Nefnd um veitingu ívilnana til nýfjárfestinga hefur ekki fengið tilmæli, fyrirmæli, leiðsögn eða leiðbeiningar af neinu tagi vegna stefnu ríkisstjórnarinnar um að ekki verði veittar ívilnanir til mengandi stóriðjuverkefna. Verklagi og starfsreglum nefndarinnar hefur með engum hætti verið breytt. Þetta staðfestir upplýsingafulltrúi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í samtali við Stundina. Þannig liggur nú enn skýrar fyrir en áður að orð sem Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra lét falla á Alþingi þann 9. febrúar síðastliðinn áttu sér ekki stoð í raunveruleikanum. Þá standast skýringar hennar á ummælunum heldur ekki skoðun.
Eins og Stundin greindi frá í síðustu viku fór ráðherrann með rangt mál þegar hún sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma að þriggja manna nefnd ráðuneytisins um veitingu ívilnana hefði fengið tilmæli um að leggja aukna áherslu á tiltekin atriði sem kveðið er á um í lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga. Orðrétt sagði Björt: „Í rammalöggjöfinni er talað um náttúru- og umhverfisvernd. Við ætlum að draga þá þætti ofar og hafa þá ofar en hina. Sú þriggja manna nefnd sem er í ráðuneytinu hefur fengið þau tilmæli.“ Þegar Stundin óskaði eftir upplýsingum um tilmælin sem Björt vísaði til kom í ljós að nefndin hefði engin slík tilmæli fengið.
Útskýringar Bjartar standast ekki
Björt hefur útskýrt rangfærsluna á þá leið að hún hafi ekki verið að vísa til „tilmæla“ heldur „leiðsagnar“. „Orðin „tilmæli“ og „leiðsögn“ eru í minni málnotkun mjög skyld og þegar ég ræddi þetta við Oddnýju Harðardóttur í þinginu var það sú hugsun sem ég vildi færa fram,“ sagði hún í tölvupósti til Stundarinnar. Ráðuneytið kannast þó ekki við að nefndin hafi fengið leiðsögn á borð við þá sem Björt lýsti í þingræðu sinni.
Ráðherra hefur einnig sagt að með orðum sínum um tilmæli eða leiðsögn hafi hún beinlínis verið að vísa til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og að öll ráðuneyti vinni nú eftir henni. Hins vegar liggur fyrir að orðin voru látin falla í svari við fyrirspurn sem laut að því hvernig stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar yrði fylgt eftir, þ.e. til hvaða aðgerða, lagabreytinga eða stjórnvaldsaðgerða yrði gripið til í því skyni að koma stefnuyfirlýsingunni í framkvæmd. Tekið skal fram að stefnuyfirlýsingar ríkisstjórna hafa ekkert lögformlegt gildi.
Athugasemdir