Félag um foreldrajafnrétti hefur sent frá sérstuðningsyfirlýsingu við formanninn, Dofra Hermannsson, þar sem talað er um viðtal við dætur hans sem opinbera árás gegn honum. Yfirlýsingin er send út í kjölfar þess að dóttir og stjúpdóttir Dofra, þær Kolfinna og Katrín Arndísardætur, stigu fram til þess að segja sína hlið mála, meðal annars að þær hefðu upplifað andlegt ofbeldi í samskiptum við Dofra og því slitið þeim að sjálfsdáðum.
Félagið segir hins vegar í yfirlýsingu sinni að frásögn dætra Dofra skorti rökstuðning. „Ásakanir af þessu tagi sem settar eru fram án rökstuðnings eru því miður reynsla margra foreldra sem leita til félagsins eftir hjálp,“ segir í yfirlýsingunni til stuðnings formanninum.
Félagið, sem áður hét Félag ábyrgra feðra, hefur barist fyrir aukinni viðurkenningu á kenningu um „foreldrafirringu“, sem felur í sér að barni sé snúið gegn foreldri sínu.
Vísar til eigin reynslu í baráttunni
Dofri hefur sem formaður félagsins vísað til eigin reynslu og haldið því fram opinberlega að Kolfinna og Katrín hafi slitið samskiptum við föður sinn og stjúpföður vegna þess að móðir þeirra hafi „markvisst eitrað samband“ þeirra við hann og byggt baráttu sína á því. Í viðtali í síðasta tölublaði Stundarinnar greindu Kolfinna og Katrín hins vegar frá því að þær hefðu sjálfar tekið ákvörðun um að slíta samskiptum við Dofra vegna meiðandi samskipta sem haldið hafi áfram fram á fullorðinsár. Þær eru 21 og 28 ára gamlar í dag.
Dofri er formaður Félags um foreldrajafnrétti og sem slíkur á hann sæti í jafnréttisráði, sem á að vera ráðgefandi varðandi stefnumótun ríkisins í jafnréttismálum.
Sagði frásögn dætranna „uppdikterað tilfinningaklám“
Áður hafði varaformaður félagsins, Brjánn Jónsson, sem nú skrifar undir stuðningsyfirlýsinguna fyrir hönd félagsins, afgreitt frásögn Katrínar og Kolfinnu sem „uppdikterað tilfinningaklám“ í umræðum um viðtalið í hópi #DaddyToo á Facebook, sem er andsvar forræðislausra feðra við #metoo-hreyfingunni.
Í yfirlýsingunni segir að félagið sé meðvitað um ásakanir á hendur Dofra um andlegt ofbeldi en slíkt sé vel þekkt hjá þeim sem lenda í erfiðum skilnaði þar sem börn verða bitbein og málsaðilar í deilum foreldra. Dofri sé þekktur leiðtogi, störf hans séu óþreytandi og honum beri að hrósa fyrir skuldbindingu sína. „Stjórn Félags um foreldrajafnrétti ítrekar að dætur Dofra eiga rétt á sínum eigin sjónarmiðum. Við vonum einnig að almenningur átti sig á því að árásirnar á hendur honum eru dæmigerðar fyrir þá sem stíga fram í baráttunni gegn foreldraútilokun og eru í þágu foreldrisins sem beitir útilokun, en þar er um að ræða alvarlega sálræna misnotkun á börnum sem veldur þeim varanlegu tjóni. Opinber árás af þessu tagi dregur ekki úr orðnum skaða og er þetta því eina yfirlýsingin sem félagið mun senda frá sér um málið. Dofri heldur áfram að leiða Félag um foreldrajafnrétti með reisn og virðingu fyrir börnum og nýtur til þess fulls trausts stjórnar.“
„Sjúkdómur í fjölskyldunni“
Dofri valdi að bregðast hvorki við nafnlausri yfirlýsingu dætranna sem birtist fyrst á Líf án ofbeldis, né fyrirspurn Stundarinnar um ákveðin efnisatriði. Þess í stað veitti hann Kvennablaðinu viðtal þar sem hann ítrekaði að hann hefði misst samband við dætur sínar vegna „foreldraútilokunar“ í kjölfar skilnaðar, það væri eins og barninu hans „hefði verið rænt“, eins og „það væri sjúkdómur í fjölskyldunni“. Eftir að viðtalið við Kolfinnu og Katrínu birtist á Stundinni, þar sem þær sögðust meðal annars stíga fram í von um að hann léti þær í friði og greindu frá því að framganga hans á opinberum vettvangi hefði haft slæm áhrif á velferð þeirra, sendi hann frá sér yfirlýsingu þar sem hann fór fram á að byggja upp samband við þær að nýju.
„Ég á mér þá einu ósk að það sé hægt að leggja til hliðar sárindi og byggja upp samband að nýju.“
Dofri sendi frá sér yfirlýsingu eftir að Katrín og Kolfinna sögðu sögu sína í Stundinni, þar sem hann kvaðst hafa gert „ýmis mistök“ en fór fram á að þær tækju aftur upp samband við föður sinn: „Mér þykir sárt að þær upplifi baráttu mína fyrir að halda sambandi við þær sem andlegt ofbeldi gagnvart sér. Ég hef gert ýmis mistök, flest í örvæntingu yfir að vera að missa þær. Ég hef beðið þær fyrirgefningar á þeim og geri það aftur hér. Ég á mér þá einu ósk að það sé hægt að leggja til hliðar sárindi og byggja upp samband að nýju.“
Fyrr í morgun sendu stjórnarkonur Félags um foreldrajafnrétti frá sér aðra yfirlýsingu þar sem þær gerðu „alvarlegar athugasemdir“ við fréttaflutning Stundarinnar, þar sem umfjöllun Stundarinnar hafi skaðað viðleitni félagsins um að fræða almenning um það ofbeldi sem felst í foreldraútilokun.
Athugasemdir