Jóhannes Stefánsson, uppljóstrari í Samherjamálinu í Namibíu, fær fjárhagslegan stuðning úr sama alþjóðlega styrktarsjóðnum og tveir þekktustu uppljóstrar samtímans, Bandaríkjamennirnir Edward Snowden og Chelsea Manning. Sjóðurinn heitir The Courage Foundation og er uppljóstrunarsíðan Wikileaks einn af stofnendum hans. Þetta segir Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks.
Sjóðurinn er bandarískur og er samstarfsverkefni fjölda aðila en hann vinnur þvert á landamæri ríkja. Stuðningur The Courage Foundation snýst meðal annars um að greiða lögfræðiþjónustu fyrir Jóhannes. Sjóðurinn er fjármagnaður með fjárframlögum frá einstaklingum og lögaðilum.
Auk Wikileaks og umrædds sjóðs hafa alþjóðlegu uppjóstrarasamtökin PPLAAF, samtök sem sérhæfa sig í að styðja við bakið á uppljóstrurum í Afríkuríkjum, veitt Jóhannesi fjárhagslegan stuðning. „Ég er endalaust þakklátur Kristni Hrafnssyni og Wikileaks fyrir stuðninginn. Þessi stuðningur er ómetanlegur. Og svo núna hefur PPLAAF bæst við og ég er þeim mjög þakklátur,“ segir Jóhannes.
„ Jóhannes er í þröngri stöðu eins og á við um flesta uppljóstrara sem fórna miklu fyrir að koma sannleikanum á framfæri“
Erfið staða uppjóstrarans
Aðspurður segir Kristinn Hrafnsson að Jóhannes sé í erfiðri stöðu, líkt og yfirleitt gildir um uppljóstrara eins og hann, og því hafi Wikileaks ákveðið að styðja við bakið á honum. Uppljóstrarar geta oft og tíðum átt erfitt með að fá vinnu í kjölfar uppljóstrana sinna, lögfræðikostnaður þeirra getur verið mikill, þeir geta þurft að búa við það að þeim sé ógnað eða hótað og í einhverjum tilfellum geta þeir neyðst til að flýja land, líkt og til dæmis gildir um áðurnefndan Edward Snowden sem fékk pólitískt hæli í Rússlandi.
Um þetta segir Kristinn Hrafnsson: „WikiLeaks átti hlut í að stofna Courage Foundation, samtök sem styðja við bakið á uppljóstrurum. Edward Snowden var sá fyrsti sem hlaut stuðning. Nú hefur sjóðuinn sem er skráður velgjörðarsjóður í Bandaríkjunum tekið Jóhannes upp á arma sína. Hann hefur þurft að undirbúa meðal annars lagalegar varnir því þó að hann hafi formlega stöðu uppljóstrara í Namibíu þarf hann að huga að sínum hagsmunum og líklegum lagalegum árásum annars staðar. Það kostar fé og Jóhannes er í þröngri stöðu eins og á við um flesta uppljóstrara sem fórna miklu fyrir að koma sannleikanum á framfæri,“ segir hann.
Jóhannes segist hafa verið undirbúinn
Tveir og hálfur mánuður er liðinn frá því að Kveikur, Stundin, og síðar Al Jazeera, sögðu frá mútugreiðslum Samherja til ráðamanna í Namibíu í skiptum fyrir fiskveiðikvóta í landinu á árunum 2012 til 2019, á grundvelli gagna frá Wikileaks sem komu frá Jóhannesi.
Umfjallanirnar sýndu einnig fram á hvernig Samherji nýtir sér skattaskjól í viðskiptum sínum og hvernig norski stórbankinn DNB lokaði á viðskipti félags í skattaskjólinu Marshall-eyjum, Cape Cod FS, sem Samherji hafði notað til að greiða laun sjómanna sinna í Namibíu, vegna ófullnægjandi upplýsinga um endanlegan eiganda félagsins og vegna hættu á peningaþvætti. Málið er nú til rannsóknar í Namibíu, Íslandi og í Noregi.
Jóhannes segir að honum líði ágætlega um þessar mundir og að hann hafi verið undirbúinn undir afleiðingarnar af uppljóstrun sinni: „Það sem mér finnst skipta meira máli er fólkið í Namibíu sem þjáist. En mér líður bara ágætlega vel og það er ekkert sem að hefur komið á óvart í þessu ferli fram að þessu. Ég var búinn að kynna mér ágætlega vel hvað gæti verið í vændum og hvaða afleiðingar svona uppljóstrun gæti haft fyrir mig,“ segir Jóhannes.
Athugasemdir