Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur óskað eftir og fengið aðstoð erlendis frá við rannsóknina á hvarfi Birnu Brjánsdóttur. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en hann hefur yfirumsjón með rannsókninni á hvarfi Birnu. Stundin greindi frá því í dag að lögreglan rannsakar nú málið sem sakamál. Samkvæmt heimildum Stundarinnar hafa rannsóknargögn úr bílaleigubílnum verið send erlendis til greiningar.
Grímur segist ekki geta staðfest hvort um sé að ræða lífsýni og þá ekki heldur hvort um sé að ræða gögn úr rauðum Kia Rio-bílaleigubíl eða önnur sönnunargögn sem lögreglan hefur aflað á undanförnum dögum. „Við höfum fengið aðstoð erlendis frá við að greina gögn í víðasta skilningi þess orðs.“
Þá segir Grímur að mennirnir þrír séu allir Grænlendingar og að einhverjir þeirra hafi komið áður til Íslands með þessum sama grænlenska togara, Polar Nanoq. Ekki liggur fyrir hver af þeim leigði rauðan Kia Rio hjá Bílaleigu Akureyrar og þá segir lögregla það ekki staðfest að um sé að ræða sömu rauðu bifreið og sést á öryggismyndavélum þar sem ekki hafi náðst að greina bílnúmer hennar.
Vísir fullyrti í hádeginu að gögn sem fundust við rannsókn á rauðu Kia Rio-bifreiðinni bendi til þess að misindisverk hafi verið framið í bílnum. Grímur gat ekki staðfest það í samtali við Vísi. Lögreglan lagði hald á bílinn í Hlíðasmára í Kópavogi á þriðjudag og herma heimildir að skipverji á grænlenska togaranum hafi verið með bílinn, sem er bílaleigubíll frá Bílaleigu Akureyrar, á leigu á laugardagskvöld.
Tveir skipverjar á grænlenska togaranum Polar Nanoq hafa nú verið úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness vegna hvarfs Birnu Brjánsdóttur, en hennar hefur verið leitað frá því á laugardag. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór fram á fjögurra vikna gæsluvarðhand á grundvelli rannsóknarhagsmuna og verður úrskurður héraðsdóms kærður til Hæstaréttar. Mennirnir neita báðir sök.
Yfirheyrslur hófust yfir þriðja manninum í morgun, þeim sem var handtekinn í gærkvöldi, en ekki liggur fyrir hvort óskað verði eftir gæsluvarðhaldi yfir honum. Sú ákvörðun þarf að liggja fyrir einhvern tímann á milli kl. 19 og 20 í kvöld.
Athugasemdir