Félag í eigu Önnu S. Pálsdóttur, eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, lýsti 174 milljóna króna kröfu í bú Landsbanka Íslands í lok október 2009. Félagið heitir Wintris Inc. og steig Anna S. fram á Facebook-síðu sinni í gær og tjáði sig opinberlega um þetta félag sem heldur utan um eignir sem hún fékk frá foreldrum sínum sem fyrirframgreiddan arf. Anna sagði þá að félagið væri skráð „erlendis“ en tilgreindi ekki hvar. Arfurinn sem um ræddi nam rúmum milljarði króna en faðir Önnur Sigurlaugar er Páll Samúelsson, fyrrverandi eigandi Toyota-umboðsins á Íslandi.
Í Facebook-færslu sinni segir Anna Sigurlaug að félagið sé skráð „erlendis“ en Wintris Inc. er með heimilisfesti á Bresku Jómfrúareyjum, samkvæmt Jóhannesi Þór Skúlasyni aðstoðarmanni Sigmundar Davíðs. „Þetta gerist upphaflega þannig að þegar hún selur hlut sinn í fjölskyldyfyrirtækinu 2008 þá fer hún til Landsbankans og spyr þá ráða og þeir ráðleggja henni að gera þetta svona. Þau bjuggu erlendis á þessum tíma og höfðu ekki nein plön að flytja til Íslands. Eins og við vitum þá áttu bankarnir fullt af svona lagerfyrirtækjum sem þeir höfðu stofnað og þeir sögðu: Ja, hér er ágætis félag og er þettta ekki bara gott? Og þetta hefur verið svona síðan. Það sem er mikilvægt í þessu er að þrátt fyrir að þetta sé skráð þarna - og það vakna upp alls kyns gamlar minningar tengt því og líka minningar sem eru ekki svo gamlar - þá hafa allir skattar verið greiddir af þessu á Íslandi og í samræmi við íslensk lög frá byrjun árs 2008.“
Athugasemdir