„Mestu hætturnar sem við stöndum frammi fyrir eru kæruleysi, það að við lítum á árangurinn sem sjálfgefinn, og neikvæðni. Látum engan telja okkur trú um að Ísland sé vonlaust og hér þurfi að snúa öllu á hvolf.“
Þetta er á meðal þess sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í áramótaávarpi sínu í kvöld. Í ræðunni kom hann víða við og lagði áherslu á þann mikla árangur sem náðst hefði á Íslandi í áranna rás. Sagði hann að Íslendingar hefðu áunnið sér ímynd sem einkenndist meðal annars af því að þeir bæru harm sinn í hljóði. Svo spurði forsætisráðherra: „En eigum við skilið að halda þessari ímynd ef við ekki aðeins börmum okkur meira yfir áskorunum en áður, heldur börmum okkur líka þegar vel gengur?“
Vitnaði hann tvívegis í írska heimspekinginn Edmund Burke sem uppi var á 18. öld og hefur oft verið kallaður faðir breskrar íhaldsstefnu.
Framúrskarandi árangur Íslands
„Árið 2015 reyndist farsælt fyrir íslensku þjóðinna. Flest hefur gengið okkur í hag undanfarin misseri og betur en víðast hvar annars staðar. Á mörgum sviðum, frá íþróttum að vísindum, stóðu fulltrúar okkar Íslendinga sig framúrskarandi vel á liðnu ári,“ sagði Sigmundur og bætti við:
„Hagsæld jókst til mikilla muna á árinu. Kaupmáttur -það sem landsmenn fá fyrir launin sín- hefur nú aukist um 13 prósent á 30 mánuðum. Fáheyrt, nánast óþekkt, er að hagur fólks vænkist það hratt. Enn merkilegra er að á tímum mikils hagvaxtar hefur jöfnuður áfram aukist. Þannig hafa laun verkafólks hækkað hlutfallslega meira en laun stjórnenda, laun kvenna hækkað hlutfallslega meira en laun karla og kaupmáttur lífeyrisgreiðslna og bóta aukist meira en kaupmáttur launa á tímabilinu.“
Sagði hann að vel hefði tekist til með stór mál. „Stutt er síðan skuldavandi stóð efnahagslegri framtíð landsins fyrir þrifum en nú hefur skuldahlutfall heimilanna lækkað það mikið og hratt að skuldir íslenskra heimila eru orðnar hlutfallslega lægri en í mörgum nágrannalöndum okkar.“
Forsætisráðherra vísaði sérstaklega til þess í ræðu sinni að ákveðnir menn segðu að „fyrst ekki sé búið að ná fullkomnun sé betra að gera enn eina tilraun með einhverja hugmyndafræði sem lofar fullkomnu samfélagi“, en slíkt hefði hins vegar alltaf endað illa. Ekki kom fram hvort Sigmundur væri að vísa til afla á Íslandi.
„Gæfurík þjóð í góðu landi“
Sigmundur lagði áherslu á mikilvægi þess að íslensk þjóð viðurkenndi árangurinn sem náðst hefði. Þannig gæti árangur fortíðar orðið hvatning til frekari afreka í framtíðinni.
„En erum við að nýta þá hvatningu sem felst í árangrinum, og kunnum við að meta lífsgæði okkar hér á Íslandi og það hvað við erum lánsöm í samanburði við aðrar þjóðir? Okkur Íslendingum hefur í gegnum tíðina líkað ágætlega við þá ímynd sem þjóðin hefur áunnið sér. Við höfum verið þekkt fyrir dugnað, þrautseigju og þolgæði. Íslendingar hafa verið taldir úrræðagóðir á raunastund, yfirvegaðir og færir um að bera harm sinn í hljóði og gefast aldrei upp. Þessi ímynd varð áreiðanlega ekki til af ástæðulausu enda er ótrúlegt hvaða árangri Íslendingar hafa náð í þessu landi við erfiðar aðstæður um aldir. En eigum við skilið að halda þessari ímynd ef við ekki aðeins börmum okkur meira yfir áskorunum en áður heldur börmum okkur líka þegar vel gengur?“
Lokaorð Sigmundar hljóðuðu svo:
„Ef okkur auðnast að fylgja þeirri leið á nýju ári getur árið 2016 orðið enn betra en árið sem nú er að ljúka. Framfarir munu þá halda þá áfram, og undantekningunum mun áfram fækka og þær sem eftir standa verða viðráðanlegri. Við erum gæfurík þjóð í góðu landi. Við höfum náð árangri með þrautseigju og skynsemi að leiðarljósi. Þótt veður séu válynd er bjart yfir landinu okkar við þessi áramót.“
Lesa má ávarpið í heild á vef forsætisráðuneytisins.
Athugasemdir