Umsækjendur fyrir stöðu æðsta yfirmanns lögreglumála landsins, ríkislögreglustjóra, hafa nú verið birtar opinberlega.
Haraldur Johannessen hætti sem ríkislögreglustjóri, eftir að átta af níu lögreglustjórum landsins, auk formanns Landssambands lögreglumanna, lýstu vantrausti á hann. Hann hlaut 57 milljóna króna starfslokasamning sem fól í sér takmörkuð verkefni.
Það kemur í hlut Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra að skipa í stöðuna til fimm ára. Ríkislögreglustjóri fer með æðsta yfirvald löggæslumála og almannavarna í umboði ráðherra, lögum samkvæmt. Ríkislögreglustjóri er meðal annars yfirmaður sérsveitarinnar, greiningardeildar, alþjóðadeildar, fjarskiptamiðstöðvar og almannavarna.
Meðal umsækjenda eru fangelsismálastjóri, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og fyrrverandi yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar, sem vakti mikla athygli í starfi.
Umsækjendur um stöðu ríkislögreglustjóra
Arnar Ágústsson
Titlaður 1. stýrimaður í tilkynningu dómsmálaráðuneytisins en sagður öryggisvörður í umfjöllun Vísis.is um umsóknir um stöðu ríkislögreglustjóra.
Grímur Grímsson
Fyrrverandi yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og nú tengslafulltrúi Íslands hjá Europol. Grímur er ekki með lögfræðimenntun, eins og gerð krafa er um í lögum, en mun láta reyna á hvort viðskiptafræðimennun sé „sambærileg menntun“. Hann er menntaður viðskiptafræðingur og með meistarapróf í endurskoðun og reikningsskilum og hefur meðal annars stýrt rannsóknum á efnahagsbrotum. Vegna þess var Grímur nafngreindur sérstaklega af athafnamanninum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og sagður „óheiðarlegur“ í opnu bréfi hans í Fréttablaðinu, sem þá var í eigu eiginkonu hans. Síðar var Grímur meðal annars kjörinn maður ársins hjá Bylgjunni og Vísi.is eftir framgöngu sína í rannsókninni á hvarfi Birnu Brjánsdóttur árið 2018. Grímur er fæddur 2. september 1961 og er því 58 ára.
Halla Bergþóra Björnsdóttir
Lögreglustjóri á Norðurlandi eystra. Hún var skipuð lögreglustjóri af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur árið 2014. Vann sveitastörf í æsku og starfaði við Alþýðublaðið og Pressuna til skamms tíma. Lauk kandídatsprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1995, hlaut lögmannsréttindi við héraðsdóm 1998 og lauk meistaraprófi í Evrópurétti frá lagadeild Stokkhólmsháskóla árið 1999. Hefur starfað hjá sýslumannsembættum í Reykjavík og á Húsavík, lögmannsstofu í Reykjavík sem lögmaður, og í dómsmálaráðuneytinu frá 2002-2009 við ýmis verkefni. Sett sýslumaður og lögreglustjóri á Akranesi 2009 og loks lögreglustjóri á Norðurlandi eystra frá ársbyrjun 2015. Fædd 16. júlí 1969 og er því fimmtug.
Kristín Jóhannesdóttir
Einna þekktust fyrir að hafa verið í lykilhlutverki í viðskiptaveldi Baugsfjölskyldunnar, sem hefur sögulega skírskotun til embættis Ríkislögreglustjóra. Baugur var lengi rannsakaður af efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra í Baugsmálinu svokallaða, sem fjölskyldan fullyrti að ætti sér pólitískar rætur, en það atvikaðist á sama tímabili og háttsettir menn innan Sjálfstæðisflokksins lýstu andstöðu sinni við viðskiptaveldið, meðal annars vegna aðkomu þess að fjölmiðlum sem flokksmönnum þótti mörgum hverjum of gagnrýnir í garð flokksins. Rúmlega fimmtán ár eru síðan Kristín var á skrifstofu Ríkislögreglustjóra í yfirheyrslum með réttarstöðu sakbornings vegna Baugsmálsins, en skýrslurnar voru í kjölfarið birtar. Kristín var ekki dæmd í málinu. Kristín lagði stund á réttarsálfræði í framhaldsnámi sínu. Þess ber að geta að annar núverandi aðstoðarmanna dómsmálaráðherra er fyrrverandi stjórnarformaður Baugs. Fædd 9. mars 1963 og því 56 ára.
Logi Kjartansson
Fyrrverandi lögfræðingur á stjórnsýslusviði ríkislögreglustjóra til skamms, með próf frá Lögregluskóla ríkisins og kláraði lögfræðipróf frá Háskóla Íslands árið 2007. Hefur meðal annars sérhæft sig í peningaþvætti. Þannig hefur hann meðal annars haldið námskeið fyrir starfsfólk lífeyrissjóða um varnir gegn peningaþvætti. Hefur sótt um stöðu héraðsdómara. Fæddur 6. ágúst 1975 og því 44 ára.
Páll Winkel
Fangelsismálastjóri frá árinu 2007 og fyrrverandi lögreglumaður. Var framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna í tvö ár. Starfaði sem lögfræðingur hjá Fangelsismálastofnun ríkisins 2001 til 2005. Lauk námi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2000. Var á lista Smartlandsins á Morgunblaðinu yfir „10 heitustu piparsveina landsins“ árið 2015, en hvarf af þeim lista við að trúlofast Mörtu Maríu Jónsdóttur, ritstjóra Smartlandsins, í kjölfarið. Fæddur 10. júlí 1974 og er því 46 ára.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir
Lögreglustjóri á Höfuðborgarsvæðinu. Skipuð af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur dómsmálaráðherra í kjölfar þess að Stefán Eiríksson sagði upp störfum vegna þrýstings í tenglsum við lekamálið svokallaða. Fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, aðstoðarríkislögreglustjóri um tíma og áður sýslumaður á Ísafirði. Menntaður lögfræðingur og fyrsta konan til að gegna starfi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Hefur meðal annars beint kröftum að markvissum aðgerðum gegn heimilisofbeldi. Fædd 10. júlí 1969 og því fimmtug.
Athugasemdir