Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, mun ekki fara með málefni Seðlabankans í nýrri ríkisstjórn þrátt fyrir að gegna embætti fjármála- og efnahagsráðherra. Samkvæmt forsetaúrskurði sem kveðinn var upp í dag færast málefni Seðlabanka Íslands frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og yfir til forsætisráðuneytisins. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar mun því áfram hafa þau málefni á sinni könnu.
Í kosningabaráttu sinni lagði Viðreisn mikla áherslu á mynt- og peningamál og annað sem varðar Seðlabankann með beinum hætti. Samkvæmt forsetaúrskurðinum virðist ný ríkisstjórn hafa komið sér saman um að Sjálfstæðisflokkurinn fari með þann málaflokk en ekki Viðreisn.
Í efnahagsstefnu Viðreisnar er boðað að stofnað verði myntráð og horfið frá núverandi peningastefnu. „Tekið verði upp myntráð í stað núverandi peningastefnu, hliðstætt því sem tíðkast í fjölmörgum smærri ríkjum. Upptaka myntráðs mun skapa varanlegan gengisstöðugleika, draga verulega úr vaxtamun við útlönd og skapa forsendur langvarandi verðstöðugleika, til hagsbóta fyrir almenning jafnt sem atvinnulíf,“ segir í stefnunni.
Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er engu slegið föstu um stofnun myntráðs en fyrirheit gefin um að forsendur peninga- og gjaldmiðilsstefnu Íslands verði endurmetnar og málið sett í nefnd. „Ráðherranefnd mun hafa samráð við þingflokka og starfa náið með Seðlabanka Íslands, aðilum vinnumarkaðarins og utanaðkomandi sérfræðingum, eftir atvikum á vettvangi Þjóðhagsráðs. Byggt verður á niðurstöðum skýrslu Seðlabanka Íslands frá árinu 2012 um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum. Þar var meðal annars lagt mat á framkvæmd verðbólgumarkmiðs, myntráð, fastgengisstefnu og ýmsa aðra kosti. Niðurstöður vinnunnar liggi fyrir á fyrsta starfsári,“ segir í stjórnarsáttmálanum.
Athugasemdir