Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, segist búinn að gera grein fyrir félagi sínu sem fékk 225 milljón króna kúlulán frá útgerðarfyrirtækinu Samherja til kaupa á hlut hans í Morgunblaðinu, lán sem að stórum hluta hefur verið afskrifað.
Eyþór og Jórunn Pála Jónasdóttir varaborgarfulltrúi sátu í dag fyrir svörum á streymi á Facebook síðu Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík.
Fyrsta spurningin á streyminu barst frá Óskari Steini Jónínusyni Ómarssyni, varaforseta Ungra jafnaðarmanna: „Til Eyþórs: Hefurðu hugsað þér að skila 225 milljónunum sem þú fékkst frá Samherja, eða a.m.k. skýra frekar út fyrir kjósendum í hvaða tilgangi fyrirtækið veitti þér þessa fyrirgreiðslu?“
Jórunn Pála byrjaði að lesa upp spurninguna. „Á ég að lesa það? Þetta er frá Óskari Steini Jónínusyni Ómarssyni til Eyþórs. Hefurðu hugsað þér að... já... má ég sjá... þetta er eitthvað varðandi Samherja.“
Hætti hún þar með að lesa spurninguna. „Það er óhætt að svara því bara,“ sagði Eyþór. „Það er í sérstöku félagi sem er búið að gera grein fyrir.“
Eignarhaldsfélag Eyþórs sem á hlutabréf í Morgunblaðinu er á endanum fjármagnað af Kýpurfélagi Samherja, Esju Seafood, sem er miðpunkturinn í mútugreiðslum og fjármagnsflutningum Samherjasamstæðunnar erlendis, sem Stundin hefur greint frá ásamt RÚV, Wikileaks og Al Jazeera. Eyþór fékk 225 milljón króna kúlulán frá Samherja fyrir kaupum á hlutnum sem að miklu leyti hefur verið afskrifað.
Eyþóri hefur ítrekað verið boðið að svara spurningum Stundarinnar um málið, en hann hefur ekki orðið við því.
„Síðan er mjög mikilvægt að við séum öll við sama borð í sjálfu sér“
Í svarinu á streyminu bætti hann því við að Reykjavíkurborg væri að innleiða nýjar reglur um fjárhagslega skráningu borgarfulltrúa. Í fjárhagslegri skráningu sinni hefur Eyþór skráð hlut sinn í Morgunblaðinu, en ekkert varðandi lánveitingarnar frá Samherja. „Við höfðum forystu um það að embættismenn sem taka ákvarðanir, æðstu embættismenn, geri grein fyrir sínum hagsmunum,“ sagði hann á streyminu. „Það hefur ekki verið áður og nú stendur það til boða fyrir embættismenn, það er valkvætt. Við borgarfulltrúar höfum gert grein fyrir okkar fjárhagslegu hagsmunum og vonumst til að embættismenn geri það líka. Síðan er mjög mikilvægt að við séum öll við sama borð í sjálfu sér.“
Athugasemdir