„Við erum komin til höfuðborgarinnar og á leiðinni á sambandsþingið,“ sagði Beatrix von Storch, einn leiðtoga hægri öfgaflokksins Alternative für Deutschland, AfD, þegar niðurstöður úr sambandsþingskosningum í Berlín voru kunngjörðar fyrr í vikunni. Georg Pazderski, leiðtogi flokksins í Berlín, talaði um fordæmalausan árangur, það hefði aldrei gerst áður í Berlín að flokkur færi úr núlli og upp í tveggja stafa tölu.
AfD fékk 14,2 prósent atkvæða í kosningunum sem fram fóru síðastliðinn sunnudag, einungis 3,4 prósentum minna en flokkur Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, Kristilegir demókratar, CDU. Það er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur fengið í borginni frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Niðurstaðan er áfall fyrir Merkel og þá stefnu sem hún hefur rekið í flóttamannamálum en þennan mikla sigur AfD má að miklu leyti rekja til óánægju fólks í þeim málaflokki. Niðurstaðan er ekki síður áfall fyrir marga Berlínarbúa sem tengja borgina sína frekar við umburðarlyndi gagnvart minnihlutahópum og almennt frjálsræði heldur en útlendingaandúð og þjóðernishyggju.
Sósíaldemókratar, SPD, flokkur borgarstjóra Berlínar, Michael Mullers, er áfram stærsti flokkurinn, með 21,6 prósent fylgi. Þar á eftir koma Kristilegir demókratar með 17,6 prósent, þá vinstri flokkurinn Linke með 15,6 prósent, síðan flokkur Græningja með 15,2 prósent og loks AfD með 14,2 prósent. Þrátt fyrir að þessir flokkar hafi þegar gefið það út að þeir muni ekki vinna með AfD er ekki þar með sagt að flokkurinn muni ekki hafa nein áhrif. Með fulltrúa sína í borgarkerfinu gætu þeir meðal annars haft bein áhrif á styrkveitingar til verkefna sem hafa með flóttafólk að gera.
Athugasemdir