Gengið hefur verið frá samningum um gerð tölvuleiks sem byggir á starfsemi WikiLeaks-samtakanna. Bavaria Media, umboðsaðili Just Licensing í Þýskalandi, kom að gerð samningsins við þýska leikjaframleiðandann Tellux. Þróun og markaðssetning leikjarins er að fullu fjármögnuð. Athygli vekur að þýska ríkið styrkir þróun leikjarins auk þess sem það leggur til um 25 prósent af kostnaði á móti Bavaria Media. Ólafur Vignir Sigurvinsson, framkvæmdarstjóri Just Licensing, sem heldur utan um vörumerkin „WikiLeaks“ og „Julian Assange“, staðfestir þetta í samtali við Stundina, en fyrirtækið stefnir á enn frekari landvinninga með vörumerki sín. Leikurinn mun koma út undir merkjum WikiLeaks í vor.
Þjóðverjar hrifnir
Sögusvið tölvuleikjarins, sem ber vinnuheitið „Leaked“, er í dystópískri framtíð þar sem stórfyrirtæki og ríkisstjórnir fylgjast með hverju rafrænu skrefi þegnanna. Spilarinn er í hlutverki rannsóknarblaðamanns sem hefur undir höndum dulkóðaðan gagnapakka sem gæti bjargað lífi hans en til að afkóða pakkann þarf hann að leysa ýmsar þrautir og gátur. Þá eru útsendarar á vegum ráðandi afla á eftir honum. Ólafur Vignir bendir á að leikurinn verði í anda gátuleikjarins ROOM sem fæst á iphone og android. „Hann verður á þeim platformum.“
Athugasemdir