Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir menn sem hafi tekið að sér verkefni fyrir Samherja lagða í einelti í fjölmiðlum. Hann ákallar Blaðamannafélagið og segir um ógeðfellda hegðun að ræða.
Þessa afstöðu setur Hannes fram í Facebook-færslu og birtir máli sínu til stuðnings hlekk á frétt Stundarinnar. Sú frétt fjallar um að fyrrverandi blaðamaðurinn og núverandi lögmaðurinn og almannatengillinn Þorbjörn Þórðarsson hafi tekið saman gögn fyrir Samherja til rökstuðnings með kæru Samherja á hendur ellefu starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Þeirri kæru beindi sjávarútvegsfyrirtækið til siðanefndar RÚV vegna þátttöku þeirra í þjóðfélagsumræðu um málefni Samherja á þeirra eigin samfélagsmiðlum. Samherji sakar starfsmenninga um samantekin ráð og ítrekuð brot á siðareglum RÚV.
Hefur áður komið Samherja til varnar
Hannes segir Þorbjörn eitt fórnarlamb þessa meinta eineltis og Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumann og nú ráðgjafa Samherja, annað. „Þetta er ákaflega ógeðfellt,“ skrifar Hannes en útskýrir ekki frekar í hverju eineltið felst.
Stundin og fleiri fjölmiðlar hafa fjallað um að Þorbjörn hafi unnið fyrir Samherja í kjölfar umfjöllunar um starfsemi fyrirtækisins í Namibíu. Þannig hafi hann komið að gerð myndbands Samherja þar sem því var haldið fram að Helgi Seljan, fréttamaður RÚV, hefði falsað gögn sem leitt hefðu til húsleitar Seðlabankans hjá Samherja vegna gruns um brot fyrirtækisins á gjaldeyrislögum.
„Mér finnst þessi hatursherferð gegn Þorsteini Má afar ógeðfelld“
Um Jón Óttar hefur ítrekað verið fjallað enda hann starfsmaður Samherja í Namibíu á meðan að á mútugreiðslum fyrirtækisins til namibískra ráðamanna stóð. Þá hefur einnig verið fjallað um að Jón Óttar hafi meðal annars áreitt Jóhannes Stefánsson, uppljóstrara í Samherjamálinu í Namibíu, og einnig Helga Seljan, fréttamann RÚV.
Hannes hefur áður komið Samherjamönnum til varnar. Þannig sagði hann í Facebook-færslu í nóvember í fyrra, eftir að uppljóstrað var um umfangsmiklar mútugreiðslur Samherja í Namibíu, að Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, væri skapandi dugnaðarforkur. „Mér finnst þessi hatursherferð gegn Þorsteini Má afar ógeðfelld,“ skrifaði Hannes þá. Hannes hefur við fleiri tækifæri tekið upp hanskann fyrir útgerðarfyrirtækið.
Fyrirvari: Í fréttinni er fjallað um málefni tengd Stundinni.
Athugasemdir