Þorgrímur Þráinsson, sem hefur boðað framboð til embættis forseta Íslands, gagnrýnir mæður fyrir að horfa ekki í augun á ungbörnum sem þær gefa á brjóst, heldur nota tímann á Facebook í staðinn. Orð hans eru meðal annars gagnrýnd af rithöfundinum Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur á þeim grundvelli að þau lýsi stjórnsemi karlmanns gagnvart konum og að þau ýti undir óréttmætt samviskubit hjá nýbökuðum mæðrum.
Móðirin á Facebook
Þorgrímur setti fram gagnrýnina í þættinum Morgunútgáfunni á Rás 2: „Kona sem er í ungbarnaeftirliti segist vera að upplifa ákveðið tilfinningarof milli móður og barns sem er á brjósti. Vegna þess að móðirin er kannski að nota tímann á Facebook á sama tíma og hún er að gefa á brjóst.“
Þorgrímur útskýrði orð sín nánar í kjölfar þess að útvarpsmaðurinn tók undir með honum með orðunum „já, hugsaðu þér“: „Já, þannig að þessi tilfinningatengsl sem við þekkjum bara, að halda á barni í fanginu, að vera ekki að horfa í augun á því samtímis, það rofnar eitthvað. Ég hef engar rannsóknarniðurstöður á bakvið þetta, en þetta er mér sagt af manneskju sem er í ungbarnaeftirliti.“
Sagður ráðskast með hvert konur horfa
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir gagnrýnir Þorgrím fyrir að fara yfir strikið með því að „ráðskast með hvert konur horfa á meðan þær sinna brjóstagjöf“.
„Þar sem [Þorgrímur Þráinsson] hefur ekki verið með barn á brjósti sjálfur þarf kannski að minna hann á að mörg börn eru með lokuð augun á meðan á þessu ferli stendur. Varla þurfum við vökustaura á börnin til að tryggja „órofna tengingu“. Þá þurfa hvítvoðungar að fá brjóst á um það bil tveggja tíma fresti fyrsta skeið ævi sinnar. Mæðrum er innrætt að barnið eigi heimtingu á óskiptri athygli þeirra, bæði líkamlega og tilfinningalega. Þetta er erfitt ferli sem útheimtir oft blóð, svita og tár allan sólarhringinn. Mæður þurfa allra síst á því að halda að vera guilt-trippaðar með svona hrútskýringum,“ skrifar Þórdís Elva í gagnrýni sinni á Facebook.
Athugasemdir