Frank Brosens, einn af stofnendum vogunarsjóðsins Taconic Capital, fullyrðir að tortryggni íslensks almennings gagnvart sölunni á hlut í Arion banka, sé að miklu leyti tilhæfulaus. Þetta kemur fram í viðtali við hann sem birtist í Financial Times í gær. Tilkynnt var um kaup Taconic á 9,9 prósenta hlut í Arion banka þann 19. mars en Frank fullyrðir að Taconic sækist hvorki eftir stjórnarsetu í Arion banka né áhrifum innan hans.
Vogunarsjóðurinn Taconic Capital var stofnaður árið 1999 og með eignir að virði 6 milljarða dollara í stýringu. „Taconic Capital annast stýringu fjárfestingasjóða sem eru með seljanleika í samræmi við fjárfestinguna í Arion banka. Fjárfestar eru einkum stofnanafjárfestar, lífeyrissjóðir, styrktarsjóðir og fjársterkir einstaklingar,“ segir í tilkynningu sem birtist á vef Arion banka þegar greint var frá sölunni. Frank Brosens starfaði hjá fjármálarisanum Goldman Sachs um árabil, en Goldman Sachs kemur einnig að kaupunum í Arion banka gegnum dótturfélagið ELQ Investors II Ltd.
Í frétt Financial Times er rætt við Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og haft eftir honum að til skoðunar sé að tengja íslensku krónuna við annan gjaldmiðil. Fram kemur að honum finnist „absúrd“ að tengja krónuna við Kanadadollar eða norsku krónuna, enda hafi gengi þeirra gjaldmiðla fallið meðan íslenska krónan hafi styrkst umtalsvert síðustu mánuði.
Haft er eftir Benedikt að enn ríki sundrung á Íslandi þrátt fyrir uppganginn í efnahagslífinu. Fólk hafi orðið fyrir mikilli kjaraskerðingu og Ísland hafi náð sér á strik efnahagslega en ekki félagslega. „Fólk er enn reitt og tortryggið gagnvart viðskiptum, bönkum og stjórnmálamönnum,“ segir hann.
Athugasemdir