Þingmenn stjórnarandstöðu gagnrýndu orð Óttars Proppé, heilbrigðisráðherra um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Þingmenn segja svör Óttars um tilkomu einkasjúkrahús Klíníkarinnar vera loðin og segja Óttar reyna að koma sér undan umræðunni.
Rætt var um ummæli Óttars á Alþingi þann 23. mars þegar rætt var um málefni Klíníkurinnar í óundirbúnum fyrirspurnatíma, en þá sagði Óttarr: „Það er ekki ég sem veiti starfsleyfi fyrir starfsemi eða stofum, aðstöðu sérfræðinga úti í bæ, það er embætti landlæknisins sem veitir starfsleyfi fyrir stöðinni.“
Embætti landlæknis sendi út tilkynningu þann 19. apríl vegna misskilnings sem gætir í umræðu um heilbrigðisþjónustu. Leiðréttir landlæknir bæði ummæli sem Óttarr Proppé lét falla á Alþingi og fullyrðingu sem birtist í frétt Morgunblaðsins daginn eftir. Landlæknir telur að túlkun heilbrigðisráðuneytisins á heilbrigðislögum geri það að verkum að einkarekstur og einkavæðing á sviði sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu og sjúkrahúsþjónustu geti haldið áfram að vaxa hér á landi. „Embætti landlæknis hefur ítrekað reynt að leiðrétta þann misskilning að embættið veiti leyfi til rekstrar heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu á landlæknir að staðfesta að fyrirhugaður rekstur heilbrigðisþjónustu uppfylli faglegar lágmarkskröfur,“ sagði í tilkynningunni.
„Hvar er hann nú?“
Óttarr Proppe var ekki viðstaddur þingfund og kröfðust þingmenn stjórnarandstöðunnar svara. Sigurður Ingi Jóhannsson segir ráðherrann ekki skýra nægilega vel frá málum. „Hann hefur nú komið fram í fjölmiðlum og sagt að þetta sé ekkert á hans valdi. Af hverju notaði hann ekki eitthvað af þessum fyrirspurnum sínum til að upplýsa þingið um hver staðan væri í stað þess að leiða okkur á villigötur? Hér var einu sinni tónelskur þingmaður, oft í gulum fötum, sem talaði mikið um heiðarleika í stjórnmálum, samstarf og samvinnu og minna fúsk. Hvar er hann nú?“
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir svör Óttars loðin. „Ég vil taka undir þau orð sem hér hafa komið fram og jafnframt minna á að hæstvirtur ráðherra var nú í dauðarokksveit þannig að tónelskan vakti oft kátínu, undran og óhug. En aftur á móti hefur það verið einkennandi fyrir þau orð sem komið hafa frá hæstvirtum heilbrigðisráðherra er að þau eru alltaf loðin, alltaf þannig að hæstvirtur ráðherra virðist ekki geta komið með afgerandi svör um mjög brýn mál,“ segir Birgitta og segir málið mjög alvarlegt.
Öll spjót að rokkbóndanum
„Nú standa öll spjót á rokkbóndanum Óttari Proppé heilbrigðisráðherra. Hann verður að koma hingað suður, ég hlustaði á hann á Aldrei fór ég suður og hann var ágætur þar,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna. Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, tekur undir og segir: „ Ég sé ekki betur en að ástandið sé þannig núna að hann sé á harðahlaupum undan fjölmiðlum.“
Fleiri vitna í rokkferil Óttars Proppé. Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata, segir Óttar vera ósamkvæmur sjálfum sér þegar hann staðfesti þann 23. mars að ekki yrði farið út í einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. „Nú sýnist mér og það er vont að upplifa það, ég vissi það ósköp vel að maðurinn væri í hljómsveit sem heitir HAM, en að hann gæti skipt svo auðveldlega um ham kemur mér því miður á óvart.“
Athugasemdir