Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði fyrir síðustu kosningar að einfalt væri að afnema verðtryggingu lána. Nú er hins vegar staðfest að ekki sé enn unnið að beinu afnámi verðtryggingar.
„Þetta er ekki flókið“
Sigmundur Davíð birti pistil á bloggsíðu sinni rúmum mánuði fyrir kosningarnar 2013 undir titlinum „Afnám og leiðrétting. Þetta er einfalt.“
Í pistlinum kvartaði Sigmundur undan efasemdaröddum um loforð Framsóknarflokksins um leiðréttingu og afnám verðtryggðra lána: „Í fjögur ár höfum við talað um mikilvægi þess að leiðrétta verðtryggð lán. Orðið afnám vísar til einhvers sem menn hætta til framtíðar á meðan leiðrétting vísar til fortíðar. Þetta er ekki flókið en það virðast ekki vera nein takmörk fyrir því hvað reynt er að snúa út úr hlutunum. Verkefnin eru tvíþætt, annars vegar afnám verðtryggingar til framtíðar, hins vegar leiðréttingin.“
Lánstími styttur
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra staðfestir í samtali við Fréttablaðið að ekki sé til skoðunar að banna verðtryggð lán. Það sem sé til skoðunar í vinnu fjármálaráðuneytisins varðandi verðtryggð lán sé annars vegar að hækka lægsta lánstíma úr fimm árum og svo að stytta hámarkslánstíma úr 40 árum niður í 25 ár. „Nei. Í hvorugu tilvikinu erum við að ræða um það,“ segir Bjarni um bann eða fullt afnám verðtryggðra lána.
Þessar tvær leiðir í breytingu á tímalengd lána eru í samræmi við skýrslu sem gerð var fyrir forsætisráðuneytið í janúar í fyrra. Þar voru aðgerðirnar lagðar til og mælst til þess að þær hefðu gengið í gegn „eigi síðar en 1. janúar 2015“. Nú liggur fyrir að það næst ekki, en til skoðunar er að leggja fram frumvarp næsta haust. Ljóst er að afleiðingarnar yrðu að færri munu fá greiðslumat og yngra fólk eiga erfiðara með að komast inn á fasteignamarkaðinn.
Athugasemdir