Olíufélagið Skeljungur greiddi út 600 milljóna króna arð til hluthafa sinna þann 2. apríl síðastliðinn, í miðjum COVID-faraldrinum. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Skeljungs sem kynnt var eftir lokun hlutabréfamarkaða í dag. Fjölmörg fyrirtæki á Íslandi hafa frestað arðgreiðslum síðustu vikurnar út af COVID-faraldrinum. Skeljungur gerði það ekki.
Orðrétt segir um þetta í fjárfestakynningu um árshlutauppgjörið: „Á aðalfundi Skeljungs hf. þann 5. mars 2020 var samþykkt að greiða arð til hluthafa að fjárhæð 600 milljónum króna. Greiðsla arðs fór fram þann 2. apríl 2020.“ Arðgreiðslan er vegna rekstrarársins í fyrra.
„Greiðsla arðs fór fram þann 2. apríl 2020.“
Meðal fyrirtækja sem frestað hafa arðgreiðslum sínum eru Íslandsbanki, sem er einn stærsti hluthafi Skeljungs, Arion banki, Landsbankinn, fasteignfélagið Reginn og Vátryggingafélag Íslands.
Forstjórinn vildi bíða með að svara
Stundin sendi Árna Pétri Jónssyni, forstjóra Skeljungs, tölvupóst í gær með spurningum um hvort félagið hefði greitt umræddan arð út líkt og ákveðið var að gera á aðalfundi félagsins í byrjun mars.
Árni Pétur svaraði því til að hann vildi bíða með að svara spurningunum um málið þar til eftir að félagið hefði kynnt árshlutauppgjör sitt í dag. „Við erum að birta uppgjör okkar eftir lokun markaða á morgun, þriðjudag, og því ekki í stöðu til að svara þér strax. Ég mun koma svörum við fyrirspurn þinni til þín fyrir hádegi á miðvikudaginn,“ sagði hann.
Staðfestingin á arðgreiðslunni kom svo fram í uppgjöri félagsins í dag fyrir fyrsta ársfjórðung 2020.
Meðal þeirra spurninga sem Stundin spurði er hvort Skeljungur hefði nýtt sér hlutabótaleiðina svokölluðu. Árni Pétur taldi sig ekki geta svarað þeirri spurningu á mánudaginn.
Í uppgjörinu er jafnframt rakið að COVID-faraldurinn hafi slæm áhrif á rekstur Skeljungs, eins og gefur að skilja. „COVID-19 heimsfaraldurinn hafði talsverð áhrif á rekstur samstæðunnar undir lok ársfjórðungsins og óljóst hver áhrifin verða til skemmri og lengri tíma,“ segir í kynningunni á uppgjörinu.
Stærstu hluthafar Skeljungs eru lífeyrissjóðurinn Gildi, Íslandsbanki, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Kvika, Arion banki, lífeyrirsjóðurinn Birta og eignarhaldsfélagið 365, sem er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar athafnamanns sem jafnframt er stjórnarformaður Skeljungs.
Skeljungur hefur varið starfsmenn
Í árshlutauppgjörinu kemur ekki fram með beinum hætti hvort Skeljungur hafi nýtt sér hlutabótaleiðina. Hins vegar segir þar að fyrirtækið hafi tryggt „öryggi starfsmanna“ auk þess sem fram kemur að olíufélagið hafi orðið fyrir neikvæðum afleiðingum af fækkun ferðamanna í kjölfar COVID.
Hvort þetta þýði að félagið hafi nýtt sér hlutabótaleiðina liggur hins vegar ekki fyrir þar sem Árni Pétur hafði ekki svarað spurningu Stundarinnar um þetta þegar fréttin var birt.
Í skilyrðum stjórnvalda um notkun fyrirtækja á hlutabótaleiðinni í kjölfar COVID er ekki lagt bann við arðgreiðslum fyrirtækja sem nýta sér þessa leið. Slíkt bann er í gildi fyrir fyrirtæki sem fá brúarlán með ríkisábyrgð frá stjórnvöldum til að verja rekstrargrundvöll sinn.
Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, hefur hins vegar sagt að fyrirtækjum sé treyst til að sýna ábyrgð þegar kemur að arðgreiðslum í ljósi samfélagsástandsins út af COVID: „Auðvitað er það svo að við reiðum okkur á að atvinnulífið sýni ábyrgð. En meginmarkmiðið er að verja afkomu fólks.“
Athugasemdir