Útgerðarfélagið Samherji greiddi sex til níu sinnum meira í kvótakostnað í Namibíu á árunum 2012 til 2019 fyrir hvert tonn af makríl sem félagið greiðir á Íslandi. Kvótakostnaður Samherja af hverju tonni af makríl sem félagið veiddi á árunum 2012 til 2019 var almennt á bilinu 180 til 240 Bandaríkjadollarar, að sögn Jóhannesar Stefánssonar, uppljóstrara og fyrrverandi framkvæmdastjóra Samherja í Namibíu, en þessi kostnaður fór allt upp í 310 Bandaríkjadollara þegar mest lét árið 2014. 180 dollarar eru 22.975 íslenskar krónur á gengi dagsins en 240 dollarar eru 30.634 íslenskar krónur.
Veiðigjöldin sem Samherji greiddi á Íslandi árið 2019 fyrir afnotaréttinn af einu tonni af veiðiheimildum í makríl nema hins vegar 3550 íslenskum krónum, samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Fiskistofu. Fyrir hvert kíló af makríl greiða íslenskar útgerðir 3,55 krónur í veiðigjöld, árið 2019, en árið 2018 var þessi upphæð 3,35 krónur.
Athugasemdir