Karl Wernersson, sem var stærsti hluthafi Milestone og tryggingafélagsins Sjóvar á árunum fyrir hrunið 2008, stofnaði fyrirtæki í skattaskjólinu Seychelles-eyjum í gegnum lögmannsstofuna Mossack Fonseca í Panama til að halda utan um hlut sinn í fyrirtækjum á Íslandi. Þetta kemur fram í gögnum úr Panamalekanum svokallaða þar sem fram koma upplýsingar um viðskiptavini lögmannsstofunnar. Fyrirtækið var stofnað í ársbyrjun 2006. Karli Wernerssyni var veitt umboð til að stýra félaginu, sem þá kallaðist Dialog Holding Ltd. í janúar árið 2006 en nafni þess var svo breytt í Leiftra ltd. Leiftri ltd. var svo aftur í eigu félags á Tortóla sem hét Valservice ltd. samkvæmt gögnunum.
Viðskipti Leifta ltd. fóru í gegnum Glitni banka í Lúxemborg en Karl var einn stærsti hluthafi bankans á árunum fyrir hrunið og sat meðal annars í stjórn hans þar til um vorið 2007. Í lekanum er meðal annars að finna skjöl frá Glitni banka í Lúxemborg sem var viðskiptabanki félagsins.
Stundin birtir á næstum vikum fréttir upp úr Panamagögnunum í samstarfi við Reykjavík Media ehf. sem aftur á í samstarfi við þýska blaðið Süddeutsche Zeitung og alþjóðlegu blaðamannasamtökin ICIJ. Fyrstu upplýsingarnar sem urðu opinberar úr Panamaleikanum í síðasta mánuði voru þau tíðindi að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, hefði átt félagið Wintris Inc. sem skráð er á Bresku Jómfrúareyjum. Sigmundur Davíð sagði af sér eftir þá opinberun og umræðuna sem fylgdi í kjölfarið.
Tók við mörg hundruð milljóna króna arði
Leiftri var stærsti hluthafi Milestone fyrir hrunið 2008 með 32 prósenta hlut. Milestone tók meðal annars við tæplega 20 milljörðum króna frá tryggingarfélaginu Sjóvá á árunum fyrir hrunið 2008 og var rösklega einn milljarður króna greiddur út til hluthafa Milestone, meðal annars Leiftra.
Milestone greiddi meðal annars út tæplega 500 milljóna króna arð til hluthafa sinna eftir hrunið 2008 þegar eiginfjárstaða fjárfestingarfélagsins - eignir mínus skuldir - var neikvæð um rúma 80 milljarða króna. Leiftri tók því á móti nokkur hundruð milljóna króna arði frá Milestone á tímabilinu fyrir hrunið og eftir það; arði sem meðal annars byggði á arðgreiðslum sem Milestone hafði tekið við frá Sjóvá.
Eins og komið hefur fram þurfti íslenska ríkið að leggja Sjóvá til um 11,6 milljarða króna á vormánuðum 2009 til að bjarga tryggingarfélaginu frá gjaldþroti en slíkt þrot hefði haft í för með sér tilheyrandi tap fyrir viðskiptavini þess. Ástæðan fyrir tapi Sjóvár voru meðal annars lán til Milestone og eignarhaldsfélagsins Vafnings, sem síðar var nefndur Földungur, upp á um 20 milljarða króna. Sjóvá var svo selt til fjárfesta árið 2011 og er nú skráð á markað en íslenska ríkið á ennþá hlut í gegnum Seðlabanka Íslands. Áætlað tap ríkisins vegna björgunar Sjóvár er um fjórir milljarðar króna.
Starfsemi Leiftra ltd. á Seychelles-eyjum tengist því bæði beint og óbeint harmsögu Sjóvár sem endaði nánast í gjaldþroti vegna reksturs Milestone á félaginu.
„Ég held að þeir fjármunir sem voru inni í Leiftra hafi tapast í hruninu“
Karl segir allt hafa tapast
Karl Wernersson segir aðspurður að eignir Leiftra ltd. hafi tapast að mestu í hruninu. „Ég á ekki Leiftra lengur. [...] Ég held að þeir fjármunir sem voru inni í Leiftra hafi tapast í hruninu. Stærsta eign Leiftra á þessum tíma var hlutafé í Milestone og þegar það tapaðist þá var held ég ekkert eftir.“
Karl segir að hann minnist þess ekki að hafa tekið neinn arð út úr Leiftra ltd. „Arðgreiðslur eða svoleiðis út úr Leiftra? Ekki svo ég muni eftir nei.“ Hann segir að viðskipti félagsins við Milestone hafi að mestu leyti, eftir því sem hann man rétt, verið jöfnun á kröfum milli Leiftra og Milestone og því hafi peningar ekki farið þarna á milli.
Miðað við þessi orð Karls tók hann enga fjármuni út úr Leiftra ltd. en í gögnunum um félagið frá Mossack Fonseca er ekkert yfirlit yfir fjárstreymi til og frá félaginu sem annað hvort getur sannað orð Karls eða sýnt fram á hið gagnstæða.
„Svo verður hrunið og við lendum í miklum erfiðleikum“
Leiftri fékk 2,7 milljarða frá Milestone sem aldrei voru endurgreiddir
Leiftri ltd. stundaði líka ýmis konar lánaviðskipti á árunum fyrir hrunið og tók meðal annars við 2,7 milljarða króna láni frá Tortólafélaginu Milestone Import Export ltd. Það Tortólafélag hafði fengið fjármunina lánaða frá Milestone á Íslandi. Milestone fékk lánið aldrei frá Milestone Import Export þar sem Leiftri ltd. greiddi það aldrei til baka.
Karl Wernersson tjáði sig um þetta lán fyrir dómi árið 2014, í málaferlum sérstaks saksóknara gegn honum. Þá sagði Karl að markmiðið hefði verið að Leiftri myndi endurgreiða lánið með arðgreiðslu frá Milestone. „Milestone átti í miklum viðskiptum þarna árið 2007 og 2008. Þarna í lok árs 2007 eru íslenskar eignir Milestone fluttar út í sænskt fjármálafyrirtæki. Svo átti að skrá það félag á markað árið 2008, greiða út arð það sama ár, meðal annars til Leiftra sem þá myndi borga skuld sína við MIE sem aftur myndi greiða skuld sína vð Milestone […] Svo verður hrunið og við lendum í miklum erfiðleikum. Allt fer í uppnám hjá Milestone, allar íslenskar eignir urðu einskis virði og félagið fór illa út úr því. Til voru íslenskar eignir metnar á núll í Svíþjóð og við lentum í miklum erfiðleikum með sænska fjármálaeftirlitið.” Lánið sem Leiftri ltd. fékk var því aldrei endurgreitt.
Leiftri hjálpaði Karli að halda Lyfjum og heilsu
Árið 2011 afskrifaði Leiftri svo skuld Aurláka ehf., móðurfélags Lyfja og heilsu á Íslandi, upp á einn milljarð króna. Leiftri hafði veitt Aurláka lánið til að kaupa Lyf og heilsa af dótturfélagi Milestone í aðdraganda hrunsins árið 2008. Kaupverðið var þrír milljarðar króna og var það greitt með yfirtöku skulda og umræddu láni frá Leiftra ltd. Karl Wernersson er eigandi Lyfja og heilsu í dag og er það eina fyrirtækið sem hann hélt eftir hrunið árið 2008.
Athygli vekur að áður en Leiftri ltd. afskrifaði skuld Aurláka skipti Leiftri ltd. um hendur og fékk nýjan eiganda, eins og DV rakti í október 2013. Þá eignaðist maður að nafni Friðrik Arnar Björnsson, æskuvinur Karls, félagið á Seychelles og var það því hans ákvörðun formlega - ekki Karls - að afskrifa kröfuna á hendur Aurláka.
Karl sagði í viðtali við DV árið 2013 að honum hafi verið ráðlagt að vera ekki sjálfur eigandi Leiftra ltd. þegar skuldin væri afskrifuð og því hafi hann fengið „Frikka“ til að eignast félagið áður en skuldin var afskrifuð. „Mér var ráðlagt að það væri betra að það væru svokölluð „arms length“ viðskipti þegar gefið væri grænt ljós á þetta: Þannig að þetta væri ekki bara sami maðurinn allan hringinn. Þannig að þá var þetta niðurstaðan. Hans samningur er þannig að hann getur haft af þessu dálítinn fjárhagslegan ávinning og eignast, eftir ákveðinn tíma, hlut í félaginu. […] Já, mér fannst þetta betra svona.“
Leiftri afskráður
Eftir viðskipti Leiftra og Aurláka var félagið afskráð samkvæmt gögnunum frá Mossack Fonseca úr Panamalekanum. Þá var félagið meðal annars búið að taka við arðgreiðslum frá Milestone, láni frá Milestone upp á nærri þrjá milljarða auk þess sem félagið var búið að afskrifa kröfu upp á milljarð á fyrirtæki, Aurláka ehf., í eigu Karls Wernerssonar sem á og rekur Lyf og heilsu.
Tekið skal fram að Aurláki ehf. var dæmdur til endurgreiða þrotabúi Milestone tæpan milljarð króna vegna viðskiptanna í byrjun árs 2015 þannig að fjármunirnir gætu komið aftur inn í Milestone. Aurláki áfrýjaði þeirri niðurstöðu hins vegar og verður málið tekið fyrir í Hæstarétti Íslands þann 12. maí næstkomandi. Aurláki ehf. gæti því þurft að greiða milljarðinn sem Leiftri ltd. afskrifaði aftur inn í þrotabú Milestone.
Í síðasta skjalinu um Leiftra ltd. frá Mossack Fonseca kemur fram að á fundi stjórnenda félagsins hafi verið ákveðið að þeir hættu störfum fyrir félagið. Í bréfi frá Mossack Fonseca til hlutafélagaskrárinnar á Seychelles-eyjum var sömuleiðis beðið um það í febrúar 2012 að Leiftri ltd. yrði afskráður. Þetta var einungis þremur mánuðum eftir að æskuvinur Karls eignaðist Leiftra ltd. sem svo afskrifaði kröfuna á hendur Aurláka ehf. út af kaupunum á Lyf og heilsu.
Engar frekari upplýsingar eru til um félagið í Panamaskjölunum eftir eftir þetta.
Athugasemdir