Stundin mun á næstu vikum senda út menningarviðburði í samstarfi við Menningarhúsin í Kópavogi. Viðburðirnir verða haldnir klukkan 13 á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum á meðan samkomubanni stendur vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Hægt verður að sjá viðburðina á forsíðu Stundarinnar, á Facebook-síðu Stundarinnar og Facebook-síðu Menningarhúsanna í Kópavogi.
Meðal þeirra sem koma fram í viðburðaröðinni eru Sævar Helgi Bragason stjörnufræðingur, Gerður Kristný skáld, Jógvan, Matti Matt, Vignir Snær, Ragna Fróðadóttir, Andri Snær Magnason rithöfundur, Sigurbjörn Bernharðsson, Halla Oddný, Þorgrímur Þráinsson, Elín Björk Jónasdóttir, Einar Falur, Kordo kvartettinn og Hrönn Egilsdóttir.
Í þessari útsendingu spjallar Halla Oddný Magnúsdóttir fjölmiðlakona við Gerði Kristnýju skáld á Bókasafni Kópavogs. Útsendingin hefst klukkan 13. Streymi af viðburðinum verður birt í þessari frétt og á fyrrgreindum Facebook-síðum ásamt forsíðu Stundarinnar. Þá verður upptaka tiltæk á sömu stöðum í kjölfarið.
Eftirfarandi er tilkynning frá menningarhúsunum í Kópavogi um viðburðinn:
Halla Oddný fjölmiðlakona spjallar við Gerði Kristnýju skáld á Bókasafni Kópavogs mánudaginn 30. Mars í vef-viðburðarliðnum Kúltúr klukkan 13.
Gerður Kristný segir frá einum fremsta rithöfundi Norðurlandanna Per Olov Enquist og verkum hans, aðallega Bókasafni Nemós skipstjóra sem kom út á Íslandi árið 1993. Einnig verður sagt frá því þegar Enquist reyndi að ráða bug á áfengispúkanum í meðferð hér á landi en lagði þaðan á flótta á sokkaleistunum.
Gerður Kristný er afkastamikill rithöfundur og ljóðskáld en hún hefur bæði skrifað fyrir börn sem og fullorðna. Hún hefur auk þess unnið við fjölmiðlun og tekur virkan þátt í þjóðfélagsumræðunni þar sem hún sér jafnan spaugilegar hliðar á málefnum sem eru efst á baugi.
Athugasemdir