Halldóra Mogensen, þingkona Pírata, gagnrýndi Björt Ólafsdóttur umhverfisráðherra harðlega á Alþingi í dag og sagði hana máttlausa og úrræðalausa gagnvart umhverfismálum. Vísaði hún sérstaklega til áforma um virkjanaframkvæmdir á miðhálendinu, en eins og Stundin greindi frá í síðustu viku hefur ráðherra lagt fram rammaáætlun þar sem gert er ráð fyrir að Skrokkalda á Suðurlandi verði færð úr biðflokki yfir í orkunýtingarflokk svo unnt verði að ráðast þar í virkjanaframkvæmdir á næstu árum. Samkvæmt greinargerð þingsályktunartillögunnar mun fylgja virkjuninni hlaðhús, spennir, 1 kílómetra skurður vestan við Sprengisandsleið og jarðstrengur.
„Háttvirtur þingmaður Björt Ólafsdóttir er kosin á Alþingi fyrir Bjarta framtíð, flokk sem í kosningabaráttunni hafði það á stefnuskrá sinni að leggja umhverfismál til grundvallar öllum ákvörðunum flokksins,“ sagði Halldóra í ræðu sinni undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag. „Nú þegar háttvirtur þingmaður hefur tekið við embætti umhverfisráðherra virðist hún hafa snúið baki við grunngildum flokksins og kosningaloforðum og tekið í stað undir áform um virkjunarframkvæmdir á miðhálendinu á kostnað umhverfisins og lífvænleika þess fyrir komandi kynslóðir.“
Lofaði að vernda miðhálendið
Í aðdraganda síðustu þingkosninga lofaði Björt Ólafsdóttir, og flokkur hennar Björt framtíð, að standa vörð um miðhálendið og beita sér gegn því að þar yrði ráðist í virkjanaframkvæmdir.
Þegar rætt var um umhverfis- og auðlindamál á RÚV þann 14. október var Björt spurð hvort flokkurinn hennar styddi hugmyndir um miðhálendisþjóðgarð.
„Við styðjum það svo sannarlega. Það er mikilvægt að við varðveitum þessi ósnortnu víðerni sem 80 prósent erlendra ferðamanna koma hingað til Íslands til að sjá. Þetta er mikil auðlind,“ svaraði hún.
„Stærðin vefst fyrir mönnum og það er alveg rétt, en það er út af því að þarna við og innan eru virkjanir sem fólk er áfjáð um að fara í og það er þar sem hnífurinn stendur í kúnni. En við í Bjartri framtíð viljum umfram allt vernda miðhálendið og hafa þjóðgarð þar.“
„Mun rýra gildi Vatnajökulsþjóðgarðs“
Nú, eftir að Björt framtíð er komin í ríkisstjórn, er áfram lagt upp með Skrokkalda á miðhálendinu verði færð í nýtingarflokk rammaáætlunar svo þar megi ráðast í virkjunarframkvæmdir.
Athugasemdir