Einn af sakborningunum í Samherjamálinu í Namibíu, mútugreiðslum íslenska útgerðarfélagsins til þarlendra ráðamanna í skiptum fyrir makrílkvóta, fékk meðal annars greitt fyrir aðkomu sína að málinu með greiðslu reikninga upp á 28 milljónir króna fyrir vinnu við hús sitt í borginni Windhoek. Þetta kom fram í máli mannsins, Ricardo Gustavo, í réttarsal í Namibíu á föstudaginn í síðustu viku. Namibíska blaðið The Namibian greinir frá.
Samkvæmt blaðinu var um að ræða greiðslu reikninga félagsins Namgomar Pesca, sem búið var til gagngert til að Samherji gæti fengið hestamakrílskvóta í Namibíu, upp á 3 milljónir Namibíudollara, 28 milljónir íslenskra króna. Um er að ræða einbýlishús í „fínu“ hverfi í Windhoek samkvæmt The Namibian.
Kveikur, Stundin og Al Jazeera greindu frá mútugreiðslum Samherja í nóvember í fyrra, á grundvelli gagna frá Wikileaks. Mútugreiðslurnar nema vel á annan milljarð króna miðað við fyrirliggjandi gögn en gætu reynst vera hærri þegar öll kurl verða komin til grafar í rannsókn málsins.
75 prósent af greiðslunum til skúffufélags í Dubaí
Snúningurinn með Namgomar Pesca, sem ræddur var fyrir dómi í Namibíu í liðinni viku, var þannig að ráðamennirnir í Namibíu stofnuðu eignarhaldsfélag með þessu nafni ásamt yfirvöldum í Angóla.
Með því að stofna eignarhaldsfélag á grundvelli milliríkjasamvinnu við Angóla gátu yfirvöld sjávarútvegsmála í Namibíu úthlutað nýjum hestamakrílskvótum til þessa félags.
Ráðamennirnir í Namibíu, meðal annars sjávarútvegsráðherrann Bernhard Esau, fengu svo greitt fyrir þátttöku sína í gerningnum með greiðslum frá Samherja. Bæði greiðslum frá félögum Samherja í Namibíu og eins greiðslum frá eignarhaldsfélagi Samherja á Kýpur, Esju Seafood, inn á reikning félagsins Tundavala Invest í Dubaí. Skiptingin á greiðslunum frá Samherja var þannig að Namgomar Pesca fékk 1/4 hluta og fyrirtæki James Hatuikulipi fékk 3/4 hluta.
Tekið skal fram að Namgomar-snúningurinn er aðeins einn angi Samherjamálsins í Namibíu. Áður en félagið var Namgomar var stofnað hafði Samherji meðal annars einnig greitt til mútur til að komast yfir fiskveiðikvóta í Namibíu, meðal annars beint til tengdasonar sjávarútvegsráðherrans í landinu.
„Ég hef alltaf verið heiðvirður maður“
Gustavo fékk greiddar 103 milljónir
Blaðið The Namibian segir að samkvæmt spillingarlögreglunni í Namibíu ACC, Anti Corruption Commission, hafi rannsókn málsins leitt í ljós að Gustavo hafi fengið greiddar samtals 11 milljónir Namibíudollara, tæplega 103 milljónir íslenskra króna, fyrir aðkomu sína að þessum viðskiptum. Við þetta bætist svo greiðsla framkvæmdareikninganna við hús Gustavos. Samtals er því um að ræða greiðslur og gæði upp á um 130 milljónir króna, en Gustavo vill fá að losna úr fangelsi gegn tryggingu á meðan hann bíður eftir því að réttað verði yfir honum og hinum mönnunum fimm í Samherjamálinu.
Gustavo var á þessum tíma með um 2,5 milljónir Namibíudollara í laun á ári, eða um 23 milljónir íslenskra króna. Eina milljón frá Namgomar Pesca, og 1,5 milljónir frá fjárfestingarfélagi James Hatuikulipi, Investec Namiba. Við þetta bætast svo áðurnefndar 130 milljóna greiðslur, beinar og óbeinar.
Mennirnir sex hafa verið ákærðir fyrir fjársvik, mútuþægni, peningaþvætti og spillingu og hafa setið í gæsluvarðhaldi í hálft. Auk Gustavos er um að ræða Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Sacky Sangala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, James Hatukulipi, fyrrverandi stjórnarformann ríkisfyrirtækisins Fishcor, Tamson Hatuikulipi, tengdason sjávarútvegsráðherrans, og Mike Nghipunya, fyrrverandi forstjóri Fishcor.
Gustavo lýsti því yfir í réttarhöldunum þar sem tekist var á um kröfu hans um lausn gegn tryggingu að hann væri „án nokkurs vafa saklaus“ í málinu. „Ég þarf að berjast gegn þessum ásökunum og hreinsa nafn mitt. Ég hef alltaf verið heiðvirður maður,“ sagði hann.
Vildi ekki tjá sig um fundinn á skrifstofu Samherja
Í réttarhaldinu spurði saksóknari ákæruvaldsins í Namibíu, Cliff Lutibezi, að því hvað Ricardo Gustavo hefði að segja um fund sem hann sat á skrifstofu Samherja í Katrínartúni í Reykjavík í ágúst árið 2014. Á þessum fundi var ákveðið að Samherji myndi greiða 75 prósent af greiðslunum fyrir hestamakrílskvótann beint inn á reikning Tundvala Invest í Dubaí.
Það var einnig í þessari heimsókn til Íslands og á skrifstofur Samherja sem Kristján Þór Júlíusson, núverandi sjávarútvegsráðherra, leit í heimsókn og ræddi á léttum nótum við Namibíumennina. Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu og uppljóstrari í Namibíumálinu, hefur sagt að Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hafi á fundinum kynnt Kristján Þór sem „sinn mann“.
Tekið skal að ekkert bendir til að Kristján Þór hafi nokkuð vitað um mútugreiðslur Samherja í Namibíu og hefur hann sjálfur sagt það opinberlega. Hann og Þorsteinn Már eru hins vegar aldavinir.
Um þennan fund segir The Namibian: „Gustavo vildi ekki tjá sig þegar saksóknari ákæruvaldsins Cliff Lutibezi spurði hann um fund á Íslandi sem hann að sögn sat ásamt Shangala, James Hatukulipi og Tamson Hatukulipi. Á fundinum var að sögn komist að samkomulagi um að 75 prósent af gjöldunum fyrir fiskveiðikvótann myndi Samherjasamstæðan greiða inn á reikning félags James Hatukulipi, Tundavala Invest, í Dubaí. Gjaldið til Namgomar Pesca var 3.000 namibíudollarar fyrir hvert tonn af fiski.“
Jóhannes: Gustavo fór út
Jóhannes Stefánsson, uppljóstararinn í málinu sem sat fundina með Namibíumönnunum sem þáverandi starfsmaður Samherja, segir að Ricardo Gustavo hafi ekki setið þann hluta fundarins þar sem rætt var um að 75 prósent af greiðslunum fyrir hestamakrílskvóta yrðu greiddar frá félagi Samherja á Kýpur til félags James Hatuikulipi í Dubaí.
Jóhannes segir að hann, Þorsteinn Már Baldvinsson, James Hatuikulipi, Tamson Hatukulipi, Sacky Shangala og Ricardo Gustavo hafi allir verið saman á fundi á skrifstofu Samherja en að svo hafi Tamson, Sacky og Gustavo farið út þegar rætt var um fyrirkomulagið á greiðslunum til Dubaí.
„En allir hittu þeir Þorstein Má Baldvinsson og mig líka en við héldum svo sér fund og þeir biðu bara frammi. […] Tamson, Gustavo og Sacky Shanghala biðu frammi,“ segir hann í svörum við spurningum Stundarinnar um þetta.
„Fyrirspurnin kom frá James en lausnin kom frá Þorsteini Má.“
Í viðtali við Stundina í nóvember sagði Jóhannes einnig um fundina með Þorsteini Má í þesssari Íslandsheimsókn. „ Þeir vildu fá peninga til að geta haldið sér gangandi, kannski leyft sér hitt og þetta, þannig að það var James sem bað um að 25 prósent af kvótagjaldinu fyrir Namgomar-kvótann myndi verða greitt í Namibíu og 75 prósent til Dubai. […] Ég lagði þetta bæði fyrir Þorstein og Ingvar og það var síðan á fundi í ágúst 2014, þá komu hérna James, Sacky og Tamson […] Við áttum fyrst fund 20. ágúst 2014 og svo var aftur fundur 22. ágúst. Þá voru bara ég, James og Þorsteinn, hinir strákarnir biðu frammi, og þá segir Þorsteinn að hann sé kominn með leiðina til að þeir geti fengið greitt þessi 75 prósent sem þeir vildu fyrir Namgomar-kvótann frá Kýpur til Dubai. Fyrirspurnin kom frá James en lausnin kom frá Þorsteini Má.“
Gustavo var því sannarlega ekki með á fundinum á skrifstofum Samherja þar sem ákveðið var að nota Kýpurfélag Samherja til að greiða fyrir kvótann beint til skúffufélagsins í Dubaí. Engar sannannir liggja heldur fyrir að hann hafi fengið greitt frá Dubaí-félaginu en hins vegar liggja fyrir sönnunargögn sem sýna greiðslur til hans upp á meira en 100 milljónir frá Namgomar Pesca, félaginu sem tók við hestamakrílskvótanum frá yfirvöldum í Namibíu.
Segist ekkert hafa vitað um Tundavala
Málsvörn Gustavos í málinu fyrir dómi er að hann hafi ekki vitað að Tundavala Invest væri til, samkvæmt frétt The Namibian. Hann segir aða hann hafi ekki vitað að félagið hafi fengið greiðslur frá Samherja eins og segir í fréttinni: „Eftir því sem hann best veit hafi Namgomar Pesca Namibia verið með samkomulag við Samherja um að greiða 500 Namibíudollara fyrir hvert tonn sem kvótagjald og að hann hafi „ekki haft hugmynd um“ að einnig var um að ræða samning um frekari greiðslur til Tundavala Invest.
Málflutningi í máli Ricardo Gustavos um að hann verði látinn laus gegn tryggingu hefur verið frestað til 3. júní samkvæmt namibískum fjölmiðlum í dag.
Athugasemdir