Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið svarar ekki af hverju þáverandi skrifstofustjóri á skrifstofu sjávarútvegs- og fiskeldis, Jóhann Guðmundsson, var sendur í „ótímabundið leyfi“ frá störfum í júlí í sumar. Þá komst ráðuneytið að því að Jóhann hafði haft afskipti af birtingu nýrra laga um fiskeldi í Stjórnartíðindum í júlí í fyrra. Jóhann hringdi í Stjórnartíðindi og bað um að birtingu laganna yrði frestað um þrjá daga og vísaði til hagsmuna laxeldisfyrirtækja sem áttu að skila inn gögnum til Skipulagsstofnunar degi áður en Jóhann bað um að Stjórnartíðindi birtu lögin.
„Um er að ræða óskráða heimild vinnuveitanda til að afþakka vinnuframlag tímabundið.“
Stundin hefur fjallað um mál Jóhanns síðastliðna viku og hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ákveðið að taka það til skoðunar.
Svar ráðuneytisins er ekki svar við spurningunni
Ráðuneytið segir í svari til Stundarinnar við spurningunni „af hverju“ Jóhann var sendur í leyfi að um sé ræða heimild vinnuveitanda til afþakka vinnuframlag starfsmanns: „Um er að ræða óskráða heimild vinnuveitanda til að afþakka vinnuframlag tímabundið. Hér má til hliðsjónar benda á 17. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna þar sem segir að forstöðumaður ákveði vinnutíma að því marki sem lög og kjarasamningar leyfa.“
Stundin hafði spurt ráðuneytið: „Af hverju var viðkomandi starfsmaður sendur í leyfi þegar upp komst um málið? Fólk er yfirleitt ekki sent í leyfi nema ef það brýtur af sér, siðferðilega eða að lögum.“
Líkt og sést á svari ráðuneytisins þá svarar það ekki spurningunni „af hverju“ Jóhann var sendur í leyfi frá störfum eftir að upp komst að hann hafði haft afskipti af umræddri lagabirtingu. Ráðuneytið rökstyður hins vegar að hafa sent Jóhann í leyfi með tilvísun til „óskráðrar heimildar vinnuveitanda“. Þessi rökstuðningur er hins vegar ekki svar við spurningunni af hverju Jóhann var sendur í leyfi.
Ráðuneytið svaraði því mjög skýrt í síðustu viku að Jóhann hefði verið sendur í leyfi út af þessum afskiptum en getur ekki útskýrt af hverju. „Starfsmaðurinn átti sjálfur frumkvæði að því að setja umrædda beiðni fram í júlí 2019 og fékk engin fyrirmæli um slíkt. Yfirstjórn ráðuneytisins fékk fyrst upplýsingar um samskipti starfsmannsins við Stjórnartíðindi að kvöldi 7. júlí 2020. Þá þegar hófst athugun á málinu og var starfsmaðurinn sendur í ótímabundið leyfi með bréfi dags. 14. júlí. Eins og að framan greinir þá er viðkomandi ekki lengur starfsmaður ráðuneytisins,“ sagði ráðuneytið í síðustu viku.
Spurningunni um af hverju Jóhann var sendur samstundis í leyfi frá störfum er því ósvarað.
Af hverju ráðuneytið kýs að svara ekki spurningunni liggur ekki fyrir. Út frá svarinu að dæma er hins vegar ekki ljóst að Jóhann hafi brotið gegn starfs- eða vinnureglum ráðuneytisins með þessum afskiptum af birtingu laganna. Ef svo var þá segir ráðuneytið það ekki.
Jóhann lét af störfum í ráðuneytinu þegar hann fór í umrætt frí þar sem skipulagsbreytingar í ráðuneytinu gerðu það að verkum að starf hans sem skrifstofustjóra fiskeldis var auglýst og sjávarútvegsmálin fór til annars skrifstofustjóra.
Við starfi skrifstofustjóra fiskeldis og matvælaöryggis tók Kolbeinn Árnason, lögfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri SFS.
Ráðuneytið veit ekki af hverju Jóhann hringdi
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið segir sömuleiðis í svörum sínum að ekki liggi fyrir vitneskja um af hverju Jóhann hringdi umrætt símtal til Stjórnartíðinda og lét fresta birtingu laganna. Stjórnartíðindi urðu samt við beiðni Jóhanns vegna þess að um var að ræða beiðni frá ráðuneytinu sem er stýrt af ráðherranum, Kristjáni Þór Júlíussyni, sem lagði umrætt lagafrumvarp fram.
Stundin spurði: „Af hverju gerði viðkomandi starfsmaður þetta, hringdi umrætt símtal í Stjórnartíðindi? Hvað veit ráðuneytið um það?“
Svar ráðuneytisins við þessar spurningu er: „Eins og áður hefur komið fram átti starfsmaðurinn sjálfur frumkvæði að því að setja umrædda beiðni fram og fékk ekki fyrirmæli um slíkt.“
Miðað við svör ráðuneytisins þá hefur ráðuneytið ekki áhuga á að vita hvort Jóhann gekk erinda einhvers, til dæmis stjórnenda þeirra þriggja laxeldisfyrirtækja - Arnarlax, Fiskeldi Austfjarða og Arctic Fish - sem höfðu hagsmuni af því að birtingu nýju laganna yrði seinkað, þegar hann hringdi umrætt símtal. Ráðuneytið veit því ekki, samkvæmt þessu, og vill heldur ekki vita hvort ráðuneytið var með þessu inngripi starfsmanns þess misnotað í þágu einhverra aðila eða ekki.
Þó ómögulegt sé að fullyrða nokkuð um það þá verður að teljast ólíklegt að Jóhann hafi tekið það upp hjá sjálfum sér, og án þess að vera umbeiðinn eða beittur þrýstingi, að láta fresta birtingu umræddra laga. Af þessu hafði Jóhann enga beina persónulega hagsmuni.
Athugasemdir