„Tillaga Bjarkar Vilhelmsdóttur um að Reykjavíkurborg sniðgangi vörur frá Ísrael „meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir“ er mjög vel heppnuð að öðru leyti en því að stjórnendur Reykjavíkurborgar virðast ekki búa yfir hugrekki og úthaldi til að fylgja samþykktinni eftir.“
Þetta skrifar Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í pistli á vefsíðu sinni. Telur hann að viðbrögð Ísraelsmanna séu ágætur mælikvarði á mikilvægi samþykktarinnar.
Ögmundur segir sniðgöngu Reykjavíkurborgar skapa mikilvægt fordæmi og þannig geta dregið dilk á eftir sér. Allt tal um að samþykktin stríði gegn alþjóðaviðskiptasamningum sé „hlálegt“ enda hljóti sveitarfélög að hafa leyfi til að marka sér innkaupastefnu á siðferðilegum forsendum. „Borgarstjóri segist vilja endurskoða afstöðu sína og hverfa frá stuðningi við tillögu Bjarkar. Ég skora á hann að endurkoða hug sinn enn,“ skrifar Ögmundur.
Samráð við palestínsk yfirvöld
Ali Abunimah, einn af stofnendum vefritsins The Electronic Intifada sem fjallar um málefni Ísraels og Palestínu, skrifaði um ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur á sunnudag og harmaði áform borgarstjóra um að draga tillögu Bjarkar Vilhelmsdóttur til baka.
Abunimah hefur átt í tölvupóstssamskiptum við Árna Pál Árnason, formann Samfylkingarinnar, og hefur eftir Árna að nauðsynlegt hafi verið að draga tillöguna til baka og útfæra hana betur, meðal annars í samráði við yfirvöld í Palestínu. Abunimah segir að ákvörðunin um að falla frá sniðgöngunni á ísraelskum vörum virðist hafa verið tekin eftir þrýsting frá flokksforystu Samfylkingarinnar, og að leiðtogi flokksins hafi „tjáð The Electronic Intifada að flokkurinn hefði haft samráð við palestínsk stjórnvöld um málið“.
Athugasemdir