Hjálparsamtökin Solaris gera alvarlegar athugsemdir við miðlun Útlendingastofnunar á persónuupplýsingum um fjölskyldumeðlimi Khedr-fjölskyldunnar egypsku. Til stóð að flytja fjölskyldunar nauðuga úr landi 16. september síðastliðinn en það tókst ekkki. Fer fjölskyldan nú huldu höfði en lögregla leitar hennar.
Síðustu daga hefur Útlendingastofnun miðlað ýmsum persónuupplýsingum um fjölskyldumeðlimi, þar á meðal upplýsingum úr viðtölum við fjölskyldumeðlimi við meðferð umsóknar þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi. Þannig var fjallað um viðkvæm persónuleg málefni í tilkynningu á vef Útlendingastofnunar 22. september síðastliðinn, í tengslum við mögulegar kynfæralimlestingar í Egyptalandi.
„Sú ákvörðun stofnunarinnar að opinbera upplýsingar um þessa einstaklinga virðist þjóna þeim tilgangi einum að hafa áhrif á almenningsálit í máli þeirra“
Þá hafi verið settar fram upplýsingar um gildistíma persónuskilríkja fjölskyldumeðlima og samskipti er vörðuðu framlengingu þeirra af hálfu starfsmanna Útlendingastofnunar.
Telja að um gróf brot á persónuvernd sé að ræða
Solaris telja með þessari framgöngu hafi Útlendingastofnun brotið gegn ákvæðum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, stjórnsýslulögum og ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Það hafi Útlendingastofnun og einstakir starfsmenn gert með því að hafa ekki haldið þagnarskyldu og miðlað viðkvæmum persónuupplýsingum um málsmeðferð, málsástæður og persónuleg málefni fjölskyldumeðlima.
„Sú ákvörðun stofnunarinnar að opinbera upplýsingar um þessa einstaklinga virðist þjóna þeim tilgangi einum að hafa áhrif á almenningsálit í máli þeirra. Verður þetta að teljast sérstaklega ámælisvert þegar um er að ræða einstaklinga í viðkvæmri stöðu, þar á meðal ung börn, en persónuupplýsingar barna njóta sérstaklega ríkrar verndar,“ segir í tilkynningu Solaris, sem Sema Erla Serdar, formaður stjórnar ritar undir.
Samtökin hafa því sent áskorun til Persónuverndar, Umboðsmanns Alþingis og Umboðsmanns barna um að taka málið til frumkvæðisathugunar.
Athugasemdir