Fyrirtæki í sjávarútvegi í Namibíu hafa á undanförnum árum misst frá sér fiskveiðikvóta upp á þúsundir tonna. Afleiðingin er sú að fyrirtækin hafa neyðst til að draga úr starfsemi sinni, sem aftur hefur valdið því að mikill fjöldi fólks hefur misst vinnuna og þar með hafa þúsundir fjölskyldna misst lífsviðurværi sitt, að því er namibískir fjölmiðlar fullyrða. Á sama tíma fékk Samherji úthlutað hestamakrílkvóta og hefur veitt um 500 þúsund tonn af fiskinum við strendur Namibíu. Verðmæti aflans nemur á milli 50 og 55 milljörðum íslenskum króna á tímabilinu 2012 til 2019. Ekkert af þeim afla kom á land í Namibíu.
Í umfjöllun Kveiks síðastliðinn þriðjudag var fjallað um þá staðreynd að veiðar Samherja skildu sáralítið eftir sig í Namibíu. Samherji stundaði enga landvinnslu í Namibíu og þar af leiðandi skapaði fyrirtækið engin störf. Í götublaðinu Namibian Sun er bent á þessi tengsl við samdrátt í starfsemi sjávarútvegsfyrirtækjanna og töpuð störf, líkt og Kveikur hafði áður gert. Þar er fyrirtækið Namsov sérstaklega nefnt til sögunnar. Í gögnum sem Stundin hefur unnið með í samstarfi við Kveik, Wikileaks og Al Jazeera má sjá að Samherji leit á Namsov sem sinn helsta keppinaut þegar fyrrnefnda fyrirtækið var að reyna að ná fótfestu í Namibíu árið 2012. Í minnisblaði sem er tekið saman 2. febrúar um það sem kallað er Namibíu verkefnið er þetta staðfest.
Í minnisblaðinu kemur þannig fram að Namsov sé leiðandi fyrirtæki í hestamakrílveiðum við Namibíu, og er fyrirtækið raunar sagt hafa haft algjöra einokun á markaðnum og í iðnaðnum, ásamt fyrirtækinu Erongo. „Það sem ógnar okkar mest hér eru keppinautar í hestamakríl (Oceana og Namsov) sem að hafa verið hér lengi, hafa sambönd í Namibíu og hafa markaðssbönd í DRC. Ekki má gleyma því að pólítkin gæti snúist gegn okkur seinna meir,“ segir í minnisblaðinu.
Samherji hóf hestamakrílveiðar við strendur Namibíu í febrúar 2012. Í minnisblaðinu eru listaðir upp aðilar sem Samherjamenn hafi náð tengslum við í landinu. Þar er eigu Tamson „Fitty“ Hatuikulipi efstur á blaði. „Tengdasonur ráðherrans og okkar tengill við hann. Hefur reynst mjög vel og hafa skilaboð farið á milli ráðherrans og Kötlu,“ segir í minnisblaðinu. Raunin var sú að Samherji hafði þegar innt af hendi mútugreiðslur til Tamson þegar minnisblaðið var skrifað. Félög Samherja greiddu aðilum í Namibíu mútur frá upphafi árs 2012 og í það minnsta fram í janúar á þessu ári.
Athugasemdir