„Við höfum fengið ábendingar um þetta og það hefur bara verið farið ofan í það,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, aðspurð um hvort stofnunin hafi fengið ábendingar um það að hlutabótaleiðin sé misnotuð með þeim hætti að starfsfólk sé sett á hlutabætur frá ríkinu en sé svo látið vinna 100 prósent starf.
Unnur segir að ábendingar um þess konar misnotkun séu hins vegar ekki margar eins og er. Hins vegar sé eitt af vandamálunum að erfitt geti verið að fá fólk til að stíga fram og segja frá slíkri misnotkun á þessu úrræði vegna atvinnuástandsins í samfélaginu.
„Það er líka erfitt við þetta að eiga vegna þess að mikið af starfsfólki kærir sig ekkert um að koma fram. Svo ótrúlegur fjöldi er uggandi um afkomu sína. Þú vilt kannski ekki vera sá sem er rekinn fyrir að kjafta frá. Þó það sé orðin mjög mikil klisja að segja það þá er þetta ástand auðvitað án hliðstæðu. Það hefur aldrei gerst að svona mikið atvinnuleysi hafi komið upp svona hratt. Efnahagshrunið var minna og langvinnara högg í samanburði við þetta. Hér líða bara þrír dagar og þá vaknar fólk upp við það að allt er breytt,“ segir Unnur. „Það sem ég óttast er að eitthvað starfsfólk sætti sig bara við þetta fyrirkomulag, ef verið er að misnota þetta úrræði með þessum hætti, og láti þetta yfir sig ganga í stað þess að missa vinnuna alveg.“
Hægt er að senda Vinnumálastofnun ábendingar um misnotkun á hlutabótaleiðinni á heimasíðu Vinnumálastofnunar.
Athugasemdir