Fyrrverandi fjármálastjóri Samherja, Sigursteinn Ingvarsson, vissi ekki að fyrirtækið hefði greitt mörg hundruð milljónir króna í mútur í Namibíu til að komast yfir hestamakrílskvóta. „Nei,“ segir Sigursteinn þegar hann er spurður að því hvort hann hafi vitað um mútugreiðslurnar. Hann segist fyrst hafa séð upplýsingar um mútugreiðslurnar í fjölmiðlum.
Sigursteinn hætti sem fjármálastjóri árið 2016 eftir að hafa starfað hjá Samherja í 14 ár. Sigursteinn var meðal annars notandi (norska: disponent), hafði formleg réttindi til að millifæra og stýra bankareikningi Kýpurfélagsins Esju Seafood í norska DNB bankanum, samkvæmt upplýsingum úr Samherjaskjölunum sem Stundin hefur unnið fréttir upp úr í samstarfi við Wikileaks, Kveik og Al Jazeera.
Sigursteinn segir aðspurður að hann hafi ekki vitað að hann hefði haft leyfi til að millifæra fé af reikningum Esju Seafood. „Nei. Ok, ég vissi það ekki. Þetta kemur mér verulega á óvart. Ég þekki þetta ekki.“
Þetta félag Samherja á Kýpur greiddi hálfan milljarð í mútur til félagsins Tundavala Investments í Dubaí. Sigursteinn vissi þetta ekki segir hann en greiðslurnar til Tundavala hófust áður en hann hætti hjá Samherja.
Treysti samstarfsfólki
Sigursteinn vill að svo komnu máli ekki svara því hvernig honum varð um að sjá þessar upplýsingar í fjölmiðlum. „Ég ætla nú bara að bíða og sjá hvað rannsóknir leiða í ljós. Ég held að ég ætli ekkert að tjá mig um þetta fyrr.“
Blaðamaður: „En þú varst fjármálastjóri félagsins?“
„Ég fylgdist ekki með einstaka greiðslum úti í heimi“
Sigursteinn: „Já, en það eru 130 félög í samstæðunni og ég treysti bara þeim uppgjörum sem komu frá endurskoðendum í hverju landi, og að þeir fjármálastjórar sem væru að vinna í þessum löndum úti, og allan heim, væru að vinna vinnuna sína.“
Blaðamaður: „Þú sást aldrei neinar heimildir sem bentu til þess að þessar greiðslur hefðu átt sér stað?“
Sigursteinn: „Nei, ég fylgdist ekki með einstaka greiðslum úti í heimi. Ég fylgdist bara með því uppgjörin væru endurskoðuð. Ég var ekki að velta því fyrir mér hvert greiðslurnar fóru í hverju landi fyrir sig. Einungis endurskoðuð uppgjör fengu að fara inn í samstæðu Samherja. Þetta er náttúrulega gríðarlega stór samstæða. Ég fylgdist með rekstrinum en ekki einstaka peningafærslum.“
Tekið skal fram að ekkert í Samherjaskjölunum sýnir fram á eða bendir til að Sigursteinn hafi komið að því að skipuleggja þessar mútugreiðslur. Engir tölvupóstar, skjöl eða önnur gögn sýna fram á aðkomu hans að mútunum. Hann var hins vegar fjármálastjóri samstæðu Samherja og einn hæstsetti stjórnandi félagsins.
Veit ekki hversu margir vissu um múturnar
Þegar Sigursteinn er spurður að því hversu margir innan Samherja hafi vitað um mútugreiðslurnar að hans mati, fyrst hann sem fjármálastjóri vissi ekki um þær svarar hann: „Ég bara þekki það ekki.“
Blaðamaður: „Þetta var aldrei rætt á neinum vettvangi?“
Sigursteinn: „Auðvitað var rætt um þessi félög og farið yfir reksturinn almennt, en daglegur rekstur er bara í viðkomandi landi […] En eins og ég segi þá finnst mér bara eðlilegt á þessari stundu að málið verði rannsakað. Ég tjái mig kannski meira um þetta eftir það.“
Að lokum segist hann eiga erfitt með að trúa því að þetta hafi gerst: „Ég var búinn að vinna svo lengi með þessu fólki og ég á bara svo erfitt með að trúa þessu.“
Athugasemdir