Makrílkvóti útgerðanna sjö sem stefnt hafa íslenska ríkinu fyrir að hafa ekki fengið úthlutað nægilega miklum makrílkvóta á árunum 2011 til 2018 er rúmlega 50 milljarða króna virði. Þetta er mat byggir á áætluðu söluverðmæti makrílkvóta þeirra á markaði þar sem kílóverðið á slíkum kvóta er 700 krónur.
Þessum rúmlega 50 milljarða króna kvóta fengu útgerðirnar úthlutað á grundvelli veiðireynslu, og án endurgjalds, þegar þessi fisktegund var kvótasett í fyrra. Kvótasetningin byggði á veiðireynslu síðustu 10 ára.
Stundin fjallaði um kvótaúthlutun og verðmæti aflaheimilda á makríl í febrúar síðastliðnum. Samkvæmt mati blaðsins er veðmæti makrílkvóta fjórtán stærstu útgerðanna sem veiða þessa fisktegund um 90 milljarðar króna.
Umræddar sjö útgerðir vilja hins vegar fá skaðabætur upp á 10,2 milljarða króna vegna þess að þær telja sig hafa borið skarðan hlut frá borði í kvótaúthlutununum á makríl á árunum 2011 til 2018, áður en makríllinn var kvótasettur endanlega. Hæsta skaðabótakrafan er frá Ísfélagi Vestmannaeyja, útgerðarfélagi Guðbjargar Matthíasdóttur, upp á tæplega 3,9 milljarða króna.
Svar Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra um upphæðir kröfugerða útgerðanna var birt á vef Alþingis nú um páskana. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, beindi fyririspurn til hans um skaðabótakröfurnar í janúar. Kjarninn greindi fyrst frá svari Kristjáns Þórs eftir að það var birt en vefmiðillinn hefur án árangurs reynt að fá stefnur útgerðanna gegn ríkinu afhentar.
Rúmlega 60 milljarða gæði frá ríkinu
Á þessum árum, 2011 til 2018, var makríl úthlutað á grundvelli reglugerðar frá sjávarútvegsráðherra. Skaðabótakröfur útgerðanna byggja á hæstaréttardómum sem féllu í árslok 2018 þar sem fallist var á málatilbúnað tveggja af útgerðunum sjö, Ísfélags Vestmannaeyja og Hugins sem einnig er staðsett í Eyjum.
Hæstiréttur snéri þar með við dómum Héraðsdóms Reykjavíkur í málunum en hann hafði dæmt íslenska ríkinu í hag í maí 2017.
„Þetta er gjörsamlega siðlaust.“
Samtals nemur virði makrílkvótans sem umræddar sjö útgerðir ráða yfir, og umræddar skaðabótakröfur, rúmlega 60 milljörðum króna. Útgerðirnar hafa svo auðvitað hagnast vel á makrílveiðum síðastliðin 10 ár. Enda hafa veiðar á þessarri fisktegund verið ein af ástæðunum fyrir ótrúlegum hagnaði margra íslenskra útgerða síðastlliðin áratug.
Athugasemdir