Alltof mikil umræða er um kynferðisbrot á Íslandi, að mati lögmannsins Vilhjálms H. Vilhjálmssonar. Vilhjálmur var einn af viðmælendum í þættinum Hæpið á RÚV í gærkvöldi, þar sem fjallað var um kynfrelsi og kynferðisbrot. Hann telur að þeir sem séu ósammála Stígamótum verði fyrir „úthrópun“.
„Ég held að réttarkerfið á Íslandi í kynferðisbrotamálum, að það virki mjög vel. Sérstaklega fyrir brotaþola. Það er mikil og opin umræða um kynferðisbrotamál á Íslandi. Og raunar alltof mikil á köflum, að mínu mati. Það er að segja að maður opnar varla fjölmiðil á Íslandi í dag án þess að það sé verið að ræða kynferðisbrot sem eiga að hafa átt sér stað. Og vandamálið við umræðuna er að mínu mati það að það eru þarna ákveðnir hópar sem telja sig vera eigendur þessarar umræðu, og ef það sem sagt er er ekki algerlega í samræmi við þá stefnu sem þessir hópar hafa, svo sem Stígamót, þá eru þeir sem leyfa sér að vera á öndverðri skoðun oft á tíðum úthrópaðir karlrembur eða stuðningsmenn kynferðisbrota, eða eitthvað þaðan af verra, og það tel ég afskaplega slæmt.“
Lögmaður kærðra í kynferðisbrotamálum
Vilhjálmur hefur meðal annars verið verjandi manna sem kærðir hafa verið fyrir kynferðisbrot. Um miðjan október féll dómur í máli þar sem hann varði mann sem dæmdur var til fjögurra ára fangelsisvistar fyrir að beita konu ólögmætri nauðung vegna aðstöðumunar og nýtt sér andlega og líkamlega yfirburði til að eiga kynferðismök við hana. Þá varði hann mann sem dæmdur var fyrir tvö kynferðisbrot gegn 14 ára stúlku, en dómur féll í Hæstarétti í byrjun mánaðar.
Vilhjálmur hefur einnig sérhæft sig í meiðyrðamálum og meðal annars varað meinta brotaþola við því að tjá sig um meinta gerendur opinberlega með tilkynningum um málsókn. Hann sendi meðal annars málshöfðunarhótun á Akureyri vikublað í byrjun árs, vegna frásagnar ungrar konu af meintum kynferðisbrotum í Grímsey.
Brynhildur Yrsa Guðmundsdóttir, sem hefur greint frá kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fyrir tveimur áratugum, er ein þeirra sem gagnrýna viðhorf Vilhjálms á Facebook.
„Ég snarlega hætti að borða og fékk sting í magann. Sérlega fyrir hönd þeirra sem hafa lent í því að réttarkerfið hafnaði þeim. Og að láta út úr sér að það hafi verið of mikið af umræðunni fær mig til að vilja auka enn meira á hana,“ skrifaði hún.
Önnur, sem stefndi manni fyrir tælingu, segist hafa hlegið. „Það að hann hafi sagt að kerfið virkar vel fyrir brotaþola fékk mig til þess að hlæja. Af hverju? Jú, því hann er lögfræðingur [fyrir] þann [sem] ég stefndi fyrir tælingu.“
Aðeins tíunda hvert tilfelli leiðir til dóms
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Hildar Fjólu Antonsdóttur og Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur sem unnin var fyrir EDDU, Center of Excellence, á einkennum og meðferð nauðgunarmála innan réttarkerfisins árin 2008 og 2009 nást sakfellingar í algerum minnihluta kærðra kynferðisbrota. Af 189 tilkynningum og kærum sem bárust lögreglunni stóðu eftir 23 mál þar sem sakfelling fékkst. Það jafngildir því að í rétt rúmlega tíunda hvert atvik, sem meintur brotaþoli lítur á sem kynferðisbrot gegn sér, upplifir meintur brotaþoli réttlæti að eigin mati. 12,2% slíkra lauk með sakfellingu geranda.
Í flestum tilfellum voru málin felld niður hjá ríkissaksóknara, eða 57 mál af 189. Þá var rannnsókn hætt af lögreglu í 31 máli. Ákæra var gefin út í 31 tifelli. Í minnihluta mála sem rötuðu fyrir dóm var meintur gerandi sýknaður, eða í 8 tilfellum af 31.
Athugasemdir