Hópur af fyrrverandi starfsfólki Messans mótmælti sölu sjávarréttarstaðarins og enduropnun hans á sjöunda tíma síðastliðinn laugardag. Eins og Stundin greindi frá í maí hefur starfsfólkið ekki fengið útborguð full laun frá því í febrúar. Það mótmælti því að nýr eigandi njóti góðs af nafni og orðstír Messans á sama tíma og starfsfólkið sem byggði upp fyrirtækið fær ekki borguð vangoldin laun sín. Fyrrverandi framkvæmdastjóri segist ekki vita hvort eða hvenær starfsfólkið muni fá borgað.
Messanum var lokað 24. mars vegna Covid-19 faraldursins, en starfsfólk hefur ekki fengið útborguð full laun frá því að staðnum var lokað. Skömmu áður en staðurinn var seldur var öllu starfsfólkinu sagt upp.
Veitingastaðurinn var opnaður að nýju þann 3. júlí, en hann er keyrður á nýrri kennitölu með nýjan eiganda sem ber því ekki fjárhagslegar skyldur til fyrrum starfsfólks. Degi síðar mætti hópur sem samanstóð af fyrrverandi starfsfólki, meðlimum róttæka verkalýðsfélagsins IWW og öðru stuðningsfólki. Það mótmælti með skiltum og dreifði bleðlum þar sem atburðarásin var rakin í stuttu máli.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar yfirgáfu viðskiptavinir veitingahúsið þegar þeir gerðu sér grein fyrir ástæðu mótmælanna og var staðnum lokað í kjölfarið.
Skipti sér ekki af stöðu fyrrverandi starfsfólks
Tómas Þóroddsson, sem á og rekur Vor og Kaffi krús á Selfossi, keypti nýverið veitingastaðinn og opnaði að nýju þann 3. júlí. Í samtali við Stundina fyrir mótmælin sagði hann að Messinn hefði verið uppáhalds veitingastaður hans í borginni og því hefði hann sýnt því mikinn áhuga að kaupa hann.
Hann lýsti fundi sem hann átti með Snorra Sigfinnssyni, fyrrum framkvæmdastjóra og eiganda tíu prósent hlutar. „Snorri er frá Selfossi eins og ég, og við erum báðir kokkar, þannig að við höfum alltaf þekkst í gegn um tíðina,“ sagði Tómas. „Ég hitti hann og hann sagði mér að allt væri komið í skrúfu út af Covid og þannig.“
Hann sagði að hann hefði verið búinn að ákveða að kaupa þegar fréttir bárust af vangreiðslum til starfsfólks. „Það er alveg glatað, og ég skil starfsfólkið mjög vel að vera fúlt, að búa í eymd hér á landi með engin laun.“
„Það er alveg glatað, og ég skil starfsfólkið mjög vel að vera fúlt, að búa í eymd hér á landi með engin laun“
Aðspurður hvort hann hafi spurt Baldvin Jóhann Kristinsson, eiganda 90 prósent hlutar, um afdrif starfsfólksins í söluferlinu svaraði Tómas neitandi. „Nei, í sjálfu sér ekki. Ég hef reynt að skipta mér ekki af þessu hjá Baldvini. Það er bara þannig. Ég bauð í staðinn og við ræddum það síðan fram og aftur þangað til við féllumst á söluverð.“ Tómas vildi ekki gefa upp kaupverðið.
Tómas sagðist vonast eftir því að vanskil fyrrum eigenda við starfsfólkið mundu ekki elta hann, og að hann gæti skapað nýjan orðstír byggðan á heiðarlegri framkomu og góðri þjónustu. „Það segir sig sjálft að orðstírinn getur fylgt staðnum. En ég ætla bara að vera heiðarlegur við starfsfólkið mitt og taka vel á móti kúnnum. Ég hef mjög gott orð á mér, óflekkað mannorð, þó ég segi sjálfur frá, eins og af Kaffi krús og Vor og þannig.“
„Ég hef mjög gott orð á mér, óflekkað mannorð, þó ég segi sjálfur frá“
Tómas sagðist ekki hafa haft samband við fyrrum starfsfólkið sem ræddi við Stundina og boðið því starf.
Eigandi þarf að svara fyrir vangoldin laun
Snorri, sem var áður yfirkokkur og framkvæmdastjóri 22 niðri ehf sem rak Messann áður en veitingastaðurinn og eignir þess voru seld, starfar nú sem yfirkokkur Messans. Þrátt fyrir að hafa verið tíu prósent eigandi 22 niðri ehf segist hann ekki vita hvernig standi til að ráðstafa söluverði Messans. Aðspurður hvort hann viti hvað verði um vangoldin laun starfsfólksins svaraði hann: „Ég hef bara ekki hugmynd um það. Baldvin er 90 prósent eigandi og ég hef ekki einu sinni bankaheimild. Ég hef engin yfirráð yfir þessu. Það er bara eitthvað sem Baldvin þarf að svara fyrir. Ég fæ ekki neitt, og ef það yrði eitthvað borgað út þá myndi Baldvin bara taka það til sín, þar sem fyrirtækið skuldar honum svo mikið eftir síðasta árið.“
Samkvæmt ársreikningum hagnaðist 22 niðri ehf um 74,2 milljónir króna 2017, 11,3 árið 2018, en skilaði 6,7 milljóna króna tapi árið 2019. „Mig vantar líka launin mín,“ segir Snorri. „Ég hef ekki fengið þau í fimm mánuði. Ég hef reynt að ná í Baldvin en hann er hættur að svara mér. Ég fékk eitt svar í gær, en annars hef ég sent honum fullt af „meilum“ og Facebook skilaboðum og hef ekki fengið neitt svar. Þetta er bara patt staða og ég veit ekki hvað er og verður. Ég veit bara að Tommi er búinn að opna Messann aftur og fékk mig sem yfirkokk. Ég er ánægður að vera kominn með vinnu.“
Eins og hefur áður verið greint frá fékk starfsfólkið aðeins 40 prósent launa sinna útborguð 1. apríl. Starfsfólkið fékk ekki útborgaðan hlut fyrirtækisins í hlutabótaleið ríkisins og var loksins sagt upp undir lok maí eftir umfjöllun Stundarinnar. Það hefur ekki fengið uppsagnarfrest sinn útborgaðan, en það kemst ekki á atvinnuleysisbætur fyrr en uppsagnarfrestinum er lokið.
Ragnar Ólason, aðstoðarframkvæmdastjóri Eflingar og starfandi yfirmaður kjaramálasviðs, staðfestir við Stundina að einhverjar kröfur fyrrum starfsfólks Messans séu komnar til lögmanna stéttarfélagsins, en að aðrar séu enn í vinnslu. Ef ekki verður brugðist við þeim kröfum innan ákveðins tímaramma geta lögmenn Eflingar meðal annars farið fram á gjaldþrotaskipti 22 niðri ehf og gert kröfu fyrir vangoldin laun í þrotabú fyrirtækisins.
Ekki náðist í Baldvin við vinnslu þessarar fréttar. Í samtali við DV segir Tómas að hann ætli að heyra í Baldvini og spyrja hann hvað hann ætli að gera í málinu.
Athugasemdir