faraldursins í vor? 

Svar: Það er hlutverk stjórnenda heilbrigðisstofnana að forgangsraða tækjum og starfsfólki innan sinnar starfsemi.

8.        Telur heilbrigðisráherra ásættanlegt að notkun Landakots verði fram haldið sem öldrunarhjúkrunardeildar Landspítala, í ljósi þess sem komið hefur fram síðustu daga og í skýrslu spítalans? 

Svar: Já, með nauðsynlegum sóttvörnum.

9.        Telur heilbrigðisráðherra ásættanlegt að nýta Landakot til hjúkrunarþjónustu yfirleitt, í ljósi ofangreinds? 

Svar: Já enda ekki annar kostur betri í núverandi faraldri.

10.        Í skýrslunni kemur fram að tækjakostur á Landakoti sé af skornum skammti, svo nauðsynlegt hafi reynst að nýta ýmis lækningatæki þvert á deildir. Það hafi enn frekar komið í veg fyrir sóttvarnarhólfaskiptingu með því að starfsfólk hafi þurft að fara milli deilda til að sækja umrædd tæki. Hvers vegna er staða Landspítalans með þeim hætti að ekki er tryggt að til staðar sé nægilegur fjöldi nauðsynlegra lækningatækja til að ekki þurfi að rjúfa sóttkvíarhólfun? 

Svar: Þessari spurningu er rétt að beina til stjórnenda Landspítala enda þeirra að sjá til þess að tækjakostur sé fullnægjandi innan ramma fjárheimilda.

11.        Hafði stjórn Landspítala lýst áhyggjum sínum af aðstöðunni á Landakoti við ráðherra frá því í vor og áður en til hópsýkingarinnar í síðasta mánuði kom?

Svar: Nei

12.        Hvers vegna er Landspítalanum gert að fara í hagræðingaraðgerðir í rekstri sínum í fjárlögum ársins 2021, í ljósi þess sem að framan er rakið? 

Svar: Landspítala er ekki gert að fara í hagræðingaraðgerðir umfram aðrar opinberar heilbrigðisstofnanir sem allar fá hagræðingarkröfu upp á 0,5%. Fjárveiting til Landspítala var 73,8 ma.kr fyrir 2020 en verður samkvæmt núverandi stöðu í fjárlagafrumvarpi ársins 2021 77,9 ma.kr.

13.        Hver ber ábyrgð á því að aðstæður elsta og viðkvæmasta hóps þegna landsins voru þeim sérstaklega hættulegar í Covid-19 faraldrinum, eins og ljóst var áður en þessi alvarlega hópsýking kom upp í síðasta mánuði á Landakoti? 

Svar: Forstóri Landspítala er endanlega ábyrgur fyrir starfsemi spítalans, bæði faglega og fjárhagslega, samkvæmt heilbrigðislögum og reglugerð sem  nýlega hafa verið uppfærð í samræmi við Heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Það er aftur á móti ljóst að heimsfaraldur Covid-19 hefur leitt til margra og flókinna áskorana fyrir heilbrigðiskerfi landsins sem ekki var hægt að sjá fyrir áður en faraldurinn skall á.

14.         Hver er ábyrgð heilbrigðisráðherra í málinu öllu? 

Svar: Heilbrigðisráðherra ber ábyrgð á stefnumótun um á sínu sviði og framkvæmd málaflokksins innan ramma laga og í samræmi við fjárheimildir. Ráðherra skipar forstjóra og fylgir því eftir að stefnu í heilbrigðismálum sé framfylgt í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu og innan ramma fjárlaga hvers árs.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Hvað gerðist á Landakoti?

Aðstæður á Landakoti aldrei ræddar í ríkisstjórn
FréttirHvað gerðist á Landakoti?

Að­stæð­ur á Landa­koti aldrei rædd­ar í rík­is­stjórn

Svandís Svavars­dótt­ir heil­brigð­is­ráð­herra seg­ir að al­mennt megi full­yrða að ráð­herra beri ekki refs­ábyrgð á at­höfn­um und­ir­manna sinna. Verði nið­ur­staða at­hug­un­ar land­lækn­is á hópsmit­inu á Landa­koti sú að van­ræksla stjórn­enda Land­spít­al­ans hafi vald­ið hópsmit­inu tel­ur Svandís því ekki að hún beri ábyrgð þar á.

Mest lesið

Tími jaðranna er ekki núna
6
ViðtalFormannaviðtöl

Tími jaðr­anna er ekki núna

Þor­gerð­ur Katrín Gunn­ars­dótt­ir er sá stjórn­mála­mað­ur sem mið­að við fylg­is­mæl­ing­ar og legu flokks­ins á hinum póli­tíska ás gæti helst lent í lyk­il­stöðu í stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­um að lokn­um þing­kosn­ing­um. Þor­gerð­ur boð­ar fækk­un ráðu­neyta, frek­ari sölu á Ís­lands­banka og sterk­ara geð­heil­brigðis­kerfi. Hún vill koma að rík­is­stjórn sem mynd­uð er út frá miðju og seg­ir nóg kom­ið af því að ólík­ir flokk­ar reyni að koma sér sam­an um stjórn lands­ins.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Við mætum í vinnuna til þess að sigra“
4
Á vettvangi

„Við mæt­um í vinn­una til þess að sigra“

Kona sem sit­ur á bið­stofu með fleira fólki er að grein­ast með heila­æxli og það þarf að til­kynna henni það. En það er eng­inn stað­ur sem hægt er að fara með hana á, til að ræða við hana í næði. Í ann­an stað er rætt við að­stand­end­ur frammi, fyr­ir fram­an sjálfsal­ann en þá fer neyð­ar­bjall­an af stað og hama­gang­ur­inn er mik­ill þeg­ar starfs­fólk­ið hleyp­ur af stað. Í fjóra mán­uði hef­ur blaða­mað­ur ver­ið á vett­vangi bráða­mót­tök­unn­ar á Land­spít­al­an­um og fylgst með starf­inu þar.

Mest lesið í mánuðinum

Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns
1
Afhjúpun

Leyniupp­taka lýs­ir vin­ar­greiða og hrossa­kaup­um Bjarna og Jóns

Son­ur og við­skipta­fé­lagi Jóns Gunn­ars­son­ar þing­manns full­yrð­ir í upp­tök­um sem tekn­ar voru af manni sem sagð­ist vera fjár­fest­ir að Jón hafi sam­þykkt beiðni Bjarna Bene­dikts­son­ar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón kom­ist í að­stöðu til veita veiði­leyfi til Hvals hf. Það verði arf­leifð Jóns að tryggja Kristjáni Lofts­syni nán­um vini sín­um leyf­ið. Það sé hins veg­ar eitt­hvað sem eigi að fara leynt.
„Hann sagðist ekki geta meir“
2
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Grunaði að það ætti að reka hana
3
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Myndir af neyðarmóttöku sendar áfram: „Ekki myndir sem ég vildi sjá af sjálfri mér“
6
FréttirKynferðisbrot

Mynd­ir af neyð­ar­mót­töku send­ar áfram: „Ekki mynd­ir sem ég vildi sjá af sjálfri mér“

Lög­reglu var heim­ilt að senda mynd­ir sem tekn­ar voru af Guðnýju S. Bjarna­dótt­ur á neyð­ar­mót­töku fyr­ir þo­lend­ur kyn­ferð­isof­beld­is á verj­anda manns sem hún kærði fyr­ir nauðg­un. Þetta er nið­ur­staða Per­sónu­vernd­ar. Guðný seg­ir ótækt að gerend­ur í kyn­ferð­isaf­brota­mál­um geti með þess­um hætti feng­ið að­gang að við­kvæm­um mynd­um af þo­lend­um. „Þetta er bara sta­f­rænt kyn­ferð­isof­beldi af hendi lög­regl­unn­ar.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár