Það er segin saga: Alltaf lendir maður í kóngafólkinu aftur og aftur. Í flækjusögunni fyrir hálfum mánuði (en hana er að finna hér) var ég að rifja upp af hverju konungsættin breska er í rauninni næstum alþýsk, fyrir utan það enska blóð sem bættist í fjölskylduna 1923 með Elísabetu Bowes-Lyon. Þar var komið sögunni að „vetrardrottningin“ Elísabet Stúart, dóttir Jakobs 1. Bretakóngs, hafði hrökklast til Hollands eftir að hún og maður hennar, þýski kjörfurstinn Friðrik af Pfalz, voru rekin úr hásætum Bæheims, eða Tékklands, 1620. Elísabet eignaðist 13 börn og næstyngst var Soffía nokkur, fædd í Haag 1630.
Lítil tengsl við Bretland
Soffía missti föður sinn þegar hún var aðeins tveggja ára gömul en hann hafði unnið að því sleitulaust að endurheimta kjörfurstadæmi sitt í Þýskalandi. Einum af eldri bræðrum Soffíu tókst það um síðir og kom þá fótum undir ættina að nýju. Á Bretlandi, ættlandi Elísabetar, var hins vegar allt í uppnámi stóran hluta aldarinnar, svo tengsl sumra barna hennar við Bretland voru lítil.
Að elska guð og hata djöfulinn
Elísabet skipti sér ekki mikið af uppeldi Soffíu dóttur sinnar en sá þó um að stúlkan fengi ágæta menntun. Hún þótti líka forvitin, námfús og greind. Stúlkan var að mestu í umsjón gamallar barnfóstru föður hennar, „svo af því má sjá hve ævaforn hún var,“ skrifaði Soffía síðar, og „sér til hjálpar hafði hún dætur sínar tvær sem virtust jafnvel enn eldri en móðir þeirra. Þær lofuðu guð öllum stundum og ollu aldrei neinum hugarangri því þær voru hræðilega ófríðar og vel til þess fallnar að vekja skelfingu í börnum. Þær kenndu mér að elska guð og hata djöfulinn og ég elskaði þær af gömlum vana og þakklæti. Dyggðir þeirra áunnu þeim lof heimsins og eftir að hafa lifað eins og dýrlingar dóu þær að lokum eins og dýrlingar líka.“
Fettur og brettur
Soffía skrifaði bæði dagbækur og bréf sem lýsa lífi hennar í æsku – og síðar – á mjög skemmtilegan hátt. Í kastalanum þar sem hún ólst upp var iðulega kalt og hráslagalegt en engin miskunn var gefin í uppeldinu:
„Ég vaknaði klukkan sjö á morgnana og fór þá fyrst að hitta aðra [ófríðu dótturina] sem lét mig fara með bænir og lesa Biblíuna. Á meðan hreinsaði hún í sér tennurnar með miklum tilþrifum, og aldrei var vanþörf á því, og skolaði svo á sér munninn með þvílíkum fettum og brettum í andliti að ég mun alltaf muna það miklu betur en nokkurt guðsorð sem hún reyndi að kenna mér.“
Tennur eins og brjóstvörn á kastalaturni
Soffía var ekkert að skafa utan af því í lýsingum sínum á fólki. Einu sinni kom Henríetta María, systir Loðvíks 13. Frakkakóngs og drottning Karls 1. Bretakóngs, í heimsókn, en þá hafði hún verið hrakin brott frá Bretlandi þegar borgarastríð braust út og kóngurinn eiginmaður hennar hálshöggvinn.
Soffía skrifaði um heimsóknina:
„Málverk Van Dyke [af drottningunni] hafði fyllt mig slíkri trú á fegurð frúnna frá Englandi að það kom mér á óvart að drottningin, sem var svo falleg á málverkunum, var í raun agnarlítil kona sem gekk á þykkum leðursólum, handleggir hennar voru langir og skrælnaðir, axlir hennar rammskakkar og gisnar tennurnar stóðu út úr munninum eins og brjóstvörn á kastalaturni.“
Þegar Soffía kynntist Henríettu Maríu komst hún svo að því að þrátt fyrir nokkuð groddalegt útlit var drottningin húðvæn að upplagi og blíð til augnanna.
Kjörfurstafrú í Hanover
Þegar Soffía var orðin 28 ára gekk hún að eiga þýskan hertogason, Ernest Ágústus. Hann var þurrlegur maður, nokkuð metnaðargjarn en virtist ekki líklegur til mikilla metorða. Eftir að hafa misst tvo eldri bræður barnlausa og ýmsar vendingar í flóknu pólitísku valdaspili í Þýskalandi, þá endaði Ernest Ágústus hins vegar kjörfursti í Hanover inni í miðju Þýskalandi. Að vera kjörfursti þótti einkar fínt en Hanover var samt bara smáríki í sundurklofnu Þýskalandi og fjölskyldan hefði sjálfsagt horfið sporlaust í mýrarfláka hinna þýsku aðalsætta nema út af tengingunni til Bretlands.
Georg kemur til sögu
Soffía gegndi vel því hlutverki aðalsmeyja að viðhalda ætt eiginmanna sinna. Hún eignaðist sjö börn sem komust til fullorðinsára og má geta þess að ein dóttir hennar varð amma Friðriks mikla Prússakóngs 1740–1786. Elsti sonur Soffíu var hins vegar nefndur Georg.
Á Bretlandi hafði það gerst um þær mundir að náfrændi Soffíu, Jakob 2. kóngur (þau voru systkinabörn), var rekinn frá völdum 1688 í hinni svonefndu „glorious revolution“ þegar landeigendur og aðalsmenn komu á þingræði. Þróunin í Bretlandi gekk sem sé alveg í berhögg við þróunina víðast annars staðar í Evrópu þar sem einveldi konunga var að treysta sig í sessi.
Árið 1702 varð Anna, dóttir Jakobs, drottning á Bretlandi, sú sem segir frá í kvikmyndinni The Favorite. Hún átti ekki börn á lífi, þrátt fyrir að hafa 17 sinnum orðið barnshafandi, og því var ljóst að þegar hún andaðist vantaði einhvern í hásætið. Tugir kandídata komu til mála en gallinn var sá að flestallir voru kaþólskir og ráðandi menn á Bretlandi vildu ekki sjá pápista í hásætinu. Því staðnæmdust þeir að lokum við Soffíu kjörfurstafrú í Hanover.
Heimspekingar og lystigarður
Og 1701 hafði Soffía í Hanover, þá 71 árs, verið útnefnd erfingi og arftaki Önnu Bretadrottningar, sem þá var 36 ára en heilsuveil eftir ótal fósturlát og áföll önnur.
Soffía hafði komið sér vel fyrir í Hanover. Eiginmaður hennar þótti drumbslegur og ekkert gáfnaljós en hún átti heimspekinginn Gottfried Leibnitz að vini en hann var bókavörður í Hanover og einn af helstu spekingum upplýsingarinnar. Heimspeki var reyndar sérstakt áhugamál Soffíu og hún las bæði Decartes og Spinoza sér til skemmtunar. Hún fékkst líka við að hanna og koma upp frægum lystigörðum í Hanover, Herrenhausen-görðunum.
En hún var líka kænn og jafnvel vægðarlaus þátttakandi í því valdaspili sem leikið var í höllum aðalsættanna í Evrópu.
Hundrað þúsund dalir á ári
Hún kom því meðal annars í kring að hinn dauflyndi og ófríði sonur hennar Georg var látinn giftast til fjár frænku sinni, Sófíu Dóróteu, en þau voru bræðrabörn. Með Sófíu Dóróteu fékk Georg gríðarlega fjárhæð árlega. Sófíu Dóróteu sjálfri leist ekki á ráðahaginn. Þegar hún sá fyrst mynd af frænda sínum og var tjáð að þessum manni ætti hún að giftast æpti hún upp yfir og fleygði myndinni í gólfið, svo hljóðandi:
„Ég giftist ekki þessu svínstrýni!“
Og þegar þau voru svo kynnt í fyrsta sinn leist Sófíu Dóróteu ekki betur á frænda sinn en svo að það snarleið yfir hana. Þarfir ættarinnar urðu samt að ganga fyrir og þau Georg gengu í hjónaband 1682.
Þykk skurn um heilann
Enginn velktist í vafa um af hverju var stofnað til hjónabandsins og Soffía eldri sagði til dæmis í bréfi:
„Hundrað þúsund dalir eru dágóð summa að fá í vasann, að ekki sé minnst á snotra eiginkonu, sem mun fá nóg við að glíma þar sem er Georg sonur minn, þrjóskasti og þverlyndasti piltur sem til hefur verið, og hefur kringum heilann í sér svo þykka skurn að ég efast um að nokkur karl né kona muni komast að því hvað inni býr. Hann er ekki yfir sig hrifinn af hjónabandinu, en þessir hundrað þúsund dalir freista hans.“
Fleiri dæmi má finna í hinum fjörlegu skrifum Soffíu um að hún gerði sér fulla grein fyrir að Georg sonur hennar steig ekkert sérstaklega í vitið.
Sænskur greifi myrtur
Þrátt fyrir að engin ást væri milli hjónanna Georgs og Sófíu Dóróteu gengu þau til verka og eignuðust fljótlega son og síðan dóttur. Þá taldi Georg skyldum sínum lokið og hann hélt eftirleiðis við hirðmær móður sinnar, Melúsínu nokkra, sem aftur notaði sambandið við Georg til að selja stöður og embætti og auðgast stórkostlega. Sófía Dórótea tók þá upp ástarsamband við snotran sænskan greifa af þýsku ætterni sem var í þjónustu tengdaföður hennar. Greifinn var myrtur 1694, nærri áreiðanlega að undirlagi Georgs, og sama ár var hjónaband Georgs og Sófíu Dóróteu leyst upp á þeim grundvelli að hún hefði „yfirgefið eiginmann sinn“. Hún var síðan sett í stofufangelsi í svolitlu herrasetri í smáþorpi fyrir norðan Hanover. Þar mátti hún dúsa í 30 ár, eða þar til hún lést sextug að aldri 1726.
Gömul þýsk kerling
Á meðan skemmti Georg sér með Melúsínu. Hann tók við sem kjörfursti í Hanover 1698 þegar faðir hans geispaði golunni.
Þegar Soffía, móðir Georgs, var svo útnefnd arftaki Önnu 1701 varð ljóst að Georg yrði fyrr eða síðar konungur Bretlands. Hvorki hann sé Soffía móðir hans höfðu þá komið til Bretlands. Soffía hafði vissulega hug á að flytjast þangað eftir að hún var útnefnd arftaki en Anna drottning lagðist eindregið gegn því. Hún gat ekki hugsað sér að þessi gamla „þýska“ kerling héldi uppi annarri hirð í landinu í samkeppni við hennar eigin. Soffía var þá enn bráðhress, bæði andlega og líkamlega, en Önnu hrakaði sífellt. Þegar kom fram á árið 1714 fréttist til Hanover að Anna lægi fyrir dauðanum og Soffía byrjaði að undirbúa sig undir að verða drottning Bretlands.
Svo fór þó að Soffía dó í júní þetta ár, 83 ára, eftir að hafa lent í óvæntri rigningarskúr meðan hún var í gönguferð í garðinum sínum í Hanover. Hún hafði ekki gætt að veðurspánni og forkelaðist.
Anna skrimti hins vegar tæpum tveim mánuðum lengur. Hún dó úr öllum heimsins kvillum í byrjun ágúst.
Óvinsæll kóngur og fuglahræða hans
Þar með varð Georg konungur Bretlands þótt hann hefði aldrei komið þangað, talaði ekki ensku og hefði miklu meiri áhuga á þýskri pólitík en breskri. Georg var alla tíð óvinsæll hjá Bretum. Hann lærði litla ensku þótt hann flyttist til Bretlands, „fuglahræðan“ Melúsína vakti mikla andúð fyrir sína opinskáu spillingu og meðferðin á Sófíu Dóróteu þótti andstyggileg. Þá fannst mörgum hann reyna að haga sér eins og einvaldskóngur en mátti þó játa sig sigraðan gagnvart þinginu að lokum og lét hinn áhrifamikla forsætisráðherra Horace Walpole að mestu um stjórn landsins er á leið.
En þannig má segja að breska konungsættin hafi verið orðin þýsk og svo hélst síðan. Allir kóngar upp frá því og líka Viktoría drottning sóttu sér maka til Þýskalands. Það var ekki fyrr en hinn verðandi Játvarður 7. gekk að eiga Alexöndru Danaprinsessu 1863 sem verðandi drottning var ekki þýsk, en Alexandra var reyndar í raun þýsk í allar ættir. Og endaði svo að árið 1901 taldist breska konungsættin bera hið rammlega þýska nafn, „Saxe-Coburg und Gotha“.
Athugasemdir