Alþýðusamband Íslands (ASÍ) kallar eftir því að ítarleg rannsókn fari fram á aðdraganda og orsökum brunans í húsinu að Bræðraborgarstíg 1. Líkur séu á að þeir sem skráðir eru til heimilis í húsinu, alls 73 manneskjur, séu erlent verkafólk sem atvinnurekendur þeirra hafi útvegað þar húsnæði. Þrír eru látnir af völdum brunans og tveir liggja á gjörgæslu. Alþýðusambandið segir að enn skorti á að atvinnurekendur séu kallaðir til ábyrgðar er húsnæði er óviðunandi.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu ASÍ þar sem aðstandendum hinna látnu eru vottaðar dýpstu samúðarkveðjur. Þar segir einnig að verkalýðshreyfingin hafi kallað eftir samhæfðum aðgerðum stjórnvalda til að tryggja aðbúnað erlends verkafólks á Íslandi og koma í veg fyrir félagsleg undirboð en enn skorti á að staðið sé við fyrirheit Lífskjarasamninganna þar að lútandi. „Sérstaklega hefur verkalýðshreyfingin farið fram með kröfur til að tryggja aðbúnað verkafólks sem dvelur í húsnæði á vegum atvinnurekanda og að atvinnurekendur séu kallaðir til ábyrgðar ef húsnæði er óviðunandi.“
Húsið að Bræðraborgarstíg 1 er í eigu félagsins HD verk ehf, sem aftur er í eigu félagsins H2O ehf. Það félag á Kristinn Jón Gíslason að fullu. Stundin hefur ekki náð í Kristinn Jón í dag. HD verk á einnig húsið að Bræðraborgarstíg 3, þar sem rekið hefur verið gistiheimili sem áður hefur verið til umfjöllunar í Stundinni. Þess ber þó að geta að þegar Stundin fjallaði um gistiheimilið að Bræðraborgarstíg árið 2015 var félagið HD verk ehf í eigu annarra aðila en Kristins Jóns.
Þá á félagið HD verk ehf einnig fasteignir Dalvegi 24 og 26, Hjallabrekku 1 og Kársnesbraut 96-A. Efling stéttarfélag hefur haft húsið að Bræðraborgarstíg og einnig húsnæðið að Dalvegi til skoðunar en þar munu starfsmenn starfsmannaleigu sem áður hét Menn í vinnu hafa haft búsetu. Hið sama á við um húsnæðið að Hjallabrekku en þar bjuggu fjölmargir erlendir verkamenn, sem grunur lék á að væru hér á landi í vinnumansali hjá Mönnum í vinnu.
Athugasemdir