Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra opinberaði skattframtal sitt og eiginkonu sinnar á Facebook-síðu sinni í gær og sagðist með því svara frétt Stundarinnar um greiðslu frá Orku Energy til einkahlutafélags hans, sem barst árið eftir að hann hóf störf á Alþingi að nýju. Skattframtalið svarar hins vegar ekki efni fréttar Stundarinnar, enda birtast greiðslur til einkahlutafélaga ekki á skattframtali einstaklinga, eins og þekkt er.
Frétt Stundarinnar í gær fjallaði um greiðslu Orku Energy til fyrirtækis hans, OG Capital ehf., árið 2012. Tilefni fréttarinnar var að greiðslan barst löngu eftir að Illugi settist á þing og svo að greiðslan virðist samræmast illa yfirlýsingum Illuga um að greiðslur til hans takmarkist við 5,6 milljóna króna launagreiðslur á meðan hann tók sér hlé frá þingstörfum.
Enn er hins vegar mörgum spurningum ósvarað, enda svarar Illugi ekki spurningum Stundarinnar um hagsmunatengsl hans við Orku Energy í þeim 16 tilfellum sem þær hafa verið sendar á hann eða aðstoðarmenn hans í tölvupósti.
Orðrétt segir í færslu Illuga: „Vegna fréttar Stundarinnar frá því í dag, sem byggð er á ónafngreindum heimildarmanni, hef ég ákveðið að stíga það skref að birta upplýsingar úr skattframtali okkar Brynhildar vegna ársins 2012 og ársins 2013.“ Illugi birtir svo skattframtal sitt fyrir þessi ár jafnvel þó það tengist efni fréttarinnar ekki beint, þar sem skattframtöl einstaklinga sýna ekki greiðslur til einkahlutafélaga í þeirra eigu. Umrædd greiðsla birtist hins vegar í ársreikningi einkahlutafélags hans, en lagaskylda er til birtingar ársreikninga.
Greiðsla til OG Capital - ekki Illuga persónulega
Í frétt Stundarinnar kemur hins vegar fram að 1,2 milljóna greiðslan frá Orku Energy hafi orðið eftir inni í OG Capital og því ekki verið greidd út sem laun til Illuga árið 2012. Illugi lét OG Capital hins vegar endurgreiða sér rúmlega 400 þúsund króna lán sem hann hafði veitt því. Þá greiddi OG Capital tekjuskatt sem tekjunum sem félagið fékk eins og segir í ársreikningi þess: „Reiknaður tekjuskattur til greiðslu á árinu 2013 vegna rekstrarársins 2012 nemur kr. 104.335.“
Þar af leiðandi er strax ljóst að í fréttinni er ekki fjallað um launagreiðslur til Illuga persónulega árið 2012. Fréttin fjallar hins vegar um greiðslur Orku Energy til ráðgjafarfyrirtækis Illuga árið 2012 vegna vinnu sem hann vann í gegnum eignarhaldsfélagið fyrir Orku Energy. Með öðrum orðum: Illugi tók þessa greiðslu ekki út úr eignarhaldsfélagi sínu sem laun árið 2012. Þar af leiðandi er ekkert um greiðsluna á hans persónulega skattframtali en greiðslan kemur fram í ársreikningi OG Capital.
„Skattframtöl okkar eru unnin af löggiltum endurskoðanda.“
Skattframtöl málinu óviðkomandi
Allt sem á eftir flýtur í færslu Illuga er því einnig málinu óviðkomandi og skattframtöl hans sjálfs hafa ekkert með frétt Stundarinnar að gera. Engu að síður kýs Illugi að færa umræðuna yfir á skattframtöl sín: „Skattframtöl okkar eru unnin af löggiltum endurskoðanda. Þar koma launagreiðslur til okkar hjóna fram og þar sést að árið 2012 fæ ég laun frá Orku Energy upp á kr. 5.621.179 eins og ég hafði áður greint frá og sýnt launaseðil fyrir. Engar launagreiðslur, arðgreiðslur eða aðrar greiðslur eru til mín eða konu minnar frá fyrirtækinu OG Capital á árinu 2012 eða á árinu 2013. Á árinu 2013 fór félagið úr minni eigu.“
„Þetta er eina greiðslan sem ég hef fengið frá þessu fyrirtæki“
Orka Energy greiddi meira vegna vinnu Illuga
Skattframtal Illuga fyrir árið 2012 sýndi fram á 5,6 milljóna launagreiðsluna til hans Orku Energy sem fjallað hefur verið um og að sú greiðsla hafi borist honum 2012 og verið á skattframtali hans það ár. Eðlilega var greiðslan til OG Capital ehf. ekki á skattframtali Illuga þar sem greiðslan var til fyrirtækis hans en ekki hans persónulega og var ekki greidd út til hans í formi launa.
Frétt Stundarinnar fjallaði hins vegar um greiðslu Orku Energy til OG Capital árið 2012 sem einnig var vegna vinnu Illuga fyrir Orku Energy. Greiðslur frá Orku Energy vegna ráðgjafarvinnu Illuga Gunnarssonar námu því hins vegar meira en 5,6 milljónum króna. Illugi hefur hins vegar sagt að hann hafi ekki fengið meira greitt frá Orku Energy en þessar 5,6 milljónir. „Þetta er eina greiðslan sem ég hef fengið frá þessu fyrirtæki,“ sagði hann við RÚV um helgina. Tekið skal að Illugi hagaði orðum sínum þannig að skilja má að hann hafi eingöngu verið að vísa til greiðslna til sín persónulega en ekki til fyrirtækis í sinni eigu.
Athygli vekur einnig að Illugi birtir ekki skattframtal sitt fyrir árið 2011 en á því framtali koma væntanlega fram laun sem hann greiddi sér út úr OG Capital ehf. það ár en ekki er vitað hvaðan þær launagreiðslur bárust inn í fyrirtækið.
Spurningum ósvarað um hagsmunatengsl
Stundin sendi Illuga spurningu um greiðslu frá Orku Energy til OG Capital ehf. í gær en hann hefur ekki svarað hennni og svarar henni heldur ekki í færslu sinni á Facebook.
Þrátt fyrir að umrædd viðbótargreiðsla frá Orku Energy, sem Illugi tilgreindi ekki, hafi borist til einkahlutafélags Illuga, en ekki milliliðalaust til hans persónulega, kom greiðslan Illuga til góða. Hversu mikið til góða er hins vegar ekki vitað. Einkahlutafélagið greiddi Illuga síðan lán sem það hafði fengið hjá honum upp á 400 þúsund krónur. Þá greiddi félagið kostnað fyrir rúmlega 100 þúsund krónur. Auk þess keypti vinur Illuga, stjórnarformaður Orku Energy, einkahlutafélagið af honum, samhliða því að hann keypti íbúð Illuga. Gera má ráð fyrir því að greiðslan sem barst einkahlutafélagi Illuga hafi birst í virði félagsins þegar það var keypt, nema Illugi hafi tekið á sig að lækka verðið niður fyrir raunvirði.
Athugasemdir