Alls dvöldu konur og börn í 8.228 daga í Kvennaathvarfinu á síðasta ári. 144 konur dvöldu samtals í 4.326 daga í athvarfinu og 100 börn dvöldu í 3.902 daga í Kvennaathvarfinu á síðasta ári, allt frá einum degi og upp í 236 daga í senn. Að meðaltali dvöldu 23 íbúar í athvarfinu dag hvern, 12 konur og 11 börn að meðaltali. Konurnar dvöldu að meðaltali í 30 daga í athvarfinu en börn að meðaltali í 39 daga. Yfir helmingur kvennanna sem leituðu til Kvennaathvarfsins á síðasta ári kváðust hafa óttast um líf sitt á einum eða öðrum tíma í sambandi sínu með ofbeldismanni.
Þetta kemur fram í tölum sem Kvennaathvarfið sendi frá sér um starfsemi síðasta árs. Auk kvennanna sem komu til dvalar í athvarfinu komu 294 konur í viðtöl þar, samtals í 545 viðtöl. Þá hittu ráðgjafar Kvennaathvarfsins 214 konur í viðtölum í Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis.
Tölurnar sem um ræðir eru ívið hærri en tölur fyrir árið 2018, en þá dvöldu 136 konur og 70 börn í Kvennaathvarfinu um lengri eða skemmri tíma.
Konur á aldrinum 18 til 81 árs
Konurnar sem komu í Kvennaathvarfið á síðasta ári voru á aldrinum 18 til 81 árs en börnin voru allt frá því að vera nokkurra daga gömul og upp í 16 ára. Flestar konurnar nefndu andlegt ofbeldi sem ástæðu komu, 93 prósent, en flestar konurnar nefndu þó fleiri en eina ástæðu. Næst flestar nefndu líkamlegt ofbeldi, 60 prósent, 48 prósent nefndu fjárhagslegt ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi nefndu 37 prósent. Þá nefndu 35 prósent kvennanna ofbeldi gegn börnum sem ástæðu komu og hafa þær aldrei verið fleiri. Í samtölum við konurnar kom fram að alls búi 349 börn á ofbeldisheimilunum sem þær komu frá. 26 prósent kvennanna sögðu að þeim hefði verið hótað lífláti, því sem næst sama hlutfall og árið áður. Raunar má segja að um litlar breytingar á hlutfallstölum milli ára sé að ræða. Fjórðungur sagði að þær hefðu verið teknar kyrkingataki og fimmtungur hafði orðið fyrir stafrænu ofbeldi, á meðan að 16 prósent þeirra höfðu orðið fyrir áreiti af hálfu eltihrella.
Yfir helmingur kvennanna óttast um líf sitt
Yfir helmingur kvennanna sagði frá því að þær hefðu einhvern tíma hlotið líkamlega áverka í sambandi sínu og 12 prósent þeirra báru áverka þegar þær komu fyrst í athvarfið, 23 prósent þeirra sem komu þangað til dvalar og 6 prósent þeirra sem komu í viðtöl. 54 prósent kvennanna sögðust hafa óttast um líf sitt í sambandinu og 42 prósent sögðu lögreglu hafa komið á vettvang ofbeldisins í eitt eða fleiri skipti. Fimmán prósent kvennanna höfðu kært ofbeldi til lögreglu. Meirihluti málanna, 60 prósent, var enn í vinnslu en dómur hafði fallið í 5 prósent málanna á meðan að 16 prósent kærðra mála höfðu verið felld niður.
„Þess vegna er alltaf allt troðfullt hjá okkur, það koma ekki mikið fleiri konur en var en þær fara bara mun síðar“
Fimmtán prósent kvennanna fóru aftur heim til ofbeldismannsins að lokinni dvöl í atvharfinu, samanborið við 14 prósent árið 2018. Þá hafði það hlutfall aldrei verið lægra. Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir að lengi vel hafi það hlutfall verið miklu hærri og almennt sé það hærra í viðlíka athvörfum erlendis. „Hæst reis þetta hlutfall hjá okkur árið 2008 en þá mátti ætla að hátt í helmingur kvennanna sem komu til dvalar hjá okkur færi aftur heim til ofbeldismanns. Ég held að ástæðuna fyrir því að konur fari síður heim til ofbeldisamnns nú en áður var megi fyrst og fremst rekja til innanhússákvörðunar hjá okkur um að konur hefðu heimild til að dvelja hér lengur en áður var. Þess vegna er alltaf allt troðfullt hjá okkur, það koma ekki mikið fleiri konur en var en þær fara bara mun síðar. Þær eru hjá okkur yfir þann tíma sem að þær eru að taka ákvörðun um að fara, en sú ákvörðun getur verið erfið og flókin.“
Athugasemdir