Guðni Th. Jóhannesson, þáverandi starfandi sagnfræðingur og núverandi forseti Íslands, ræddi um fiskveiðar Íslendinga í Afríku í viðtali við DV árið 2012. Blaðið hafði þá fjallað um veiðar íslenskra útgerða, aðallega Samherja, í Marokkó og Máritaníu um nokkurt skeið sem og notkun Samherja á Kýpur til að stunda viðskipti í Afríku. Guðni Th. er einn helsti sérfræðingur þjóðarinnar í sagnfræði þorskastríðanna og skrifaði hann doktorsritgerð um efnið árið 2003 sem kallaðist Troubled Waters. Cod War, Fishing Disputes, and Britain‘s Fight for the Freedom of the High Seas, 1948‒1964.
Stundin endurbirtir hér greinina og viðtalið við Guðna Th. úr DV í ljósi umfjallana Wikileaks, Kveiks, Stundarinnar og Al Jazeera um Samherjaskjölin og stórfelldar mútugreiðslur Samherja til áhrifamanna í Namibíu í skiptum fyrir fiskiveiðikvóta. Núverandi blaðamaður Stundarinnar, Ingi F. Vilhjámsson, skrifaði greinina.
Viðtalið er ekki lengur aðgengilegt á heimasíðu DV vegna þess að við breytingar á vefsíðu dv.is var fjarlægt allt efni sem birtist á DV á löngu árabili. Viðtalið við Guðna Th. má einnig lesa á timarit.is.
Tekið skal fram að gerðar hafa verið ítrekaðar tilraunir til að fá Guðna Th. í viðtal um Samherjamálið í Namibíu en án árangurs. Guðni Th. tjáði sig hins vegar um Samherjamálið með óbeinum hætti fyrir nokkru.
Grein um Afríkuveiðar Íslendinga og viðtal við Guðna T. Jóhannesson
„Hinu unga lýðveldi var þröngur stakkur skorinn, erlendur togarafloti drottnaði á heimamiðum, útgerðir í Hull og Grimsby og hafnarborgum meginlandsins hirtu arðinn af Íslendingum.“ Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í ávarpi sínu í sérblaði um þorskastríðin sem almannatengslafyrirtækið Athygli gaf út árið 2008. Blaðið hét Stríðið um miðin.
Segja má að þessi söguskoðun Ólafs Ragnars á mikilvægi þorskastríðanna þriggja og útfærslu fiskveiðilögsögunnar sé nokkuð útbreidd og almenn í þjóðarsálinni. Flestir landsmenn telja að það hafi verið til góðs fyrir sjálfstæði íslands og þjóðarbúið þegar fiskveiðilögsagan var á nærri 30 ára tímabili, 1948 til 1976, færð út í 200 sjómílur.
Fáir atburðir í sögu íslands á tuttugustu öld eru þjóðinni eins mikið hjartans mál og þorskastríðin. Íslendingar líta svo á að þeir hafi brugðist við óréttlæti frá hendi stærri og valdameiri þjóða sem bjuggu yfir öflugri skipakosti og arðrændu hana með fiskveiðum á miðunum við landið.
Samanburðurinn vid Afríku
DV hefur að undanförnu fjallað um fiskveiðar íslenskra útgerðarfyrirtækja úti fyrir ströndum Vestur-Afríku. Að minnsta kosti fimm íslensk útgerðarfyrirtæki hafa veitt fisk úti fyrir ströndum Vestur-Afríku á liðnum árum. Meðal annars er um að ræða stórútgerðina Samherja, Sjólaskip, Úthafsskip, Sæblóm og útgerðina sem gerir út togarann Blue Wave, sem meðal annars er í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Veiðitækin sem notast er við eru stór; togarar og verksmiðjutogarar: 120 metra skip, með meira en 50 manna áhöfn, sem taka á milli tvö og þrjú þúsund tonn af frystum fiski í lestar sínar.
Veiðarnar fara fram á grundvelli samninga sem Evrópusambandið hefur gert við ríkisstjórnir í Marokkó og Máritaníu en einnig semja útgerðirnar beint við yfirvöld í þessum löndum í einhverjum tilfellum. Samherji hefur til að mynda bæði fengið veiðiheimildir vegna samninga Evrópusambandsins og eins vegna þess að fyrirtækið hefur sjalft samið við yfirvöld í ríkjunum. Tekjur íslenskra útgerða af þessum veiðum eru miklar. Til að af þessum mynda eru tekjur Samherja af þessum veiðum á milli 30 og 40 prósent af tekjum Samherja tilkomnar vegna þessara veiða, á þriðja tug milljarða króna. Samherji á og rekur 9 skip sem stunda veiðarnar við vesturströnd Afríku.
Arður hirtur af fátækum þjóðum
Hagnaðurinn af veiðum Íslendinga við strendur Vestur-Afríku verður hins vegar ekki eftir í þeim löndum þar sem veiðarnar fara fram nema að litlu leyti. Greidd eru veiðigjöld til landanna, annað hvort frá Evrópusambandinu eða beint frá útgerðunum en þau eru lág miðað við þær tekjur sem útgerðirnar geta haft upp úr veiðunum. Til að mynda hefur Evrópusambandið greitt ríkisstjórn Marokkó 36 milljónir evra fyrir veiðiréttindi fyrir um 120 skip úti fyrir ströndum landsins en bara tekjur Samherja af Afríkuveiðunum við Marokkó, Vestur-Sahara og Máritaníu nema um 140 milljónum evra. Líkt og Ólafur Ragnar nefndi í tilfelli þorskastríðanna er það því „erlendur togarafloti á heimamiðum“ þessara Afríkuþjóða sem hirðir arðinn sem af þeim.
Íslendingar sem eru í sextánda sæti yfir ríkustu þjóðir heims miðað við verga þjóðarframleiðslu eru því að taka arð út úr sem eru miklu fátækari á auðlindum en þeir. Marokkó er í 117. sæti yfir ríkustu þjóðir heims og Máritanía í því 148. Að hluta til er þetta gert í skjóli Evrópusambandsins.
Líkt og fyrir þorskastríðin á miðunum við Ísland þegar erlendar stórþjóðir komu til veiða við Ísland fara íslenskar útgerðir nú til fátækari og vanþróaðri landa og veiða fiskinn í lögsögu þeirra. Þetta gerist án þess að viðkomandi þjóðir hagnist á því í réttum mæli við arð íslenskra útgerða af veiðunum. Munurinn er þó auðvitað sá að Íslendingar gera þetta í ljósi samninga við þessar þjóðir eða í gegnum Evrópusambandið á meðan Bretarnir stunduðu veiðar sínar að Íslendingum forspurðum, í ljósi sögulegs réttar.
Hart á móti hörðu
Ísland hafði einungis verið sjálfstæð þjóð í fjögur ár þegar tekin verið var sjálfstæð ákvörðun um að færa fiskveiðilögsöguna út í fjórar sjómílur árið 1948. Sjálfstæðið fra Danaveldi var sótt í skjóli heimsstyrjaldar og erlends hernáms, fyrst Breta og svo Bandaríkjamanna sem hjálpuðu Íslendingum að koma undir sig fótunum, bæði með atvinnu og erlendu fé og síðar Marshall-aðstoðinni. Fram að seinni heimsstyrjöld hafði Ísland verið fátæk þjóð í alþjóðlegu samhengi; það var ekki fyrr en eftir síðara stríð sem hagur landsins tók að vænkast. Fiskveiðar, og aukin stórvirkni í aflabrögðum útgerðarfyrirtækja, átti ekki lítinn þátt í því.
Bretar, sem veitt höfðu fisk við Íslandsstrendur um aldir, mótmæltu útfæslu Íslendinga á landhelginni í fjórar mílur harðlega og sett var löndunarbann á íslenskan fisk þar í landi auk þess sem aðrar fiskveiðiþjóðir í Evrópu gagnrýndu aðgerðina. Meðal þeirra raka sem bresk stjórnvöld beittu fyrir sig var að Bretar hefðu öðlast sögulegan veiðirétt við Íslandsstrendur vegna þess að þeir hefðu veitt þar til langstíma - Lúðvík Jósepsson sjávarútvegsráðherra átti síðar eftir að gagnrýna þau rök með þeim orðum að slíkur veiðiréttur væri ekki til. Aukin harka færðist í deilurnar um útfærslu fiskveiðilögsögu Íslands á næstu áratugum eftir því sem Ísendingar færðu lögsöguna lengra frá landinu.
Íslensk varðskip klipptu á troll breskra togara sem veiddu innan lögsögunnar og Bretar beittu herskipum til ásiglinga á íslensk varðskip til að tryggja hagsmuni sína. Hart mætti hörðu enda var mikilvægt fyrir íslendinga að standa fast á sínu til að hið unga fátæka lýðveldi gæti séð sér farborða. Þannig má líta á að þorskastríðin hafi verið barátta upp á líf og dauða fyrir hafi Íslendinga - sem betur fer fyrir þá höfðu þeir betur.
„ Þá hófst vegferð sem með réttu má nefna hina nýju sjálfstæðisbaráttu íslendinga - leiðangur til að treysta lýðveldið í sessi, koma í veg fyrir að það brotnaði saman vegna arðráns útlendinga á íslenskum miðum.“
Hin nýja sjálf stæðisbarátta
Ólafur Ragnar forseti Íslendinga setti þessa baráttu og mikilvægi hennar í sögulegt samhengi í ávarpi sínu í Stríðunum um miðin þegar hann undirstrikaði efnahagslegt mikilvægt þorskastríðanna. Benti Ólafur Ragnar á að veiðar erlendra fiskiskipa við Íslandsmið hefðu getað veikt undirstöður hins unga lýðveldis. Ólafur Ragnar kallaði baráttuna um miðin „hina nýju sjálfstæðisbaráttu“. „Það var óvissu háð hvort lýðveldið gæti framfleytt sér, hvort undirstöður efnahagsins reyndust traustar, hvort sjálfstæðið yrði raunverulegt eða innantómt. Þá hófst vegferð sem með réttu má nefna hina nýju sjálfstæðisbaráttu íslendinga - leiðangur til að treysta lýðveldið í sessi, koma í veg fyrir að það brotnaði saman vegna arðráns útlendinga á íslenskum miðum.“ Þorskastríðin stöðvuðu á endanum arðránið.
Á sams konar hátt má segja að margar af þjóðum Afríku séu í sams konar stöðu og Ísland var í á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þær rembast við að reyna að koma undir sig fótunum, reyna að iðnvæðast almennilega, taka upp stórvirkari tækni sem geri þeim kleift að nýta auðlindir sínar betur, margar þeirra tiltölulega nýsjálfstæðar undan valdi þróaðri og sterkari þjóða - Marokkó og Máritanía fengu sjálfstæði frá Frökkum 1956 og 1960. Þessar þjóðir búa ekki yfir sömu þekkingu, reynslu og tækni í sjávarútvegi og við íslendingar og aðrar iðnvæddar þjóðir sem veiða fisk með stórvirkum togurum við strendur þeirra. Hin „nýja sjálfstæðisbarátta" þessara Afríkuþjóða gæti þá meðal annars falist í því að þær nýti sjálfar til fulls eigin auðlindir en selji ekki afnot af þeim fyrir lítið til annarra þjóða.
„Í allri okkar baráttu fyrir verndun fiskmiðanna var rauði þráðurinn sá að strandríkið skyldi hafa fullan rétt á auðlindunum undan ströndum þess.“
Strandríkið njóti ávaxtanna
Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur og einn af helstu sérfræðingum landsins um þorskastríðin, segir að veiðar Íslendinga við strendur Vestur-Afríku séu „hámark tvískinnungsins“. „Í allri okkar baráttu fyrir verndun fiskmiðanna var rauði þráðurinn sá að strandríkið skyldi hafa fullan rétt á auðlindunum undan ströndum þess. Auðvitað flækir það aðeins myndina að Evrópusambandið er að semja við yfirvöld í ákveðnum Afríkuríkjum um afnotarétt á þessum auðlindum.“
Guðni segir að í þorskastríðunum hafi baráttan snúist um það að úthafsveiðiþjóðir eins og Þjóðverjar, Bretar, Japanir og Sovétmenn gætu ekki bara haldið á fjarlæg mið, sótt þann afla sem þeim sýndist og horfið svo a braut. „Þorskastríðið snerist um það að strandríkið fengi að njóta ávaxtanna [...] Þessi umræða um tvöfeldni kom líka upp í Smugudeilunni þar sem Norðmenn sökuðu okkur um hræsni; að við værum allt í einu orðin þessi mikla úthafsveiðiþjóð sem sækti á fjarlæg mið og hirti ekkert um ofveiði í Norðurhöfum og annað slíkt. Þá notuðum við einnig hugmyndina um að værum að öðlast sögulegan veiðirétt í Smugunni, líkt og Bretar höfðu gert hér við land. Lúðvík Jósepsson myndi líklega snúa sér við í gröfinni ef hann vissi að reyndum að réttlæta það að sækja afla hvar sem er undan ströndum annarra ríkja.“
Afríkuveiðar Íslendinga þýða því einnig að Íslendingar eru farnir að haga sér eins og úthafsveiðiþjóð, útrásarfiskveiðiþjóð sem lætur sér ekki nægja sitt heimabrúk.
Þáttur Evrópusambandsins
Guðni segir hins vegar að ekki megi saka íslensk stjórnvöld um tvöfeldni þegar kemur að Afríkuveiðunum, um sé að ræða ákvörðun einstakra útgerða að stunda þessar veiðar. „Sér- hagsmunirnir koma í ljós á ýmsum sviðum [...] Þetta eru ekki bara Samherji og ESB. Það á frekar að saka ESB um skammsýni," segir Guðni.
Íslenskar útgerðir taka auðvitað ákvarðanir um þessar veiðar út frá sínum eigin hagsmunum með arðsemi að leiðarljósi í ljósi þeirra laga og reglna sem eru í gildi ef þær telja sig geta grætt á því. Hér hefur aldrei verið sagt að veiðar íslendinga við Afríkustrend- ur séu í eðli sínu ólöglegar. En veiðar Breta og annarra úthafsveiðiþjóða hér við land á síðustu öld voru það ekki heldur þegar þorskastríðin hófust. Umræðan snýst um siðlega þætti og löglegt arðrán á auðlindum annarra þjóða.
Annar angi af þessari umræðu er sá að íslensku útgerðirnar veiða í sumum tilfellum við Vestur-Afríku vegna samninga sem Evrópusambandið hefur gert við einstök ríki í skiptum fyrir fjármuni. Þetta á til dæmis við um Samherja sem veiðir þar vegna þessara samninga.
Tvenns konar tvöfeldni
Á sama tíma og Samherji veiðir við strendur Afríku vegna samninga Evrópusambandsins hefur forstjóri félagsins, Þorsteinn Már Baldvinsson, lýst því yfir að hann sé ekki hlynntur inngöngu Íslands í Evrópusambandið vegna þess að slíkt myndi fela í sér aukna samnýtingu íslensku fiskimiðanna með öðrum löndum Evrópusambandsins. Auk þess að veiða við Afríkustrendur í skjóli Evrópusambandsins heldur Samherji einnig á miklum aflaheimildum í löndum innan sambandsins, til dæmis í Þýskalandi.
Orðrétt hefur Þorsteinn Már sagt um þetta atriði: „Sumir halda því fram að við munum hafa áhrif í sjávarútvegsmálum því íslendingar séu svo stórir. Þetta er alrangt. Hvorki Þjóðverjar, Pólverjar, Englendingar né aðrir ætla að láta okkur hafa sérstök áhrif í sjávarútvegsmálum umfram það sem segir í reglum Evrópusambandsins."
Þetta er algengt viðhorf í samfélaginu og það atriði sem einna oftast er nefnt sem ástæða til að vera andsnúinn aðild íslands að Evrópusambandinu. Hér að ofan má til dæmis sjá þessi rök í máli, Einars K. Guðfinnssonar, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra. „Það er ekki síst með skírskotun til þessa sem ég og margir aðrir eru mjög á varðbergi þegar menn fara að ræða um sameiginlega nýtingu auðlindarinnar innan vébanda stórra ríkjasambanda eins og ESB.“
Morgunblaðið, sem að hluta til er í eigu Samherja og annarra útgerðarrisa, hefur verið duglegt við að halda þessu sjónarmiði á lofti enda réttilega eitt af þeim atriðum sem taka þarf afstöðu til þegar kostir og gallar aðildar að sambandinu eru metnir.
Tvískinnungurinn að þessu leytinu til er þá sá að á sama tíma og íslenskar útgerðir vilja nýta sér það sem Evrópusambandið getur veitt þeim í öðrum löndum þá vilja þær ekki gefa eftir notkunarrétt á fiskveiðilögsögu Íslendinga til ríkja í Evrópusambandinu, líkt og aðild að því fæli í sér. Á ensku er slíkur hugsunarháttur orðaður með þeim frasa að menn vilji eiga kökuna og éta hana líka. Útgerðir vilja nýta sér kosti þess að vera ekki í Evrópusambandinu en einnig það sem þeir geta nýtt sér í skjóli sambandsins, án þess þó að ganga í það. Þetta er því líklega tvenns konar tegund af tvöfeldni.
Greinin var fyrst birt í DV 11. maí 2012 en er ekki aðgengileg á vef blaðsins.
Athugasemdir