Illugi Gunnarsson svarar ekki nánar um hagsmunatengsl sín við Orku Energy. Hann segist ekki hafa neitt meira til að upplýsa, en svarar ekki um greiðslu frá Orku Energy til einkahlutafélags síns.
Stundin hefur undanfarið fjallað um hagsmunatengsl Illuga við Orku Energy, en Illugi svarar ekki spurningum Stundarinnar. Hann hefur hins vegar undanfarið svarað öðrum fjölmiðlum.
„Hvað OG Capital varðar, þá fékk ég engin laun eða arð frá því félagi, hvorki fyrr né síðar, sem áttu uppruna sinn hjá Orku Energy,“ segir Illugi Gunnarsson í svari sínu til Íslands í dag sem Vísir birtir frétt um í dag. Með þessu svari bregst Illugi við frétt Stundarinnar frá því í fyrradag um að einkahlutafélag hans, OG Capital, hafi fengið greiddar 1,2 milljónir króna frá orkufyrirtækinu Orku Energy árið 2012. Illugi svarar því hins vegar ekki hvort OG Capital fékk þessa greiðslu frá fyrirtækinu. Hann svarar aðeins því að hann persónulega hafi ekki fengið greidd laun út úr OG Capital sem komu Orku Energy.
„Þetta eru einu tekjurnar sem ég hef haft frá Orku Energy fyrr og síðar.“
Í frétt Stundarinnar í fyrradag kom heldur ekki fram að Illugi hefði tekið þessar 1,2 milljónir króna út úr fyrirtækinu í formi launa. Þvert á móti sagði að peningarnir hafi orðið eftir inni í félaginu. Með svörum sínum hefur Illugi því ekki ennþá svarað þeirri spurningu hvort OG Capital fékk þessa 1,2 milljóna króna greiðslu frá Orku Energy eða ekki. Hann neitar að svara þessu og kýs þess í stað bara að tala um eigin persónulegu tekjur. „Ég hef birt og gert grein fyrir öllum upplýsingum er varða tekjur mínar vegna ráðgjafarstarfa fyrir Orku Energy. Eins og skattskýrslur mínar og eiginkonu minnar frá árunum 2012 og 2013 sýna, er einungis um eina launagreiðslu að ræða frá Orku Energy[…] Þetta eru einu tekjurnar sem ég hef haft frá Orku Energy fyrr og síðar.“
Aldrei kom fram að þessi greiðsla upp á 1,2 milljónir hefði runnið til Illuga sjálfs í formi launa. Þar af leiðandi segja þessi svör Illuga ekkert um efni fréttarinnar um 1,2 milljóna greiðsluna, alveg eins og opinberun hans á eigin skattframtölum í fyrrakvöld sagði ekkert um þessa frétt.
Athugasemdir