Ragnar H. Ragnarsson, rannsóknarlögreglumaður hjá tölvurannsókna- og rafeindadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, spurðist fyrir um þjónustu ítalska fyrirtækisins Hacking Team árið 2011. Fyrirtækið selur stjórnvöldum um allan heim umdeilda tækni sem gerir þeim kleift að njósna um samskipti fólks í gegnum snjallsíma og tölvur. Wikileaks afhjúpaði fjölda tölvupósta frá fyrirtækinu í dag og kemur Ísland þar fyrir.
Sjá má að fyrirtækið vildi kynna íslensku lögreglunni þjónustu sína og sýndi Ragnar tæknilausnum Hacking Team áhuga. Vildi hann sérstaklega vita hvort hugbúnaður fyrirtækisins næði til VOIP-samskipta á símum. Svo langt er tæknin ekki komin, svarar starfsmaður Hacking Team og virðist samskiptunum þá ljúka. Ragnar hefur ekki viljað tjá sig við fjölmiðla, en Grapevine greindi fyrst frá málinu í dag. Hér má sjá samskipti lögreglumannsins og starfsmanns Hacking Team.
Athugasemdir