Kaupfélag Skagfirðinga hóf veiðar á makríl í gegnum útgerðarfélag sitt á grundvelli reglugerðar sem Jón Bjarnason setti um makrílveiðar árið 2011. Þessar veiðar útgerðar kaupfélagsins, FISK Seafood, leiddu til þess að félagið fékk veiðireynslu á þessari tegund sem skapaði grunninn að kvótaúthlutun á makríl til þess í fyrra. Kvóti FISK Seafood er tæplega 1,7 prósent af makrílkvótanum og er markaðsverð þessa kvóta vel á annan milljarð króna.
Þessi sama útgerð Kaupfélags Skagfirðinga, FISK Seafood, á einnig þríðjungshlut í Vinnslustöðinni í Vestmanneyjum sem er önnur af tveimur útgerðum sem ætlar að halda skaðabótakröfu sinni á hendur íslenska ríkinu út af makrílúthlutuninni til fyrirtækisins á árunum 2011 til 2018. Hin er Huginn ehf. sem Vinnslustöðin á raunar tæpan helming í. Þetta er sama reglugerð og gerði FISK Seafood, og fleiri útgerðum, kleift að hefja makrílveiðar á sínum tíma.
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, sagði við Stundina í gær að meirihluti stjórnar Vinnslustöðvarinnar væri hlynntur því að halda skaðabótamálinu gegn ríkinu til streitu og krefjast fundar með forsvarsmönnum ríkistjórnarinnar út af málinu. FISK Seafood á fulltrúa í stjórn Vinnslustöðvarinnar, Sigurjón Rúnar Rafnsson aðstoðarkaupfélagsstjóra. Ekki liggur fyrir hvaða stjórnarmaður, eða stjórnarmenn, það eru hjá Vinnslustöðinni sem eru ekki fylgjandi því að skaðabótamálinu verði haldið til streitu.
„Þess vegna set ég þessa reglugerð um að myndum nota allan flotann: smábáta, ísfisksbáta og frystitogara til að veiða makríllinn“
Þannig má segja að Kaupfélag Skagfirðinga geti hagnast á setningu reglugerðarinnar með tvenns konar hætti. Annars vegar sökum þess að reglugerðin gerði FISK Seafood kleift að hefja makrílveiðar á sínum tíma og hins vegar vegna þess að FISK Seafood er stór hluthafi í Vinnslustöðinni og ef útgerðin fær á endanum skaðabætur frá íslenska ríkinu þá hagnast kaupfélagið óbeint á því.
Markmiðið var að hleypa útgerðum eins og FISK að
Stuðst var við umrædda reglugerð sem ráðherra sjávarútvegsmála endurnýjaði á hverju ári fram til 2018 þar til makríll var kvótasettur í fyrra. Eins og Jón Bjarnason hefur lýst þá var markmiðið með reglugerðinni 2011 meðal annars að hleypa fleiri útgerðum, meðal annars FISK Seafood, að makrílnum.
„Við stóðum í miðju efnahagshruni og með þessu vildum við líka efla atvinnu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði hér atvinnuleysi upp á 15 til 20 prósent. Þess vegna set ég þessa reglugerð um að myndum nota allan flotann: smábáta, ísfisksbáta og frystitogara til að veiða makríllinn og að jafnframt væri gert skilyrði að allur kvótinn færi til manneldis þannig að allur aflinn kæmi hér í land til vinnslu. Í þessu fólst ekki að þessar útgerðir hefðu einhvern varanlegan, lagalegan rétt á makrílkvóta,“ sagði Jón við Stundina fyrir skömmu.
„Í þessu fólst ekki að þessar útgerðir hefðu einhvern varanlegan, lagalegan rétt á makrílkvóta“
Þær útgerðir sem veitt höfðu fiskinn á árunum þar á undan höfðu fyrst og fremst brætt fiskinn í dýrafóður jafnvel þó þrisvar sinnum hærra verð fáist fyrir hann þegar hann er notaður í manneldi. Einungis 5 prósent af makrílnum sem veiddist á Íslandi árið 2007 fór í manneldi. Útgerðirnar sem veiddu makrílinn með þessum hætti eru þær sjö sem stefndu ríkinu. FISK var ekki þar á meðal af því fyrirtækið stundaði ekki þessar veiðar.
Nú er makrílkvóta úthlutað til útgerða ár hvert á grundvelli veiðireynslu áranna fram að 2019 og hafa bæði Vinnslustöðin og FISK Seafood ráðstöfunarrétt yfir hluta þess kvóta, Vinnslustöðin er kvótahæsta útgerðin, með 15,6 prósent, og FISK Seafood er með tæpt 1.7 prósent enda hefur FISK fyrst og fremst verið bolfiskútgerð í gegnum árin. Kvóti VInnslustöðvarinnar er tæplega 14 milljarða króna virði og kvóti FISK er meira en milljarðs króan virði miðað við áætlað söluverð.
Stefnan lögð fram eftir að FISK keypti
Stefna Vinnslustöðvarinnar í skaðabótamálinu gegn íslenska ríkinu var lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í desember í fyrra.
Vefmiðilinn Kjarninn birti stefnu fyrirtækisins fyrir nokkrum dögum en miðillinn hafði reynt að fá stefnur útgerðanna sjö frá íslenska ríkinu um langt skeið. Eftir að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra birti svar um stefnufjárhæðirnar í málinu á vef Alþingis fyrr í apríl fékk Kjarninn loks stefnurnar.
Eins og segir í stefnunni þá hefði Vinnslustöðin átt að fá úthlutaðan kvóta út frá veiðireynslu áranna fyrir 2011 á árunum þar á eftir. Þetta hafi ekki verið gert og í stað þess að fá úthlutað 10,03 prósent makrílkvótans á árunum 2011 til 2018 hafi félagið einungis fengið 8,27 til 8,75 prósent kvótans.
Fyrir þetta vill Vinnslustöði fá 982 milljóna króna skaðabætur. Óbein hlutdeild FISK Seafood og Kaupfélags Skagfirðinga í þessari bótakröfu er meira en 300 milljónir króna.
Stefna félagins var lögð fram eftir að FISK Seafood keypti hlutabréfin í Vinnslustöðinni af félagi í eigu Guðmundar Kristjánssonar, sem kenndur er við Brim, árið 2018. Kaupverðið var 9,4 milljarðar króna.
Athugasemdir