Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, telur að útvistun einstakra eftirlitsverkefna geti verið skynsamleg, svo sem í tilvikum þar sem hreinum hlutlægum reglum er fylgt og ekki er svigrúm til huglægs mats. Útvistun löggildingar á mælitækjum til fyrirtækisins Frumherja hafi verið dæmi um slíkt.
Þetta kemur fram í svari hennar við fyrirspurn Óla Björns Kárasonar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sem spurði alla ráðherra hvort hvort þeir hefðu látið kanna möguleikann á útvistun eftirlitsverkefna til einkaaðila. Í svari ráðuneytisins er vísað sérstaklega til þess að Neytendastofa hafi útvistað þjónustu við löggildingu mælitækja, svo sem voga og eldsneytisdælna, til fyrirtækisins Frumherja.
„Ráðherra telur að útvistun einstakra eftirlitsverkefna geti verið skynsamleg í ákveðnum tilvikum en það þarf að skoða vel og leggja mat á hvert tilvik fyrir sig. Slík útvistun eftirlitsverkefna getur verið skynsamleg í þeim tilvikum þar sem um hreinar hlutlægar reglur er að ræða þar sem ekki er svigrúm til huglægs mats. Dæmi um útvistun slíkra eftirlitsverkefna er löggilding mælitækja sem er á ábyrgð Neytendastofu,“ segir í svarinu.
Athugasemdir