Samkvæmt úrdrætti úr ársreikningi Sjálfstæðisflokksins árið 2014 styrkti almannatengslafélagið KOM flokkinn um 235.312 krónur. Í samtali við Stundina segir Friðjón R. Friðjónsson, framkvæmdastjóri félagsins og varaþingmaður flokksins, að ekki sé um að ræða styrk upp á fé heldur vinnu. Að hans sögn gaf félagið alla sína vinnu fyrir flokkinn á seinasta ári. Hluti þeirrar vinnu var vegna lekamálsins. Ljóst er að þetta er í fyrsta skipti sem KOM hefur styrkt flokkinn, í það minnsta á árunum eftir hrun. Félagið skipti um eigendur um áramótin 2013-2014 en þar áður var það í eigu Jóns Hákons Magnússonar.
„Í lögum um fjármál stjórnmálaflokka segir að það þurfi að verðmeta vinnu sem er innt að hendi. Þetta er sá verðmiði sem að við settum á þá aðstoð sem við veittum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins yfir árið í heild. Miðað við standard verð hjá okkur, sem eru 15 þúsund krónur á tímann, þá jafngildir þetta um 20 tímum,“ segir Friðjón. Að hans sögn var hluti vinnunar aðstoð vegna framkvæmdastjóraskipta.
Samkvæmt heimasíðu KOM sérhæfir fyrirtækið sig meðal annars í almannatengslum sem tengjast hinu opinbera. Eitt slíkra verkefna var kynning á skýrslu nefndar Eyþórs Arnalds um rekstur Ríkisútvarpsins í lok október. Friðjón hefur sagt að félagið hafi fengið 60 þúsund krónur fyrir það verkefni. Fyrr á þessu ári var svo greint frá því að KOM hefði fengið nærri eina milljón króna frá ríkinu vegna aðstoðar við að bæta ímynd lögreglu og lögreglustjóra vegna lekamálsins og mistaka við birtingu skýrslunnar um Búsáhaldabyltinguna. Á meðal annarra kúnna KOM eru Geir H. Haarde og Víglundur Þorsteinsson.
Athugasemdir