Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill sýna mikla hörku gagnvart ákveðnum, óskilgreindum hópi hælisleitenda, sem hann telur að leiti hingað til lands til að „misnota velferðarkerfið“. Hann telur að Íslendingar hafi „villst töluvert mikið af leið“ í málefnum útlendinga.
Þetta kom fram í viðtali Óla Björns á Útvarpi Sögu við Pétur Gunnlaugsson. Eyjan greinir frá málinu í frétt í dag.
„Þegar kemur að útlendingamálum þá held ég að við höfum villst töluvert mikið af leið. Ég vil orða þetta þannig: Við eigum að opna faðminn mjúkan, gagnvart því fólki sem þarf tímabundið eða jafnvel til langframa að leita sér raunverulegs skjóls. En við eigum að mæta öllum þeim með hörðum stálhnefa sem ætla að koma hingað til Íslands sem, í rauninni ja eigum við að segja, misnota velferðarkerfið okkar,“ sagði Óli Björn í viðtalinu.
Sigríður Á. Andersen, nýr dómsmálaráðherra og ráðherra útlendingamála, hefur tekið í svipaðan streng. „Við ætlum ekki að láta það átölulaust ef menn ætla að misnota þá velvild sem við viljum sýna og ég held að öll þjóðin vilji sýna stríðshrjáðu fólki, ef menn vilja misnota hana með tilhæfulausum umsóknum um hæli,“ sagði Sigríður í samtali við RÚV.
Athugasemdir