Ný skýrsla nefndar Eyþórs Arnalds leiðir í ljós að rekstur RÚV ohf. frá stofnun félagsins árið 2007 hefur ekki verið sjálfbær. Skýrslan er kolsvört og í raun áfellisdómur yfir stjórnendum félagsins fyrr og nú. Hallarekstur hefur verið fjármagnaður með auknum ríkisframlögum. Þá er því lýst í skýrslunni að áætlanir ársins í ár séu miðaðar við hækkun útvarpsgjalds sem ekki hafi orðið að veruleika. Þar stefnir því í óefni. Næsta ár lítur illa út hvað rekstur varðar. Sligandi skuldir eru á félaginu og reksturinn í ólestri ef litið er til áætlana.
Nefndin gerði samanburð á rekstri RÚV og á útvarps- og sjónvarpssviði 365. Það leiddi í ljós að RÚV er rekið með mun meiri tilkostnaði og því óhagstæðari. Þá er því lýst að lögbundið eftirlit með rekstrinum er ekki virkt.
Samkvæmt skýrslunni er framtíðin hjá RÚV dökk. Mikil breyting í hegðun neytenda hefur orðið til þess að mikill samdráttur er í áhorfi á hefðbundna sjónvarpsdagskrá. Ungt fólk í hópi áhorfenda hefur í mestum mæli yfirgefið RÚV. Nefndin lætur í ljósi það álit að nauðsynlegt sé að endurskoða hlutverk RÚV í ljósi þessarar stöðu. Gera verði nýjan þjónustusamning í samræmi við lög nr. 23/2013 og í honum verði skilgreind sú þjónusta sem RÚV ber að sinna og hvaða fjármunir eigi að koma fyrir þá þjónustu út samningstímann. Með þeim samningi náist að ramma betur inn hlutverk, skyldur og forgangsröðun RÚV.
Skýrsluhöfundar láta í ljósi efasemdir um að ohf. rekstrarformið sé heppilegt fyrir starfsemi RÚV þar sem reynslan sýni að félagið er ekki rekið með takmarkaðri ábyrgð þegar ávallt er gert ráð fyrir að ríkissjóður rétti af fjárhag félagsins. Þá er bent á það að óhagstæður samningur hefði verið gerður við Vodafone. Stjórnvöld hefðu getað lokið ljósleiðaravæðingu landsins fyrir sömu fjárhæð og Vodafone fékk fyrir samninginn. Þá er sett spurningarmerki við að RÚV sé á auglýsingamarkaði. Spurt er hvort RÚV sé best til þess fallið að „ná fram markmiðum ríkisins sem snúa að íslenskri menningu, tungu og lýðræðisumræðu”. Loks velta skýrsluhöfundar því upp hvort hægt að fá betri nýtingu á fjárveitingar ríkissjóðs til stofnunarinnar.
Skýrsluna má lesa í heild sinni hér.
Athugasemdir