Bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins á Akureyri, stærsta byggðarkjarna kjördæmis Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fara fram á að hann segi af sér „án frekari tafa“.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bænum fara jafnframt fram á að skipt verði um forsætisráðherra. „Í ljósi aðstæðna er trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar brostinn og getur hún því ekki starfað áfram undir forystu núverandi forsætisráðherra,“ segir í yfirlýsingu sjálfstæðismanna á Akureyri.
Bjarni ræðir um „ráðstafanir“
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við sjónvarpsfréttir RÚV að Sigmundur væri „í þröngri stöðu“: „Það er auðvitað alltaf óheppilegt þegar menn þurfa að bæta í skýringar eftir að máli vindur fram,“ sagði Bjarni.
Hann neitaði aðspurður að lýsa yfir stuðningi við Sigmund og nefndi sérstaklega að hægt væri að grípa til „ráðstafana“.
„... hvort ríkisstjórnin treystir sér til þess að halda áfram, eftir atvikum eftir einhverjar ráðstafanir.“
„Svona spurningum ætla ég ekkert að svara vegna þess að þannig gerast nú ekki hlutirnir þar sem ég er í samstarfi, að menn fái stuðningsyfirlýsingar eða vantraustsyfirlýsingar í fjölmiðlum. Við þurfum einfaldlega að vinna þetta eins og almennilegt fólk, setjast niður yfir stöðuna og meta það hvort við teljum okkur hafa nægilegan stuðning til þess að sinna þeim verkefnum sem okkur voru falin og sett á dagskrá. Hvað er til bragðs að taka, hvort ríkisstjórnin treystir sér til þess að halda áfram, eftir atvikum eftir einhverjar ráðstafanir.“
Ræðir við Sigmund á morgun
Þrátt fyrir orð Bjarna um að hann lýsi ekki yfir stuðningi eða vantrausti í fjölmiðlum lýsti hann yfir stuðningi við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í ágúst 2014 þegar krafist var afsagnar hennar vegna lekamálsins.
Bjarni kemur frá Flórída á morgun, en hann missti af flugi. Hann hefur, samkvæmt fréttum RÚV, átt samtöl við samflokksmenn sína í dag. Hann er væntanlegur til landsins á morgun og segist munu ræða við Sigmund í kjölfarið.
Ríkisstjórnarfundur, sem átti að fara fram í fyrramálið, hefur verið afboðaður, sem og þingfundir.
„Í dag er mér misboðið“
Sigmundur Davíð, sem býr í Reykjavík, er þingmaður norðausturkjördæmis, en hann flutti lögheimili sitt á sveitabæinn Hrafnabjörg í Jökulsárhlíð á Fljótsdalshéraði.
Yfirlýsing framsóknarmanna á Akureyri er afgerandi og harðorð þess efnis að Sigmundur víki strax: „Vegna þess trúnaðarbrests sem við teljum að skapast hafi milli forsætisráðherra og flokksmanna Framsóknarflokksins sem og landsmanna allra, skorum við á Sigmund Davíð Gunnlaugsson að segja sig frá störfum forsætisráðherra án frekari tafa.“
Þá segir fyrrverandi bæjarfulltrúi flokksins í bænum, Jóhannes Gunnar Bjarnason, frá því að hann ljúki stuðningi sínum við Framsóknarflokkinn nema Sigmundur segi af sér:
„Ég hef verið félagi í Framsóknarflokknum í mörg ár. Margsinnis hef ég tekið snerrur við fólk, varið bæði stefnu og forystu. Það hef ég ávallt gert með góðri samvisku og talið mig hafa góðan málstað að verja. En í dag er mér misboðið. Svo misboðið að stuðningi mínum við flokkinn er lokið ef formaður flokksins segir ekki af sér. Hann hefur unnið þrekvirki á mörgum sviðum en þessi heiftarlegi dómgreindarbrestur gagnvart aflandspeningum gerir hann óhæfan til áframhaldandi setu. Það er ekki nokkur sála ómissandi og hvort sem litið er til þjóðar eða flokks þá er niðurstaðan aðeins ein. Biðjast afsökunar og segja af sér. Það á reyndar við um aðra líka.“
Sigmundur biðst afsökunar
Sigmundur hefur í dag í fyrsta sinn beðist afsökunar á framgöngu sinni í skattaskjólsmálinu, þar sem hann hafði leynt eignarhaldi sínu og eiginkonu sinnar á félagi sem stofnað var í skattaskjóli og gerði kröfu upp á hálfan milljarð í slitabú íslensku bankanna.
Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, segir á bloggsíðu sinni að ekki sé nóg að biðjast afsökunar.
„Nú hafa þúsundir manna komið saman á Austurvelli til að mótmæla Sigmundi Davíð. Að láta eins og ekkert hafi í skorist og að nóg sé að biðjast afsökunar á misheppnaðri framgöngu í sjónvarpsþætti er mikill misskilningur.“
Sigmundur hefur verið staðinn að ósamræmi og ósannindum í frásögn sinni vegna málsins. Hann gekk út úr viðtali við sænskan rannsóknarblaðamann og Jóhannes Kr. Kristjánsson fréttamann eftir að hafa verið staðinn að ósannindum og hefur í kjölfarið gagnrýnt RÚV harðlega.
Um 15 þúsund manns komu á mótmæli gegn Sigmundi á Austurvelli í dag, sem eru þau fjölmennustu sem lögregla hefur kynnst. Fyrir mótmælin hafði Sigmundur gert lítið úr því að hann tæki mark á fjölda mótmælenda. „Það mætir nú ekki allt fólkið á Austurvöll,“ sagði hann.
Möguleikar Sigmundar greindir í slúðurdálki
Fjallað er um málið í slúðurdálknum Orðinu á götunni á Eyjunni.is. Þar er vitnað til áhrifamanna í stjórnmálum. Höfundur dálksins er ekki birtur, en Björn Ingi Hrafnsson, aðaleigandi Eyjunnar og góður vinur Sigmundar Davíðs, hefur skrifað dálkinn. Þar eru færð rök fyrir því að Sigmundur geti ekki farið frá án þess að það felli ríkisstjórnina og fleiri í íslenskum stjórnmálum:
„Orðið á götunni innan beggja stjórnarflokka er að staða formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins sé líka undir í málinu. Ef Sigmundur Davíð þarf að segja af sér, munu þau líka þurfa að axla sín skinn. Það gangi ekki gagnvart almenningi og heimspressunni að forsætisráðherra segi af sér af því að nafn hans hafi verið í Panamaskjölunum og við taki Bjarni Benediktsson sem forsætisráðherra, en nafn hans sé nú reyndar þar líka!“
Jafnframt segir í slúðurdálknum að Sigmundur geti sprengt allt í loft upp. „Einn möguleikinn enn hefur verið nefndur. Hann er sá að forsætisráðherra sprengi allt í loft upp, rjúfi hreinlega þing og boði til kosninga. Fari um landið og skýri sitt mál og ræði árangur ríkisstjórnarinnar. Segi sem svo, að vitaskuld sé þetta mál erfitt og hafi valdið sér skaða, en hann vilji leggja öll spilin á borðið, hvetji aðra til að gera slíkt sama og leggi verk sín óhræddur í dóm kjósenda.“
Sigmundur neitaði í dag að hafa íhugað afsögn.
Athugasemdir