Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, er studdur í skopmynd, leiðara og staksteinum blaðsins í dag vegna forsetakosninganna sem fara fram á morgun, og ítrekuð er gagnrýni á vinsælasta mótframbjóðanda hans, Guðna Th. Jóhannesson.
Leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir það áhyggjuefni ef innihaldslaus skilaboð almannatengla séu farin að vega þungt í kosningum og jafnvel skyggja á það sem frambjóðendur standa fyrir í raun. Höfundur vitnar í grein Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur héraðsdómslögmanns í Viðskiptablaðinu en hún segir að svo virðist sem flestir forsetaframbjóðendur hafi látið almannatengla ráða boðskap sínum. „Tveir frambjóðendur skera sig að nokkru leyti frá fyrrgreindum hópi; annars vegar Sturla Jónsson og hins vegar Davíð Oddsson,“ skrifar hún, en bætir við að Sturla telji meðal annars að forseti eigi að skipa ráðherra og leggja fram frumvörp til laga og því megi ráðgera að hæfilega skynsamlegt fólk kjósi ekki Sturlu.
„Síðargreindi frambjóðandinn, Davíð Oddsson, býr vel að því að flestir þekkja hans sýn á stjórnskipan landsins og hvernig auka megi farsæld þeirra sem hér búa. Hann hefur verið staðfastur í þessari sýn um árabil og kjósendur mega vita að hverju þeir ganga verði hann forseti. Davíð hefur því blessunarlega ekki notað froðu almannatenglanna. Í ljósi valds forseta er það áhyggjuefni að stór hluti kjósenda virðist, samkvæmt skoðanakönnunum, gleypa alsælufroðuna. Sigurvegarar kosninganna verða því hugsanlega almannatenglar.“
Leiðarahöfundi Morgunblaðsins, fjölmiðlinum sem Davíð Oddsson ritstýrir, segir þetta umhugsunarverð sjónarmið. „Í kosningum þykir innihaldið yfirleitt skipta máli og í þeim ríkjum sem við berum okkur saman við skiptir það verulegu máli í kosningum um forseta. Annað sem jafnan vegur þungt er reynsla frambjóðenda, hvað þeir hafa þurft að takast á við í störfum sínum í gegnum tíðina og hvort þeir hafa sýnt að þeir hafi burði til að takast á við mikla ábyrgð,“ segir í leiðara Morgunblaðsins.
Skopmynd sýnir Davíð sigra
Nafnlausi slúðurdálkurinn Staksteinar ber í dag fyrirsögnina „Afvegaleiddi forsetinn í Icesave?“ og fjallar um skrif Guðna Th. Jóhannessonar, sagnfræðings og forsetaframbjóðanda, um Ólaf Ragnar Grímsson og Icesave-málið. Þar á hann meðal annars að hafa haldið því fram að málflutningur Ólafs vegna Icesave hafi á stundum verið „afvegaleiðandi“. „Hvers vegna hefur Guðni lagt sig fram, bæði gagnvart íslenskum og erlendum lesendum, að gera hlut forseta Íslands í Icesave-málinu sem minnstan? Ólafur Ragnar barðist fyrir hagsmunum þjóðarinar, ólíkt Guðna sem lagðist á árar með vinstri stjórninni. Er það slæm samviska sem veldur því að sagnfræðingurinn hefur eftirá reynt að draga úr því sem vel var gert í Icesave-baráttunni? Hann hefur í það minnsta ekki enn getað útskýrt hvers vegna hann hefur gengið fram með þeim hætti sem raun ber vitni í Icesave-málinu og eftirleik þess,“ segir í Staksteinum dagsins.
„Ólafur Ragnar barðist fyrir hagsmunum þjóðarinar, ólíkt Guðna“
Skopmynd Morgunblaðsins í dag sýnir íþróttafréttamanninn Guðmund Benediktsson lýsa lokasprettinum í kosningabaráttunni og ber Davíð Oddsson þar sigur úr býtum á lokametrunum. Davíð er með myndinni líkt við íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu sem náði eftirminnilega að tryggja sér sigur á lokamínútu leiksins á móti Austurríki á miðvikudag.
Nafnlaus skrif Morgunblaðsins bergmála áherslur Davíðs
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Morgunblaðið rifjar upp gömul ummæli Guðna Th. í nafnlausum dálka- og leiðaraskrifum. Í byrjun júní var Morgunblaðinu frídreift á heimili landsmanna og ítrekað greint frá því að Guðni hafi notað orðalagið „fávís lýðurinn“ í fyrirlestri um Þorskastríðin árið 2013 í Háskólanum á Bifröst. Skrifin ríma vel við áherslur ritstjórans í kosningabaráttunni en hann hefur ítrekað notað þessi tvö atriði, ummælin um „fávísa lýðinn“ og afstöðu Guðna til Icesave málsins, til að koma á höggi á Guðna. Í kappræðum á Stöð 2 í gær sagði Davíð meðal annars það vera slæmt að ekki mætti ræða að einn frambjóðandinn, og átti þar við Guðna Th, hefði hvatt þjóðina til að samþykkja Svavars-samninginn svokallaða og að sami frambjóðandi, Guðni Th. hefði talað um kjósendur sem fávísan lýð. „Ef ég hefði sagt það þá hefðu báðar fréttastöðvarnar mætt heim til mín og spurt hvenær ég myndi hætta í framboði,“ sagði Davíð meðal annars.
Ritstjórinn í sumarleyfi
Davíð Oddsson er í sumarleyfi frá starfi sínu sem ritstjóri Morgunblaðsins í baráttu sinni fyrir forsetakosningarnar en hyggst snúa strax aftur, verði hann ekki kjörinn forseti á morgun.
Náin tengsl eru milli framboðs Davíðs og útgáfufélags Morgunblaðsins. Í kosningateymi eru blaðamaður Morgunblaðsins, Laufey Rún Ketilsdóttir, og stjórnarmaður í útgáfufélaginu Árvakri, Friðbjörn Orri Ketilsson. Laufey safnaði meðal annars undirskriftum fyrir framboð Davíðs á ritstjórnarskrifstofum blaðsins.
Aðrir áhrifamenn tengjast framboði Davíðs. Ari Edwald, fyrrverandi forstjóri 365 miðla, og athafna- og sjálfstæðismaðurinn Eyþór Arnalds, sitja báðir í stjórn félags sem heldur utan um framboð Davíðs. Þá er Erla Gunnlaugsdóttir, fjölmiðlafulltrúi framboðsins, dóttir fulltrúa eins helsta eiganda Árvakurs, Gunnlaugs Sævars Gunnlaugssonar, stjórnarformanns Ísfélags Vestmannaeyja.
Athugasemdir