Katrín Jakobsdóttir mælist með langmestan stuðning í embætti forseta Íslands í umfangsmikilli skoðanakönnun Stundarinnar, sem framkvæmd var af MMR.
37,5% svarenda sögðust telja að Katrín kæmi til greina sem næsti forseti Íslands. Þá sögðust 23% svarenda vera líklegastir til að kjósa hana. Katrín segir frá sýn sinni á forsetaembættið í viðtali við Stundina sem kemur út í prentútgáfu í dag. Þar kemur fram að hún telur að forseti eigi að leggja áherslu á umhverfisvernd, mannréttindi, menningu og lýðræði.
Katrín hafði ekki ætlað sér að fara í forsetaframboð, en nú hefur staðan breyst. „Núna velti ég þessu fyrir mér af því að ég hef verið að fá áskoranir,“ segir hún.
Aðrir sem mælast með mikinn stuðning eru Davíð Oddsson, Stefán Jón Hafstein, Salvör Nordal, Ólafur Jóhann Ólafsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Andri Snær Magnason, öll með 7-8% stuðning þegar spurt var hvaða einn aðila aðspurðir myndu líklegast kjósa sem forseta.
Í umfangsmikilli umfjöllun Stundarinnar um 27 möguleg forsetaefni kemur meðal annars fram að 23% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins vilja Davíð Oddsson sem forseta.
Könnun stóð yfir dagana 23. febrúar til 1. mars. Yfir 900 manns tóku þátt í könnuninni. Spurningarnar voru tvær:
1. „Hverjir af eftirtöldum einstaklingum koma að þínu mati til greina sem næsti forseti Íslands?“
2. „Hvern eftirfarandi einstaklinga værir þú líklegust/líklegastur til að kjósa í forsetakosningum?“
Umfjöllun Stundarinnar um forsetakosningarnar má lesa hér.
Athugasemdir