Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar, kallar eftir því að íslenska lögreglan fái aukin úrræði til að tryggja öryggi borgaranna og stöðva misyndismenn. Þetta kemur fram í hugleiðingu hans á Facebook þar sem hann gefur í skyn að þörf sé á aukinni vopnvæðingu lögreglunnar.
„Maður er sleginn óhug eftir voðaatburði í Frakklandi og Tyrklandi síðustu daga. Hörmulegur atburður í Frakklandi var mikið ræddur hjá hópi fólks sem ég hitti í gærkvöldi. Eðlilega var fólk að velta því upp hvort svona atburðir gætu átt sér stað í okkar friðsama samfélagi. Í senn er þetta okkur svo fjarlægt þó voðaatburðirnir eigi sér stað nánast í næsta húsi,“ skrifar Jón og bætir við: „Þeirri spurningu var velt upp hvernig við gætum tryggt öryggi borgaranna ef við stæðum frammi fyrir slíku ástandi. Við vorum sammála um það að það kæmi að litlu gagni ef lögreglumenn hefðu ekki önnur úrræði en að banka með kylfu á glugga farartækis misyndismanna og biðja þá að hætta. Við hljótum að þurfa að taka þessa umræðu og hugsa fyrir því hvernig við gerum lögreglumönnum okkar kleift að mæta aðstæðum þeim sem við mögulega stöndum frammi fyrir.“
Egill Helgason fjölmiðlamaður gerir athugasemd við ummæli Jóns og telur fráleitt að huga að aukinni vopnvæðingu lögreglunnar á Íslandi, enda sé það langfriðsælasta ríki heims. „Hvílík rörsýn,“ skrifar hann hann og vitnar í svonefnt Global Peace Index máli sínu til stuðnings.
Athugasemdir