Í afsökunarbeiðni sem RÚV sendi frá sér í dag er beðist afsökunar á einu tilteknu atriði í áramótaskaupi Stundarinnar okkar. Að sögn Skarphéðins Guðmundssonar, dagskrárstjóra Sjónvarps, er vísað til atriðisins þar sem kastljósinu er beint að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra og Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra. Stjórnarherrarnir, í gervi stjörnustríðspersóna, hlæja illkvittnislega, þeysast um á geimskipinu „einkavæðarinn“ og tortíma Landspítalanum og Ríkisútvarpinu.
Í Stundarskaupinu, eins konar áramótaskaupi sem sérstaklega er ætlað börnum, er gert grín að fleiri stjórnmálamönnum, meðal annars Árna Páli Árnasyni formanni Samfylkingarinnar og pírötunum Birgittu Jónsdóttur og Helga Hrafni Gunnarssyni. Þá er hæðst að forseta Íslands og Eyþóri Arnalds, athafnamanni sem nýverið vann umdeilda skýrslu um rekstur Ríkisútvarpsins. Ekki hefur verið beðist afsökunar á þessum bröndurum, heldur einungis þeim er beindist að Sigmundi og Bjarna. „Það er beðist afsökunar á nálgun í þessu atriði, ekki Stundarskaupinu öllu eins og rangt er farið með í flestum fyrirsögnum dagsins,“ sagði Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarps, í svari við fyrirspurn Stundarinnar í gærkvöldi.
Athugasemdir