Fyrr í morgun voru átta starfsmenn handteknir, en þeir eru grunaðir um skjalafals og að starfa á Íslandi án atvinnuleyfis. Stór sameiginleg aðgerð sem greint var frá fyrr í dag var gerð að frumkvæði lögreglu.
Erill var í Vesturbænum í Reykjavík fyrir hádegi þegar stórt lið lögreglu, Ríkisskattstjóra, Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnunar stöðvaði störf í Héðinshúsinu þar sem CenterHotels vinnur að byggingu hótels. Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að lögreglu hafi borist ábending um hugsanlegt skjalafals þar sem hópur þriðja ríkis borgara, frá löndum utan EES-svæðisins, hafi komið til landsins á fölsuðum skilríkjum og væru því að vinna án atvinnuleyfis.
Átta voru handteknir í aðgerðinni, en níu öðrum var fylgt heim þar sem þeir voru ekki með skilríki á sér. Skúli segir að þeir hafi allir fengið að snúa aftur að vinnu eftir að hafa sýnt fram á gild skilríki.
Málið er enn í rannsókn og þessir átta einstaklingar eru í haldi lögreglu. Skúli sagðist ekki geta upplýst meira um stöðu málsins vegna rannsóknarhagsmuna.
Ekki er ljóst hvort um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða eða hvort málið tengist handtöku sem fór fram 12. september síðastliðinn í sama húsnæði þar sem borgarar frá ríkjum utan EES-svæðsins voru að störfum.
Athugasemdir